c

Pistlar:

5. nóvember 2015 kl. 14:17

Soffía Bærings (soffiadoula.blog.is)

Lenging fæðingarorlofs

Enn á ný er rætt um lengingu fæðingarorlofs og samkvæmt þessari frétt hér er lagt til að orlofið verði lengt úr 9 mánuðum í 12 og hámarksgreiðsla hækkuð, sem er auðvitað góðra gjalda vert. Það er löngu tímabært að lengja fæðingarorlofið og 12 mánuðir er mjög góð byrjun.

Samkvæmt greininni sem ég vísa í að ofan er lagt til að heildarorlof foreldra geti verið 12 mánuðir en þar sem lagt er til að réttur hvors foreldris fyrir sig verði fimm mánuðir sem ekki má ráðstafa og tveir mánuðir sem ráðstafa má að eigin vild þýðir það ekki tólf mánaða orlof í reynd.

Þessi uppsetning þýðir að foreldrarnir hafa lengra orlof en staðan að líkindum óbreytt fyrir barnið. Nái breytingin fram að ganga er lengingin í raun um mánuð fyrir krílið, móðirin (eða aðalumönnunaraðili barns) getur þá ráðstafað sér allt að 7 mánuðum í stað sex nú.

Þessi festing, að binda orlof við hvort foreldri fyrir sig, er ekki tekin með þarfir barnsins í huga, ekki tekin út frá þeirri vitneskju sem við höfum um umönnun ungbarna eða út frá þeirri vitneskju sem við höfum um þarfir nýrra foreldra heldur út frá hugsjónum fullorðins fólks um jafnrétti sem það vill sjá meðal fullorðins fólks. Þessi festing er meira einhversskonar grobb fyrir tímarit eða Norðurlandaráðsfundi, regla reglunnar vegna og skeytir í raun ekkert um það sem skiptir raunverulega máli, að búa barni og foreldrum þess vænan tíma í upphafi.

Nýfæddu barni er nefnilega slétt sama um samfélagsgerð okkar og hugmyndir um jafnrétti og aðra pólitík, nýfætt barn vill og þráir tengslaöryggi við eina manneskju, aðalumönnunaraðilann sem í flestum tilfellum er móðirin. Aðaltengslaumönnunaraðilinn annast barnið, örvar og hvetur fyrstu mánuði lífsins, þekkir inn á þarfir og verndar. Þetta tengslaöryggi tekur tíma að mynda og í kjöraðstæðum hefði móðirin (aðaltengslaaðilinn) meir en ár til að sinna því. Auðvitað er mikilvægt að aðrir tengslaaðilar komi að en til að byrja með er hlutverk þeirra annað fyrstu mánuðina og vex eftir því sem tíminn líður.

Fæðingarorlof er tími foreldra og barns til að kynnast og tengjast og það er bara heilmargt í gangi þessa fyrstu mánuði. Það að annað foreldrið hafi ráð á að vera heima með barnið í níu eða tólf mánuði í fullu orlofi kemur til með að skila sér á svo margan hátt út í samfélagið aftur. Kannski er lenging fæðingarorlofs, án kvaða, ein besta geðheilbrigðisfjárfesting sem samfélagið getur lagt út í.

Það að foreldrar barns geti ráðstafað árs fæðingarorlofi að vild sín á milli kemur til með að nýtast barninu og nýju fjölskyldueiningunni mun betur en festir mánuðir. 

Ég velti því líka fyrir mér afhverju ekki megi lengja orlofið, án kvaða? (eða leggja fram tillögu um slíkt)
Af hverju er pressa á að festa orlofið á báða foreldra? Af hverju má ekki einfaldlega bæta við orlofsmánuðum við það kerfi sem nú er og treysta svo foreldrum fyrir því að ráðstafa því eftir hentugleika? Hver fjölskyldueining hlýtur að finna út úr því hvernig það kemur best út, svo barnið njóti velferðarinnar. 

Okkur er allajafna treyst fyrir öðrum stórum afdrifaríkum ákvörðunum svo sem um hjúskap, vinnu, búsetu, lánatöku og líffæragjöf. Flest pör skipta einu og öðru á milli sín, og þau hljóta að geta klórað sig skammlaust út úr því að skipta niður fæðingarorlofinu af vitnesku og með virðingu og jafnræði í huga. Við verðum að treysta því að í velmenntuðu samfélagi, búi skynsamt fólk sem taki skynsamlegar ákvarðanir.

Með því að festa orlofið kemur allskonar til með að gerast, hliðarverkanir verða meðal annars að annað foreldrið nýtir ekki orlofið sem skyldi, eða orlofið er tekið þegar barnið er ekki lengur heima eða einn er skráður í orlof en er í raun í vinnu.

Með frjálsri ráðstöfun kemur líka allskonar til með að gerast. Einhverjir foreldrar munu skipta orlofinu jafnt, aðrir munu setja það allt á annan aðilann og þeir foreldrar sem eru einir koma til með að geta tekið orlof sem tveir séu. Þannig ættu allir að geta fullnýtt orlofið, barninu til heilla og allir setið við sama borð.

Við þurfum ekki að vera hrædd við að fyrsta ár barns leiði fólk í ,,gildrur” og taki allt jafnræði af heimilinu. Við þurfum ekki að vera hrædd við að foreldrar hafi ólík hlutverk eftir aldri barns. Við megum ekki vera svo trúuð á eitthvað að við viljum það láta yfir alla aðra ganga í nafni hugsjónar okkar, óháð því hvernig það þjónar öðrum.

Í allri umræðu um fæðingarorlof megum við ekki vera svo blind af hugsjónum okkar að við berjumst fyrir þeim til ógagns. Í umræðunni um fæðingarorlof verðum við að treysta því að foreldrar taki góðar ákvarðanir fyrir sig og sína. 

Soffía Bærings

Soffía Bærings

Soffía er doula og hefur verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja konum í gegnum fæðingu. Hún er áhugakona um mannréttindi fæðandi kvenna og velferð nýrra fjölskyldna.Hún heldur úti síðunni www.hondihond.is

Meira