Fæðingarreynslan er minning sem dvelur með okkur konum alla ævi og það er alveg ótrúlegt hvað hún er fersk í minninu alla ævi. Kannski má segja að fæðingarminningin sé sú minning sem hafi hvað mest áhrif á konur.
Konur muna fæðinguna sína yfirleitt í nokkrum smáatriðum og þó tíminn líði verður hún ljóslifandi um leið og talið berst að henni.
Það kemur kannski ekki á óvart en það sem konur muna helst er hvernig hugsað var um þær í fæðingunni og hvernig þeim leið með fólkinu í kringum sig. Konur muna betur hverjir voru í kringum þær og hvaða áhrif það hafði á líðan þeirra en nákvæmlega hvernig fæðingarútkoman var, hvort fæðingin hafi verið skráð sem góð, hröð, venjuleg eða eitthvað annað.
Þetta virðist eiga jafnt við aðstandendur og fagfólk. Konur muna hvernig var komið fram við þær, augnsambandið, hvort viðkomandi hafði áhuga á þeim eða ekki, andardráttinn og nærveruna, stök orð og umhyggju. Muna hvort hlustað var á þær, þeim hjálpað og þær studdar í gegnum ferlið. Hvort þær voru virtar og komið fram við þær af virðingu.
Konur muna líka yfirleitt hvaða tilfinning var innra með þeim í ferlinu og hvort þær upplifðu sig við stjórnvölinn eða ekki. Þessi tilfinning, að upplifa sig við stjórn og upplifa virðingu, er ein sterkasta minningin sem situr eftir með konum eftir fæðingu.
Konur sem upplifa gott teymi í kringum sig, þar sem þær eru studdar, efldar, hvattar áfram og á þær hlustað og þær virtar upplifa sig öflugri og sterkari á eftir. Konur sem hafa upplifað þennan stuðning tala oft um að þeim líði eins og þær geti allt, að þær séu einstakar og getumiklar og það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve mikilvægt veganesti sú tilfinning er út í lífið.
Það er gott fyrir barnshafandi konu að hafa þetta í huga, að fæðingarreynslan sé minning sem kona man og velta því fyrir sér hvernig best sé hægt að vernda fæðingarminninguna, pæla í því hvað skipti sig máli, hverjir eiga að vera með í fæðingunn og hvar konunni líður best.
Efst í huga okkar sem komum að fæðingum ætti alltaf að vera ,,hvernig mun hún muna eftir þessum degi?”