Skúlptúrar fengu að njóta sín í stórum klaka þegar skartgripahönnuðirnir á bakvið Orrafinn skartgripi tóku höndum saman við Klakavinnsluna. Helga Guðrún Friðriksdóttir, annar eigandi Orrafinn, sagði þetta skemmtilegt tækifæri sem væri þó algjörlega „absúrd.“ Gjörningurinn var hluti af Reykjavík Cocktail Week og fékk góðar viðtökur.
„Við Orri Finnbogason erum búin að vera að gera skartgripi saman síðan árið 2012 og höfum gefið út sjö skartgripalínur hingað til. En þetta samstarf sem við vorum að afhjúpa var eins og það væri skrifað í skýin. Það kom bókstaflega upp í hendurnar á okkur,“ segir Helga.
„Um daginn mætti til okkar maður að nafni Fannar sem er með fyrirtækið Klakavinnslan. Hann fer að tala um hvað hann gæti gert með ís og hvort við höfum séð skartgripi frysta í stóran klaka og hvað það sé magnað þegar þú horfir á skartgripi í gegnum ís og hve skýrir gripirnir verði. Okkur fannst þetta fyndið, forvitnilegt og mjög áhugavert.“
Í kjölfarið fóru þau að velta þessu fyrir sér og hvort það væru einhverjar leiðir sem þau gætu farið með því að blanda klaka saman við.
„Við höfum í gegnum tíðina gert stærri gripi, ekki skart heldur skúlptúra, sem eru byggðir á hugmyndafræði eða táknaheimi skartgripalínanna sem við höfum hannað. En þegar maður gerir svona stóra hluti er það oftast fyrir sýningar og er gripurinn þá sýndur í þetta eina skipti. Við erum með þessi stóru verk okkar til sýnis í versluninni okkar, þeir vekja mikla athygli og þykja tilkomumiklir. Það er mikið spurt um þá og maður hugsar oft hversu mikil synd það sé að þeir njóti sín ekki meira. Þeir sitja bara hjá manni og safna ryki,“ segir hún og hlær.
„Við höfum meira að segja fengið alls konar kauptilboð en við höfum ekki þorað að gefa þetta frá okkur. Þetta er hluti af sögunni okkar og þróun sem vörumerki.“
Klakahugmyndin þróaðist út í það að frysta þessa stóru skúlptúra og skartgripi inni í stórum ís og leyfa þeim að njóta sín. Þetta voru hlutir eins og fléttuð hauskúpa sem tók marga mánuði að handflétta, Scarab-bjalla skreytt gimsteinum og hönd sem blæðir gullhjörtum.
„Þetta er alveg absúrd, við höfum aldrei gert neitt svona. En það vildi svo vel til að samstarfið okkar smellpassaði sem dagskrárliður inn í kokteilaviku Reykjavíkur og því var ekkert verið að bíða og hugsa heldur skella í þetta.
Þetta er eitthvað nýtt og spennandi. Ég held ég sé ekki að ljúga en ég held að enginn hafi gert þetta hér.“