c

Pistlar:

17. febrúar 2013 kl. 18:11

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Tímastjórnun og geymslutiltekt

Fæstir sem ég þekki eiga tómar geymslur. Staðreyndin er sú að flest okkar hafa tilhneigingu til að geymslafylla þær geymslur sem við höfum úr að moða af mis þörfu dóti og drasli. Með tímanum fyllist geymslan, svo háaloftið, þar næst bílskúrinn þangað til einn daginn við fáum nóg, hreinsum út, förum í Kolaportið eða leggjum okkar af mörkum til Rauða krossins og skilum nýtilegu dóti í nytjagáma. Því stærri geymsla þeim mun meira dót.

Tíminn er í raun eins og geymsla. Því meira sem ég hef af honum því líklegri er ég til að gefa mér lengri tíma í verk sem ég gæti vandalítið lokið á skemmri tíma. Ég nota þessa samlíkingu gjarnan með þeim viðskiptavinum minna sem vinna langan vinnudag og/eða tvískipta vinnudeginum með því að fara heim á milli 17 og 18, sinna heimilinu, hjálpa börnunum með heimanámið, mata þau og hátta og setjast svo niður aftur til að halda áfram að vinna og þá jafnvel til miðnættis. Það kann að koma einhverjum á óvart en þetta mynstur er gríðarlega algengt. Íslendingar ku jú vinna hvað lengstan vinnudag nágrannaþjóða okkar en einhvern veginn er framleiðnin ekki í takt við tímann sem varið er í vinnu því eins og kom fram á nýafstöðnu viðskiptaþingi er framleiðni á íslandi mun lakari en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við í öllum geirum nema sjávarútvegi.

Það er því ekki samasemmerki á milli þess að vinna langan vinnudag og koma miklu í verk. Mín kenning er sú að með því að venja okkur á það að vinna langan vinnudag venjum við okkur um leið á ákveðið vinnulag sem hefur áhrif á hvernig við forgangsröðum og hve miklum tíma við verjum til ákveðinna verka. Ég hef heyrt fólk segja „ég geymi ákveðna tegund verkefna til kvölds af því að ég er vön/vanur að vinna þau á kvöldin“, eða „af því að ég er svo oft truflaður/trufluð yfir daginn“, eða „af því að ég er á fundum allan daginn og hef ekki tíma til að „vinna““. Fólk er sem sagt búið að fá sér auka geymslu og byrjað að hrúga dóti þar inn án þess að jafnvel að átta sig á því. Skiptir engu hvort geymslan bætist aftan við vinnudaginn og lengir hann fram yfir kvöldmat, bætist við að kvöldi þegar börnin eru komin í ró, eða bætist framan við vinnudaginn.

Ég ætla að leyfa mér að vera hreinskilin. Það er ekki tímastjórnunarráð að vinna lengri vinnudag! Það er hættulegur gálgafrestur því með því móti fáum viðekki þá hvíld og örvun sem við þurfum á að halda á milli vinnulota. Við fáum ekki tækifæri til að rækta sambönd við fólkið sem í kringum okkur er og er eitt lykilatriða í vellíðan og góðri heilsu. Við sinnum ekki áhugamálum okkar sem hafa sama tilgang og svo mætti lengi telja.

Hvað ef þú gefur þér EKKI þennan auka tíma að kvöldi eða seinnipart dags eða snemma morguns? Hversu miklar líkur eru á að þú náir að ljúka einhverjum þessara verkefna að hluta eða jafnvel alveg á meðan á vinnudeginum stendur? Í stað þess að stækka geymsluna að leita leiða til að ráðast að rót(um) vandans, hver svo sem hann er. Ef þú situr of marga fundi. Hvað geturðu gert til að fækka þeim/stytta þá? Ef þú verður fyrir of mikilli truflun á meðan á vinnudeginum stendur. Hvað geturðu gert til að lágmarka þá truflun? O.s.frv. Sumt er hugsanlega erfitt að eiga við en reynsla mín hefur kennt mér að flestir geta gert breytingar á sínu vinnulagi sem gerir það að verkum að við gefum okkur tíma til að hlaða batteríin og mætum fersk til vinnu að morgni, tilbúin til að takast á við verkefni dagsins.

Í  næstu pistlum verður farið yfir nokkur góð ráð til að nýta vinnudaginn betur og taka þannig smátt og smátt til í geymslunni, ná betra jafnvægi, auknum afköstum yfir daginn og betri hvíld að vinnudegi loknum.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
ACC stjórnendaþjálfari og annar eigenda Vendum, www.vendum.is
unnur@vendum.is

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira