Dóttirin reynir að skemma ástarsamband móður sinnar

Íslensk kona er ástfangin og finnst eins og dóttir hennar …
Íslensk kona er ástfangin og finnst eins og dóttir hennar sé að reyna að skemma ástarsambandið. Christina Rivers/Unslash

Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, er sérfræðingur í stjúptengslum. Hún rekur vefinn stjúptengsl.is. Hún er nýr ráðgjafi á Smartlandi og svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá konu sem er reið út í dóttur sína fyrir að gefa kærasta hennar ekki séns. 

Sæl Valgerður. 

Ég er komin í samband við mann sem skiptir mig miklu máli og planið er að fara að búa saman fyrr en seinna. Málið er að 14 ára dóttir mín virðist ekki þola hann og mér finnst eins og hún sé að reyna að skemma fyrir mér sambandið. Við höfum búið tvær saman í 6 ár og hún er vön að hafa mig út af fyrir sig. Ég finn að ég er orðin svo reið út í hana, loksins þegar eitthvað er að gerast hjá mér þarf hún að reyna að skemma fyrir mér!

Mbk. Halla

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi rekur fyrirstækið Stjúptengsl.is
Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi rekur fyrirstækið Stjúptengsl.is mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komdu sæl Halla.

Það er ánægjulegt þegar fólk finnur ástina en verra þegar þeir sem standa því næst eru ekki alveg jafn lukkulegir og það sjálft, til að mynda börn þess. Hvort dóttir þín sé meðvitað að reyna að skemma fyrir þér sambandið eða ekki, er óvíst. 

Flest börn eru nokkuð örugg um ást og umhyggju foreldra sinna þegar daglegt lífi þeirra er nokkuð fyrirsjáanlegt. Ástfangið foreldri og nýtt stjúpforeldri kann að hrista upp í tilverunni í lífi barna, já, og óháð aldri. Breytingar geta bæði þótt til hins „betra og verra“.  Það er algengt að börn segi í viðtölum að foreldrið sé miklu glaðara eftir að það kynntist „Jóa“ eða „Siggu“. Þeim líki breytingin í sjálfu sér og séu spennt að eignast stjúpforeldri, og þau uppkomnu hafi nú minni áhyggjur af foreldri sínu en áður, þar sem það hafi eignast félaga sem léttir á þeim sjálfum.

Það á þó ekki við um öll börn eins og búast má við, sérstaklega þau yngri, ef það hafa verið miklar og hraðar breytingar í lífi þeirra á skömmum tíma, til dæmis vegna skilnaðar foreldra, flutninga og skólaskipta.

Í ykkar tilviki hafið þið búið tvær saman í sex ár og staðan önnur. Líklega hefur líf þitt snúist að miklu leyti um dótturina sem finnur að hlutirnir heima og þú sjálf hafi breyst. Fókusinn er á kærastann og mögulega minni athygli á dótturina. Þú ert kannski minna heima en áður, meira í símanum og kærastinn kominn í sæti dótturinnar fyrir framan sjónvarpið. Það getur líka verið flókið fyrir ungling að upplifa foreldrið sem kynveru.

Það er líka öruggt að dóttir þín finni pirring þinn gagnvart henni, sem elur enn frekar á spennunni milli ykkar mæðgna. Kannski þarftu að hugsa þetta upp á nýtt. Í stað þess að halda að dóttir þín sé að reyna að skemma fyrir þér og kærastanum, þá óttast hún mögulega að missa tengslin við þig og finnst hún vera útundan.

Gefðu þér áfram tíma fyrir hana og reyndu að hlusta á hana án þess að „reyna að útskýra, afsaka eða réttlæta“ þig. Ég er nokkuð viss um að hún muni geta samglaðst mömmu sinni smám saman, en þarf að finna að hún hafi þig áfram og fá að kynnast kærastanum í rólegheitum.

Með kærri kveðju,

Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valgerði spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál