Gleðilegt nýtt ár,
kannski er þessi grein fullseint á ferð en það verður þá bara að hafa það en ég var að hugsa um jólin, þegar mér finnst gott að stinga nefinu ofan í bók, hvaða bækur eru góðar til að lesa fyrir foreldra á meðgöngu og svo fyrsta árið og ákvað að deila með ykkur nokkrum af mínum uppáhaldsbókum.
Líklega þekkja margir Ina Mays Guide to Childbirth eftir Inu May Gaskin og með henni er hægt að mæla heilshugar, hún er listavel skrifuð, hvetjandi, eflandi og byggð á þekkingu og áratugareynslu ljósmóður í Bandaríkjunum. Ekki skemma krúttlegar gamlar fæðingarsögur sem skreyta bókina. Ina May hefur líka skrifað tvær aðrar bækur sem eru þess virði að lesa, annars vegar Birth Matters og svo Ina Mays Guide to breastfeeding.
Önnur bók eftir ljósmóður sem er alveg dásamleg, hvetjandi eflandi og hentar vel nýjum foreldrum og þeim sem eru að eignast sitt annað, þriðja, fjórða er Birthing from within eftir Pam England. Hún tekur svo vel á öllu heila ferlinu, er eflandi og hvetjandi og með mörg góð og hagnýt ráð.
Mindful birthing eftir Nancy Bardacke er mjög áhugaverð bók og ætti að grípa alla sem hafa áhuga á núvitund.
The Birth partner eftir Penny Simkin er góð bók, full af staðreyndum og góðum upplýsingum og er auðveld yfirlestrar og ætti að höfða til flestra. Penny hefur líka skrifað aðra mikilvæga bók í samvinnu við Phyllis Klaus sem heitir When survivors give birth og tekur á því hvernig kynferðisofbeldi getur haft áhrif á fæðandi konu.
Wonderweeks eftir Hetty Van de Rijter frábær doðrantur fyrir nýja foreldra og gefur góða innsýn og góðan skilning inn í líf og hugarheim barnsins. Það er líka hægt að nálgast app sem er tengt þessu sem er ótrúlega sniðugt.
Baby Calm er svo önnur bók fyrir foreldra sem má mæla heilshugar með, höfundur bókarinnar Sarah Ockwell-Smith hefur góða innsýn í hugarheim nýrra foreldra og miðlar af gæsku og mildi og hvetjur alla til að fylgja innsæi sínu.
Auðvitað eru líka íslenskar bækur spennandi. Mér þykir alltaf vænt um Upphafið eftir Huldu Jensdóttur, Fyrstu 1000 dagarnir eftir Sæunni Kjartansdóttur er aðgengileg bók sem byggir á tengslakenningum sem upplýsir vel og gefur ráð um umönnun barnsins fyrstu tvö árin. Sæunn gaf líka út bókina Arin sem enginn man sem er þess virði að lesa.
Þessa dagana bíð ég líka eftir nýrri bók sem heitir Bókin okkar, ný íslensk bók um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Ég hlakka til að lesa þá bók.
Þetta eru svona bækurnar sem komu fyrst upp í hugann og nýtist vonandi einhverjum í lestrarhugleiðingum.