Mér finnst ég loksins vera að öðlast góða reynslu af því að vera doula, komin með kjöt á beinin einhvern veginn. Margt í leik og starfi verður nefnilega ekki lært af bók heldur aðeins fengið með reynslunni og stundum finn ég að reynslan er farin að fleyta mér áfram í starfi mínu sem doula, sem er góð tilfinning.
Stundum í nýjum aðstæðum finnst mér þó ennþá skrýtið að segja hvað ég geri og hef jafnvel staðið mig að því að humma það fram af mér. En það er bara stundum. Algengustu spurningarnar sem ég fæ enn í dag eru:
,,Doula, hvernig berðu það fram?”
,,Dúla sem sagt, og hvað gera þær?”
Og æ oftar heyri ég ,,vinkona mín var með doulu- þekkiru hana?” eða ,,ég ætla að vera með doulu næst” eða ,,ég vildi óska þess að ég hefði verið með doulu”. Þá lýt bara höfði í hljóði og þakka fyrir starfsvettvanginn minn.
Doula er upphaflega grískt orð sem þýðir kvenkynsþjónn eða þræll, með síðari tíma merkingu um að vera kona sem aðstoðar verðandi fjölskyldur (sama í hvaða formi þær eru) í gegnum fæðingu. Ég veit ekki annað en að doula sé orð sem er notað um allan heim.
Doula er borið fram dúla og er kannski ekkert sérstaklega þjált á okkar ylhýra en það er ekki komið betra orð sem stendur. Ég er alveg skotin í öðrum orðum eins og stuðningskona við/ í fæðingu. Stuðningskona er mjög lýsandi fyrir starfið mitt og mér finnst orðið fylgja skemmtilegur leikur að orðum, við fylgjum konum, fylgjur voru líka oft dýr eða menn sem fylgdu fólki í lifanda lífi og svo er fylgja tímabundið líffæri sem nærir barn í móðurkviði. Margar aðrar tillögur hafa svo sem komið fram eins og hjálparhönd, eða hjálparhella, fæðingarhjálp og mörg fleiri sem eru alveg ágæt. Verandi elsk á tungumálið okkar tók mig smá tíma að venjast því að nota doula en það vandist hratt. Stuðningskona er líklega mest lýsandi. Doula, stuðningskona, fylgja mér finnst þetta allt falleg orð og svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort við höldum okkur við doula-orðið eða förum markvisst að passa að kynna stuðningskonur.
Starf doulunnar er fjölbreytt og skemmtilegt og felur alltaf í sér að styðja fjölskyldur, á þeim stað sem þær eru staddar, í gegnum meðgöngu og fæðingu og í sængurlegu.
Ég er orðin ansi þjálfuð í að segja ,,doula er kona sem styður aðra konu og fjölskyldu hennar fyrir, í og eftir fæðingu en tekur aldrei klínískt hlutverk”. Kannski svo þjálfuð að ég er orðin mónótónísk þegar ég nota lyfturæðuna mína.
En þannig er það samt, ég styð barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur fyrir, í og eftir fæðingu og veiti samfellda þjónustu. Sem sagt sama manneskjan sem fylgir þeim í gegnum allt ferlið. Það er ég kynnist parinu á meðgöngunni, við hittumst nokkrum sinnum oftast 2-3 þrisvar og förum yfir komandi fæðingu, hvaða óskir þau hafa og hvernig þau sjá fyrir sér fæðinguna og þannig þekkjumst við ágætlega þegar kallið kemur. Stundum setjumst við niður og förum lið fyrir lið yfir hvernig við getum búist við að fæðingin verði, stundum förum við yfir gagnlegar stellingar og stöður sem nýtast í fæðingarferlinu, stundum reynum við að kryfja hvernig við getum unnið með erfiðan ótta og stundum hittumst við bara og drekkum saman kaffi og treystum böndin.
Ég tek ekki ákvarðanir fyrir fólk eða reyni að benda þeim á valkosti A eða B, ég reyni mitt besta í að vera til staðar fyrir þau og finna leiðir með orðum og fræðslu til að efla þau og styrkja. Það þýðir að fólkið sem ég kynnist er bara allskonar, ég hef aðstoðað pör í heimafæðingu, á spítala, konur sem eru að fara í keisara. Konur sem þrá fæðingu án inngripa og konur sem vilja verkjastillingu sem fyrst. Ég hef verið sjálfstæðum konum innan handar með lítið stuðningsnet og konum sem eru umvafðar her manns. Ég hef verið með þegar von er á fyrsta barninu og öðru líka.
Ég er ekki góð í öllu og með tímanum slípast reynslan til og í einhverju er ég betri en öðru en ég finn líka að með tímanum er það ekki endilega hvað ég kann heldur meira hvað það er sem konurnar eru að spá sem skiptir máli. Stundum líður mér bara eins og ég sé klettur þarna út í hafinu eða tré sem veitir skjól.
Í fæðingunni kem ég þegar mín er óskað og fer þegar ég er beðin um það (en fer sjálf svona c.a. tveimur tímum eftir fæðingu ef enginn segir neitt). Engin vaktaskipti og tek í raun ekki pásur. Ég get sinnt fæðingunni 100%.
Hver fæðing er einstök og hvert par fer aðeins einu sinni í gegnum hverja fæðingu svo það er misjafnt hver aðkoma mín er. Ég er yfirleitt í sambandi við fólk þegar það finnur og fæðingin er í uppsiglingu, ég kíki oft heim til þeirra og ef það er byrjandi fæðing stoppa ég kannski í smá stund og fer aftur og kem svo aftur seinna en er áfram ef mín er þörf. Stundum hitti ég parið uppi á spítala um leið og þau fara en stundum kem ég beint í mesta fjörið.
Í fæðingunni get ég verið úti í horni og sagt ekki neitt, stundum er ég að spjalla, stundum nudda og stundum hughreysta. Allt eftir því hvernig fæðingin er og hvar í ferlinu við erum. Stundum sæki ég vatn og rétti út þvottapoka, stundum kinka ég bara kolli og stundum er ég að hjálpa til við að takast á við breyttar aðstæður. Stundum hef ég þurft að taka á öllu mínu og ekki haft hugmynd um hvað ég eigi að gera annað en að vera til staðar og reyni að taka bara vel eftir svo við getum rætt fæðinguna eftir á. Reyni í þá í veikum mætti að gera gagn en vera ekki fyrir.
Í flestum fæðingum spyr ég mig ítrekað, hvernig minning verður þessi fæðing og reyni að hugsa leiðir til þess að upplifunin þar og þarna verði sem jákvæðust fyrir alla.
Svo þegar barnið er fætt dreg ég mig oftast í hlé og reyni í öllu þysinu að leyfa foreldrunum nýju að njóta, ég reyni líka að grenja ekki úr mér augun og staglast á einhverju eins og ,,ji minn, þið eruð æði” sem ég finn að er pínu þema hjá mér. Ég finn aldrei jafnmikla aðdáun eins og í fæðingum. Það er ekkert eins heilagt.
Ég kveð svo nýju eininguna fljótlega og kem mér heim. Það er svo magnað að vera í fæðingu annarar fjölskyldu. Aukaafurð er að það er magnað að koma heim til sinnar eigin fjölskyldu eftir að hafa verið fæðingu annars barns. Stundin sem maður gengur aftur inn í húsið er heilög, það er eitthvað nýtt og fallegt heima hjá mér líka í hvert sinn. Fyrir það er ég svo þakklát.
Eftir fæðinguna hitti ég fólkið yfirleitt tvisvar, strax eftir fæðingu og svo nokkrum dögum seinna til að fara yfir fæðingarupplifunina og ef það er eitthvað sem ég get gert frekar. Annars kveðjumst við, oft í bili, og ég finn að þau eiga sérstakan stað í hjarta mér. Alltaf. Ég er alltaf að æfa mig í að eiga auðvelt með kveðjustundir en það er yfirleitt í kveðjustundunum sem ég man af hverju ég sinni þessu starfi með skrýtna heitinu.
Það sem rekur mig áfram er að finna, konu fyrir konu, fjölskyldu fyrir fjölskyldu að þau stóðu sterkari uppi fyrir vikið. Að með því að sitja á hliðarlínunni upplifðu þau kraft og styrk. Kannski vellíðan. Það er góð tilfinning, það er ástæðan fyrir því að ég er doula.