Upphafskonum Kvennaathvarfsins var afhent fyrstu varasettin í átakinu „Byggjum nýtt Kvennaathvarf“ sem Á allra vörum fer yfir. Á allra vörum er kynningar- og fjáröflunarátak þar sem þjóðin sameinast um ákveðið málefni og lætur gott af sér leiða.
„Þetta er í 10. sinn sem við veljum málefni og setjum kastljósið á það. Bygging nýs athvarfs snerti hjörtun okkar, og því ákváðum við að velja þetta mál. Vonandi náum við að fjármagna lokahnikkinn í byggingunni sem mun hýsa þessa mikilvægu starfsemi,“ segir Elísabet Sveinsdóttir, Á allra vörum, í fréttatilkynningu.
Hugmyndin að stofnun Kvennaathvarfs kom fyrst fram í hópi innan Kvennaframboðsins í Reykjavík sem bauð fram í borgarstjórnarkosningunum árið 1982. Markmiðið var að koma á laggirnar athvarfi fyrir konur sem ekki gátu dvalist á eigin heimili vegna ofbeldis. Hópurinn komst fljótt að þeirri niðurstöðu að það væri ekki æskilegt að tengja stofnun kvennaathvarfs við kosningabaráttuna, þar sem málefnið væri raunverulega óháð stjórnmálaskoðunum. Því var ákveðið að stofnun Kvennaathvarfs yrði þverpólitísk aðgerð. Í upphafi var lögð áhersla á að skoða ofbeldi gegn konum af hálfu maka þeirra í samhengi við veika stöðu kvenna og undirokun þeirra í samfélaginu.
„Þann 6. desember 1982 var Kvennaathvarfið opnað. Það voru engar venjulegar konur sem stóðu að baki þessu magnaða athvarfi, og okkur langar að heiðra þær sérstaklega í upphafi þessa átaks og sýna þeim bæði þakklæti og heiður, ásamt því að afhenda þeim fyrstu varasettin,“ segir Gróa Ásgeirsdóttir, Á allra vörum.
Þetta eru þær Hildigunnur Ólafsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Ásdís Rafnar og Álfheiður Ingadóttir sem fóru fyrir stærri hópi kvenna, en margar þeirra eru fallnar frá.
Líkt og áður vekur Á allra vörum athygli á málefninu með því að selja varasett frá danska merkinu Gosh, þar sem gloss, varalitur og varablýantur eru saman í pakka.
„Varasettunum okkar hefur alltaf verið vel tekið og við finnum gríðarlegan meðbyr núna, enda málefnið mjög þarft,“ segir Guðný Pálsdóttir, Á allra vörum.