Samskipta- og hönnunarstofan Aton hélt sína fyrstu Kaffistofu í gær, fimmtudaginn 20. febrúar. Viðfangsefnið var mörkun á Íslandi og fjallaði Sigurður Oddsson, hönnunarstjóri Aton, um stöðu hennar og þau tækifæri sem eru til staðar.
Velti hann upp spurningum um hvort allt sé að verða eins og hvaða máli aðgreining skipti á markaði. Fyrirlesturinn var meðal annars áminning til þeirra sem starfa í bransanum að fegurð hefur notagildi.
Viðburðurinn gekk einstaklega vel og var sá fyrsti í röð af Kaffistofum Aton sem eiga það sameiginlegt að fjalla um ólík viðfangsefni sem tengjast samskiptum. Markmið Kaffistofu er að bjóða fólki að koma og heyra eitthvað ferskt, spjalla um eitthvað áhugavert og mynda tengsl.
„Kaffistofa fór fram úr okkar björtustu vonum enda var mætingin gífurlega góð. Við vitum að það eru margir þarna úti sem hafa áhuga á samskiptum og eru tækifæri til mörkunar mjög áhugavert viðfangsefni til þess að tækla.
Siggi hóf störf hjá okkur sem hönnunarstjóri síðasta haust og dýrmætt að fá hans innsýn á stöðu mála hér á Íslandi eftir að hafa starfað hjá stórum stofum erlendis. Við erum strax farin að hlakka til næstu Kaffistofu sem verður í vor,“ segir Sif Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.