Heldur að kærastinn sé að reyna við konur

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdi­mar Þór Svavars­son svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá manni sem er í basli með maka sinn. 

Sæll

Ég er í ynd­is­legu sam­bandi við konu sem er frá­bær í alla staði - nema eitt... hún er að mér finnst af­brýðisöm og stjórn­söm við mig. Ég er í vinnu þar sem ég hitti mikið af kven­fólki og vinn með því (sem yf­ir­maður). Hún hef­ur komið með mér á vinnustaðaskemmt­an­ir og verið með mér í vinn­unni og tal­ar þá um að ég tali á ann­an hátt við kon­ur en karla. Að ég horfi í aug­un á öll­um kon­um og að ég daðri við kon­ur sem ég hitti. Hún hef­ur bannað mér að tala við fyrr­ver­andi kær­ustu og ég hef gert það þó ég hefði síður valið það sjálf­ur - og hún er með aðfinnsl­ur ef ég tala vin­gjarn­lega við fyrr­ver­andi konu mína en við erum enn þá góðir vin­ir (þá í kring­um börn­in). Hún vill líka tala mikið við mig í síma og ég er sama sinn­is því ég elska að heyra í henni - en stund­um þarf ég að ein­beita mér að flókn­um mál­um eða sofa (þegar ég er í vinnu­ferðum) og get ekki alltaf talað í sím­ann marga klukku­tíma á dag.

Þó að ég elski hana af öllu hjarta finn ég oft fyr­ir inni­lok­un­ar­kennd eða ég veit ekki hvernig ég á að koma fram. Ég hef aldrei haldið fram hjá í sam­bandi og í fyrra sam­bandi var ég aldrei sakaður um daður né annað sem leitt gæti af sér ótryggð. Ég treysti sjálf­um mér full­komn­lega til að setja mörk­in í þeim efn­um en hún virðist bara alls ekki skilja það - finnst það frek­ar vera lausn að hætta sam­kipt­um við kon­ur - sem ég hvorki vil né sé ástæðu til.

Get­ur þú hjálpað mér að leysa þetta því mig lang­ar mikið til að vera með þess­ari konu til æviloka en við þetta finn ég að ég get ekki búið.

Kveðja, GG

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdi­mar Þór Svavars­son fyr­ir­les­ari og ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu.

 

Góðan dag­inn og takk fyr­ir þessa ein­lægu hug­leiðingu.

Það sem þú ert að lýsa er al­gengt viðfangs­efni í vinnu með pör­um. Það er fal­legt að sjá hvernig þú tal­ar um kon­una þína og löng­un þín til að vera skuld­bund­in sam­band­inu er mjög já­kvæð. Í raun ertu að ein­hverju leyti að lýsa ferli sem ég hef skrifað um áður hér á Smart­land og þú get­ur séð með því að smella HÉR.

Nú er ég eng­an veg­inn að halda því fram að ástandið sé jafn al­var­legt og teiknað er upp í of­an­greindri grein en það er margt sem hring­ir bjöll­um. Þessi þörf henn­ar fyr­ir að fá vissu fyr­ir því að hún sé ör­ugg­lega efst í huga þínum og til­finn­ing þín um að vera með inni­lok­un­ar­kennd eru merki um að þessi dína­mík gæti verið til staðar. Að því sögðu tel ég ráðlegt að tala við aðila sem þekk­ir til slíkra mála og get­ur aðstoðað við að sjá hvort þetta ferli er til staðar og hvað veld­ur. Aðal­vanda­málið í flest­um svona mál­um er að ef fólk er óör­uggt og af­brýðisamt, þá er ekk­ert sem maki þess get­ur gert til þess að lag­færa það, jafn­vel þótt hann hætti al­veg að eiga sam­skipti við aðila af hinu kyn­inu (sem er eng­an veg­inn raun­hæft). Viðkom­andi aðili þarf sjálf­ur að vinna úr óör­ygg­inu í staðinn fyr­ir að reyna að upp­lifa það ekki með því að stjórna ytri aðstæðum.

Góðu frétt­irn­ar eru að það er vel hægt að vinna með svona mál þó að það geti vissu­lega tekið á og tekið ein­hvern tíma. Ráðlegg­ing mín til þín er að halda þig við það sem þú tel­ur eðli­leg mörk, að taka ekki ábyrgð henn­ar á því að þurfa að tak­ast á við þenn­an ótta sjálf, með því að ein­angra þig. Það er sjálfsagt og eðli­legt að styðja maka sinn, sýna hon­um virðingu, hlusta á hann og leyfa hon­um að hafa áhrif á sig þegar það á við. Það er engu að síður ekki gott að bregðast við óör­yggi annarra með því að draga sjálf­an sig í hlé, þannig erum við að reyna að kom­ast hjá ein­hverju sem mun óhjá­kvæmi­lega koma upp, fyrr eða síðar.  

Með bestu kveðju,

Valdi­mar Þór Svavars­son, ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Valdi­mari spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda