Ungfrú Ísland var frumsýnd í Borgaleikhúsinu á föstudaginn. Verkið er byggt á verðlaunaskáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur rithöfundar og er bókinni komið vel til skila á Stóra sviði leikhússins.
Ungfrú Ísland fjallar um kvennabaráttu og byltingu og fangar tíðarandann vel þegar konur áttu að fæða börn og hugsa um heimili. Þær áttu alls ekki að hafa sína eigin drauma og þrár og alls ekki skrifa bækur. Í bókinni er líka farið yfir hinseginleika sem ekki þótti góður.
Íris Tanja Flygenring fer með aðalhlutverkið í Ungfrú Ísland og leikur Heklu. Aðrir leikarar eru Birna Pétursdóttir, Esther Talía Casey, Fannar Arnarsson, Haraldur Ari Stefánsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jörundur Ragnarsson, Sólveig Arnarsdóttir og Unnsteinn Manuel Stefánsson.
Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstýrir Ungfrú Ísland en Filippía Elísdóttir hannar búninga og Kristinn Arnar Sigurðsson gerði leikmyndina. Unnsteinn Manuel Stefánsson sér um tónlistarstjórn og Elín G. Gísladóttir um leikgervi. Leikgerðin er í umsjón Bjarna Jónssonar í samvinnu við leikstjóra. Pálmi Jónsson sér um lýsingu og Brynja Björnsdóttir um meðhöndlun leikmuna og myndbandshönnun sem er fyrirferðamikil í verkinu. Hljóðmynd var í höndum Unnsteins Manuel og Jóns Arnar Eiríkssonar.
Eins og sjá má á myndunum var gleði í loftinu enda stórskemmtileg sýning hér á ferð sem á eftir að laða að sér fjölbreyttan hóp gesta!
Auður Ava var á meðal gesta á frumsýningunni en þangað mætti líka íþróttastjarnan Ólafur Stefánsson og Kristín Þorsteinsdóttir eiginkona hans.