Hótel Holt fagnaði 60 ára afmæli í vikunni og af því tilefni var boðið í glæsiteiti. Geirlaug Þorvaldsdóttir, eigandi Hótels Holts, hefur hugsað um hótelið eins og eitt af börnunum sínum en það býr yfir mikilli sérstöðu hvað varðar innréttingar og húsmuni. Svo ekki sé minnst á listaverkasafn hótelsins.
Geirlaug sagði í viðtali við Viðskiptamoggann á dögunum að hún væri alltaf með eitthvað nýtt á prjónunum.
„Ég er vakin og sofin yfir hótelinu. Er alltaf að hugsa eitthvað nýtt. Núna er ég að hugsa eitthvað alveg splunkunýtt. Ég fékk nýja hugmynd en veit ekki hvort ég kem henni í verk,“ segir Geirlaug leyndardómsfull og hefur sem fyrr mörg járn í eldinum.