Hönnunarhátíðin Hönnunarmars verður sett formlega í dag í Hafnarhúsinu. Hátíðinni var þjófstartað í gær þegar Design Talks fór fram í Silfurbergi í Hörpu. Á hátíðinni voru bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar úr ýmsum áttum hönnunar, arkitektúrs og skapandi og var markmiðið að hrista upp í hlutunum. Það var ekki þverfótað fyrir framúrskarandi gestum á viðburðinum.
Johanna Seelemann hönnuður var með fyrirlestur og líka Fernando Laposse sem er hönnuður. Bergþóra Guðnadóttir og Jóel Pálsson hönnuðir í Farmers Market sögðu sögu sína og Lina Gotmeh arkitekt sagði frá fornleifafræði framtíðar.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, sem er fyrsti fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr, sagði frá verkefnum sínum og Niceaunties, sem er listakona sem notar gervigreind við verk sín, sagði frá hugmyndum sínum á heillandi hátt.
Heimspekingurinn Emanuele Coccia fór yfir víðan völl en hann er prófessor í félagsvísindum við EHESS í París. Hann vinnur líka með listamönnum, tískuhúsum og menningarstofnunum og má segja að hann hafi hreyft við fólki. Svo kom Ferdinando Verderi sem er skapandi framkvæmdastjóri og leiðandi rödd í auglýsingabransanum. Hann hefur gert auglýsingaherferðir í samtarfi við Prada og Louis Vuiotton svo eitthvað sé nefnt.
Systurnar Ingibjörg og Lilja Birgisdóttir, sem eru hluti af Fishersundi, komu og sögðu sögu sína og fyrirtækisins og hrifu fólk með sér, bæði með framkomu og líka með ilmum.
Í millitíðinni kom hinn einstaki og sífyndni Ari Eldjárn og fékk fullan sal af fólki til að frussa af hlátri. Það er alltaf gaman.