c

Pistlar:

6. júlí 2017 kl. 21:01

Vilborg Arna Gissurardóttir (vilborgarna.blog.is)

Hey, förum í útilegu!

Það að gista í tjaldi er frábær upplifun þegar manni líður vel, að sofa í náttúrinni og anda að sér fersku súrefni fær mann til að vakna endurnærður á líkama og sál. Að sama skapi getur upplifunin orðið neikvæð ef manni er kalt eða nær ekki að festa svefn af einhverjum ástæðum.  Hér koma nokkur ráð til þess að fá sem mest út úr tjaldsvefninun.

Íslenskar sumarnætur eru ekkert alltaf hlýjar og því getur skipt máli að klæða sig rétt fyrir svefninn ef svefnpokinn er ekki þeim mun hlýrri.  Sumarpokinn minn miðar að því að geta sofið í 4° hita en samt liðið vel. Ég er nú óttaleg kuldaskræfa svo ég klæði mig nánast alltaf í ullarnærföt þegar ég gisti í tjaldi og þá líður mér frábærlega vel. Mesta hitatapið er út um hnakkann svo að skella húfu á kollinn er alveg möst ef manni er kalt. Mér finnst frábært að nota svona húfukollu því að er hægt að bretta faldinn niður og skýla augunum ef það er of bjart inni í tjaldinu.Flestir þekkja að geta ekki sofnað ef þeim er kalt á fótunum og því er gott að fara í ullarsokka, ég nudda líka oftast tásurnar áður en ég fer í þá og lykilatriði er að vera 100% þurr á fótunum.

Þeir sem eiga Nalgene flösku eða eitthvað sambærilegt sem þolir hita geta soðið sér vatn og notað flöskuna til þess að hita pokann upp. Þetta er eitt það notalegasta þegar gist er í tjaldi í mjög köldum aðstæðum.

Fyrir þá sem eiga erfitt að festa svefn og þurfa að hafa algjört hljóð í kringum sig er nauðsynlegt að nota eyrnartappa. Mér finnst það alveg frábært ef það er vindur og læti í tjaldinu.

Ég mæli líka með því að fara heitur ofan í pokann því líkaminn á erfitt með að hita sig upp þegar hann liggur í kyrrstöðu. Það er annaðhvort hægt að fara í stutta göngu fyrir svefninn eða gera magaæfingar í pokanum. Það fær blóðið á hreyfingu og hitar kroppinn.IMG_7002-e1471012523119

Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir

Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: “Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, – annars finnurðu bara afsökunina“. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum. Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi. Meira