Hvernig á að skilja þær aðgerðir sem Bandaríkjamenn og Ísraelar hafa efnt til gagnvart Íran? Hvaða skoðun sem menn hafa á framkvæmdinni verður að svara því hvort heimurinn getur sætt sig við að klerkastjórnin Íran eignist kjarnorkuvopn? Í þeirri upplýsingaóreiðu sem ríkir hafa margir reynt að tala niður möguleika þess en staðreyndin er sú að Íran bjó yfir því sem kallað er kjarnorkuleynd eða kjarnorkuþröskuldsástandi (threshold state). Það er ástand þar sem eitt ríki býr yfir allri þeirri tækni, þekkingu og innviðum sem þarf til að þróa kjarnorkuvopn hratt og örugglega, án þess að hafa í raun gert það enn. Að vera komið upp í 60% auðgun úrans er slíkt ástand. Það að Íran sé í slíkri aðstöðu sagði mönnum að tími skriffinskurnnar væri liðinn og nú yrði að taka ákvörðun um aðgerðir, sem Bandaríkjamenn gerðu. Hve lengi þær duga er óvíst.
Íran hefur undanfarin misseri augljóslega gengið lengra og lengra í auðgun úrans og ýtt undir tortryggni alþjóðasamfélagsins og ekki viljað eyða þeirri tortryggni með eðlilegu eftirliti. Samskipti Írans og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (International Atomic Energy Agency, IAEA) hafa verið flókin og spennuþrungin um árabil, einkum vegna deilna um þessa áætlun Írans um auðgun úrans.
Íran lítur á kjarnorkuáætlun sína sem mikilvægan hluta af þjóðaröryggi og sjálfstæði til að þróa sína eigin tækni. Þótt Íranar haldi því fram að áætlunin sé friðsamleg, gefur hún þeim augljóslega strategískt vægi í samningaviðræðum og á alþjóðavettvangi. Fullur samstarfsvilji við IAEA gæti takmarkað frelsi Írans til að þróa áætlunina á eigin forsendum, sem stjórnvöld líta á sem óásættanlegt í ljósi utanaðkomandi þrýstings og refsiaðgerða.
Margoft vakið vantraust
Árið 2002 afhjúpaði íranskur andspyrnuhópur að Íran væri með kjarnorkustöðvar í Natanz og Arak sem ekki hefði verið gerð grein fyrir. Það vakti upp grunsemdir um leynilega kjarnorkuvopnaþróun. Þetta markaði upphaf núverandi deilu. IAEA hóf ítarlegar rannsóknir á starfsemi Írans og frá 2003 varð Íran háð auknu eftirliti vegna gruns um brot á Sáttmála um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (Non-Proliferation Treaty, NPT). Það er alþjóðlegur samningur sem var undirritaður árið 1968 og tók gildi 1970. Þess má geta að Ísrael var talið komið með kjarnorkuvopn áður en samningurinn tók gildi þó að Ísraelsmenn hafi aldrei staðfest tilvist þeirra.
Fyrir tæpum áratug hóf Íran að brjóta takmarkanir samningsins, meðal annars með því að auka auðgun úrans upp í 60% og takmarka aðgang IAEA að eftirlitsbúnaði. Þetta leiddi eðlilega til versnandi samskipta við IAEA. Hafa verður í huga að Íran lítur á IAEA sem stofnun sem er að hluta undir áhrifum Vesturlanda, sérstaklega Bandaríkjanna og Ísraels, og því andsnúin hagsmunum Írans. Þetta vantraust á rætur í langvarandi spennu, til dæmis vegna refsiaðgerða, pólitískrar einangrunar og ásakana um hlutdrægni IAEA í skýrslum um íranska kjarnorkuáætlunina. Íranir telja að IAEA sé oft notað sem tæki til að þrýsta á þá frekar en hlutlaus eftirlitsstofnun.
Eftirlit í sjálfheldu
Í júní 2025 var svo komið að IAEA lýsti Íran hafa brotið gegn skuldbindingum sínum um kjarnorkuvopnaeftirlit, í fyrsta sinn í nærri 20 ár. Í skýrslu frá 31. maí 2025 sagði IAEA að Íran hefði framkvæmt leynilega kjarnorkustarfsemi á þremur óuppgefnum stöðum (Lavisan-Shian, Varamin og Turquzabad) og neitað að veita fullnægjandi skýringar á ummerkjum um auðgað úran. Atkvæðagreiðsla í stjórn IAEA, studd af 19 af 35 löndum, og borin fram af Bandaríkjunum, Bretlandi, FRakklandi og Þýskalandi lýsti Íran þannig að landið hlýddi ekki („non-compliance“) NPT-skuldbindingum. Stjórn Írans kallaði þessa ákvörðun „pólitíska“ og tilkynnti að hún myndi bregðast við með nýrri auðgunarstöð og háþróaðri skilvindum á Fordo.
Íranar telja að þeir hafi uppfyllt skuldbindingar sínar en fengið refsiaðgerðir og árásir í staðinn, sem ýtir undir tregðu til frekara samstarfs við IAEA án trygginga um öryggi og afnám refsiaðgerða.
Að auðga úran er tímafrekt
Fyrir þá sem vilja setja sig inn í eðlisfræði málsins þá er auðgun úrans mjög misjöfn eftir því hvað er ætlunin að gera. Ef ætlunin er að framleiða rafmagn er almennt engin ástæða til að auðga það umfram 3-5%. Jafnvel til tilraunastarfsemi, svo sem við þróun raforkuframleiðslu, er engin ástæða til að auðga það upp í meira en 20%. Hið sama gildir um ýmis lækningatæki, það er í fæstum tilvikum ástæða til að fara yfir 20% auðgun við gerð þeirra. Til að búa til kjarnorkuvopn hins vegar, þarf að ná í kringum 90% auðgun.
Að auðga úran er tímafrekt og erfitt ferli, en það er erfiðast frá 1% upp í 60%. Síðan verður mun auðveldara að auðga það úr 60% upp í 90%. Þannig er auðgun úrans upp í 60%, sem eru ákveðin tímamót við þróun kjarnorkuvopna, langerfiðust. Þegar þessum tímamótum er náð er nauðsynlegt að krefjast útskýringa Írana og eftir atvikum kalla eftir viðbrögðum alþjóðasamfélagsins, nema menn ætli hreinlega að sætta sig við að Íran eignist kjarnorkuvopn. Svo gætu einhverjir tekið undir með spurningu Donalds Trumps sem spurði af hverju írönsk stjórnvöld fyndu yfirleitt þörf hjá sér til að framleiða rafmagn með kjarnorku, hafandi nánast endalausar birgðir af olíu og gasi?
Geta framleitt nokkur kjarnorkuvopn
Eina trúverðuga ástæðan fyrir Íran til að auðga úran upp í 60%, eins og Íran er að gera, er til þess að geta mjög hratt farið upp í 90% og búið til kjarnorkusprengju með sem minnstum fyrirvara, hvenær sem aðstæður í heiminum bjóða upp á það. Það þarf ekki flóknar samsæriskenningar þegar staðreyndir liggja fyrir. Rafael Grossi, forstjóri IAEA, hefur lýst áhyggjum af því að Íran sé eina ríkið án kjarnorkuvopna sem framleiðir slíkt magn af háauðguðu úraníum, sem vekur alvarlegar spurningar um tilgang áætlunarinnar.
Samkvæmt IAEA-skýrslunni frá því í maí hafði Íran safnað yfir 400 kg af úrani sem er auðgað upp í 60%, sem er nægilegt til að framleiða nokkur kjarnorkuvopn ef það er auðgað frekar. IAEA lýsti yfir áhyggjum af „verulegri aukinni framleiðslu“ á mjög auðguðu úrani, sem er óvenjulegt fyrir ríki án kjarnorkuvopnaáætlunar. Eins og bent var á að framanverðu er það að vera komin upp í 60% auðgun augljós vísbending um vilja til að auðga úranið meira.