Eitt öflugt verkfæri til að nýta sér í fæðingu er öndun. Það að leggja áherslu á öndun til að róa hugann og stilla verki eru alls ekki ný sannindi en það má alveg halda því til haga hvað það er gagnlegt. Róleg og yfirveguð öndun, sem helst hefur verið æfð, kemur flestum vel inn í fæðinguna sína og jafnvel alveg í gegnum hana.
Það getur til dæmis verið sérlega hjálplegt að draga andann djúpt og anda frá sér á löngum hægum andardrætti og endurtaka að minnsta kosti þrisvar sinnum, auðvitað er ákjósanlegt að gera það oftar. Leggja áherslu á útöndunina því þar liggur spennulosunin. Við könnumst flest við það að þegar við dæsum eða stynjum, þ.e. blásum lofti frá okkur erum við að losa spennu, samþykkja aðstæður og halda áfram meðan þegar við erum spennt og stíf höldum við frekar niðri í okkur andanum.
Sem sagt galdurinn er að leggja áherslu á útöndunina og endurtaka eftir þörfum. Undanfarna daga hef ég meir að segja rekist á myndir á facebook sem auðvelt er að horfa á og fylgja eftir (m.a. mindful.org á fb).
Meðvituð hæg öndun hægir á hjartslætti og slær á kvíða og sársaukaboð, hluti af því tengist önduninni, eitthvað má skrifa á að einbeitingin fer á öndunina og hverfur þá frá öðrum hugsunum. Og stundum dettur bara allt í takt og virkar og tíminn líður og líður og það eina sem kona hugsar um er næsti andardráttur.
Það að nýta sér öndun sem slökun í fæðingu nýtist í öllum fæðingum, óháð því hvar þær byrja, hvernig þær eru og hvernig og hvar þær enda. Einföld leið til að róa hugann í nýjum og oft strembnum aðstæðum. Öndunin nýtist óháð því hvort kona er á ferðinni eða rúmföst.
Kannski er versta gildran að festast í því að kona haldi að hún verði að anda rétt. Það er einfaldlega ekki hægt að ,,anda rangt", kannski ómeðvitað eða ósjálfrátt en stimplarnir ,,rétt" og ,,rangt" eiga ekki við í öndun (eða ættu að eiga heima í fæðingu yfirleitt). Svo það allra mikilvægasta er auðvitað að anda þannig að það rói mann og nýtist manni, anda eins og manni langar til. Mörgum hjálpar heilmikið að bæta við hljóðum eins og haaa eða frussa og jafnvel purra.
Flestir finna svo að eftir því sem líður á fæðinguna, þegar samdrættirnir styrkjast og meira fjör færist í leikinn að meðvitaða öndunina minnkar, andardrátturinn verður grynnri og örari og ósjálfráðari. Þannig er það bara yfirleitt og eðlileg viðbrögð. Á einhverjum tímapunkti hætta flestar konur líka að spá í öndunina og fara meira að pæla í að halda áfram og koma sér í gegnum fæðinguna.
Ég hef ótal oft heyrt ,,glætan að ég hefði andað þessu barni í heiminn" eða ,,öndunin nýttist okkur meðan við hringdum upp á fæðingardeild" og það er bara allt í lagi, það er ekkert eitt rétt í þessum efnum.
Svo eru líka fjölmargir aðrir sem vitna um að öndunin hafi breytt fæðingunni til hins betra, gert krefjandi aðstæður bærilegar, einn andardrátt í einu.
Málið er að til þess að tækni nýtist í fæðingu verður maður að kunna hana og hafa tileinkað sér hana með æfingu. Það er til lítils að fletta upp orðinu öndunaræfing, daginn sem fæðingin byrjar og ætla að nýta sér öndun út í gegnum fæðinguna. Það nýtist langbest að hafa æft sig, heima, með fæðingarfélaga, í jóga eða á einhverju námskeiði. Því meir sem maður hefur lagt upp úr því að tileinka sér öndun því líklegra er að hún fleyti manni vel inn í fæðinguna, eða hreinlega í gegnum hana.