Ég gekk inn í grunnbúðir þann 18. apríl nákvæmlega þremur árum eftir að íshrunið átti sér stað í Khumbuísfallinu. Ég verð alltaf pínu meyr þennan dag og því mjög hugsi þegar ég gekk inn í búðirnar okkar.
Aðstæður okkar í grunnbúðum eru ágætar, tjaldið mitt er stórt og rúmgott svo ég get raðað dótinu mínu og haft góða yfirsýn yfir allt. En kannski eins og gefur að skilja eru aðstæður almennt frumstæðar. Hér eru salernistjöld sem eru nokkurskonar kamrar og sturtutjald en sturtan er fata með heitu vatni og kanna sem maður sturtar vatninu yfir sig með, einfalt gott og getur ekki bilað. Allur þvottur er þvegin í höndunum og eldað á gasi.
Leiðangurinn minn er ekki formlegur „commercial“ leiðangur heldur klifra ég með Tenjee Sherpa og Dendi Sherpa sér um að græja alla díla fyrir okkur, hann er einskonar viðskiptastjóri ferðarinnar. Planið er því undir okkur komið og vissulega fylgir þessu minni þjónstua heldur en hjá þeim fyrirtækjum sem selja formlega leiðangra. Ég ber til dæmis allt mitt dót sjálf en fæ aðstöðu í tjaldbúðum hjá leiðangri sem er að fara á Lothse. Til þess að minnka allt álag þá deilum við Tenjee tjaldi og búnaði á fjallinu og ég verð að segja að ég kann mjög vel við þetta fyrirkomulag.
Tenjee er frábær, hann er bæði klifur sherpa og lama þannig að ég hef lært ýmislegt af honum í búddískum fræðum. Hann kyrjar kvölds og morgna í tjaldinu og ég kann vel að meta þær hefðir sem fylgja trúarbrögðunum. Tenjee sá líka um Puja athöfnina sem haldin var í grunnbúðum áður en lagt var á stað á fjallið. Þetta er þriggja klukkustunda athöfn þar sem beðið er um góðar vættir á fjallinu og farið er í gegnum ákveðið ferli. Í athöfninni eru bænaflöggin reist sem prýða grunnbúðir hvar sem maður fer. Það getur verið gott að skrifa bænir sínar og óskir á flöggin þannig að þau blakti út í vindinn en það þykir boða góða lukku. Eftir athöfnina eru Sherparnir og klifrararnir tilbúnir til þess að halda á fjallið.
Ég er nokkuð heppin með það að eiga þó nokkuð af félögum sem eru að reyna við fjallið í ár. Það styttir manni stundir að geta skroppið í te og skiptst á sögum. Svona leiðangur gengur nefnilega að miklu leyti út á þolinmæði, að bíða eftir réttum aðstæðum, að bíða eftir því að verða tilbúinn að takast á við hæðina, eða toppadaginn. Þetta er endalaus bið og þá er gott að vera sjálfum sér nógur eða geta stytt sér stundir í félagi við aðra. Það tekur líka á taugarnar að bíða, það er mikið undir - tími, peningar og vinna - en fyrst og fremst óvissan um það hvort að maður komist alla leið eða ekki. Þetta er nefnilega ekki búið fyrr en maður er kominn aftur til baka, það getur allt gerst í millitíðinni og það er nákvæmlega enginn öruggur með það að geta toppað.