Það var glatt á hjalla og stútfullt út úr dyrum á Skuggabar við Pósthússtræti fimmtudagskvöldið síðastliðið. Jón Gnarr kynnti framboðslista Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, fyrir kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Honum til halds og trausts var ónafngreindur töframaður sem gaf kvöldinu dulúðugan blæ.
Líkt og segir í tilkynningu frá formanni Vöku, Sæþóri Má Hinrikssyni, var öllu til tjaldað þetta kvöld.
„Vaka hefur verið með meirihluta stúdentaráðs síðastliðið ár og ljóst er að sigurvegarar næstu kosninga taka við góðu búi. Ég er þvílíkt stoltur af bæði því starfi sem við í Vöku höfum afrekað á árinu, en tilfinningin er sú að mun fleiri hafi tekið eftir stúdentaráði og störfum okkar í vetur en áður,“ segir Sæþór.
„Ég er gífurlega spennt fyrir þessu öllu og finnst mikill heiður að fá að leiða lista Vöku á félagsvísindasviði og það með svona frábæru fólki,“ segir Andrea Edda Guðlaugsdóttir, oddviti á lista félagsins á sviðinu.
Aðrir oddvitar á lista Vöku eru Eiríkur Kúld Viktorsson á heilbrigðisvísindasviði, Diljá Valsdóttir á hugvísindasviði, Gunnar Ásgrímsson á menntavísindasviði og Sófus Máni Bender á verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Kosningar til stúdentaráðs fara fram á Uglu dagana 2. og 3. apríl.