Er hægt að lækna Narsissista með ADHD?

Er hægt að lækna menn með ADHD?
Er hægt að lækna menn með ADHD? Christina Victoria/Unsplash

Valdi­mar Þór Svavars­son ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu og um­sjón­ar­maður Meðvirknipodcasts­ins.is svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá konu sem er velt­ir fyr­ir sér hvort það sé framtíð í ástar­sam­bandi henn­ar eða ekki.  

Sæll Valdi­mar. 

Jæja, èg ætla að reyna að gera langlok­una í styttri kant­in­um.

Èg er ör­yrki í dag vegna and­legr­ar og lík­am­legr­ar heilsu.

Við eig­um 4 börn en yngsta barnið eig­um við sam­an. Málið er að við höf­um alltaf verið svo svaka­lega ósam­mála varðandi upp­eldið að okk­ur lend­ir alltaf sam­an og end­ar á því að mömmu­hjartað brest­ur og hug­ur­inn fer á fullt hvort èg sé bara of „góð“. Þess vegna sé valtað yfir mig úr öll­um átt­um? Eða er búið að brjóta mig það mikið niður að ég veit ekk­ert leng­ur og get ekki staðið á mínu? Hann vill meina það að þar sem ég er ekki í vinnu þá eigi ég að geta sinnt heim­il­inu 110%. Allt ætti að vera eins og í glamúr­mynd frá Hollywood. En því „litla“ sem ég geri á heim­il­inu tek­ur hann ekk­ert eft­ir og glæt­an að maður fái klapp á bakið. Nei nei. Þetta er sjálf­sagður hlut­ur þar sem „ég geri ekki neitt hvort er“.

Ég hef reynd­ar alltaf átt erfitt með að skipu­leggja mig og halda utan um tíma­setn­ing­ar en mér finnst ég ekki hafa neinn tíma fyr­ir eitt eða neitt. Ég hef/​fæ eng­an tíma fyr­ir mig, en þegar ég fæ pöss­un fyr­ir yngsta. Ég segi pöss­un því maður­inn minn er með sína rútínu og ég er því miður smeyk við að hann sé einn með yngsta okk­ar. Hann bæði stress­ast upp og verður pirraður út í mig ef barnið græt­ur mikið. Hann nær ekki að róa hann niður strax. Hann leik­ur með barnið sem fer voðal­ega í taug­arn­ar á mér og hræðir mig. 

Jæja nú er þetta orðið að langlok­unni sem ég ætlaði mér ekki að gera en bara að koma þessu frá mér gaf mér smá púst.

Að lok­um. Maður­inn minn var bú­inn að samþykkja hjóna­bands­ráðgjöf en það er bara búið að ganga svo svaka­lega mikið á í okk­ar sam­búð. Er það þess virði þar sem við erum aðeins fer­tug að aldri? Ég sé enga neista á milli okk­ar leng­ur en ég vil held­ur ekki slíta sam­bandi okk­ar þar sem ég held alltaf í von­ina um að eitt­hvað breyt­ist.

Er hægt að „lækna“ nars­iss­ista sem er með ADHD og hafn­ar lyfj­um því hann er með allt sitt upp á 110%?

Kær kveðja, 

BV

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdi­mar Þór Svavars­son fyr­ir­les­ari og ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu.

Góðan dag­inn og takk fyr­ir spurn­ing­una.

Þegar talað er um vanda­mál í hjóna­bönd­um eða par­sam­bönd­um, þá er mjög al­gengt að vand­inn snú­ist um það sem kall­ast mörk og marka­leysi. Mörk­in hjá hverj­um og ein­um sam­an­standa af hugs­un­um, til­finn­ing­um og lík­ama. Með þessu er átt við að þú mátt hafa þínar hugs­an­ir, þínar til­finn­ing­ar og þinn lík­ama í friði, svo framar­lega sem þú ert ekki að valda öðrum skaða.

Þetta á þá líka við um þá sem eru í kring­um þig. Þeir mega eiga sín­ar hugs­an­ir, sín­ar til­finn­ing­ar og sinn lík­ama svo lengi sem þeir eru ekki að valda öðrum skaða. Vanda­mál­in verða til þegar ein­stak­ling­ar bera ekki virðingu fyr­ir þess­ari reglu. Þegar okk­ur finnst eins og aðrir séu að skaða okk­ur með því sem þeir gera eða segja, þá er lík­legt að þeir séu að ryðjast yfir mörk­in okk­ar, fara inn fyr­ir þau.

Því miður er það þannig að við höf­um litla sem enga stjórn á því hvað aðrir gera og hvort þeir eru „marka­laus­ir“. Það sem við höf­um hins veg­ar stjórn á eru okk­ar eig­in mörk. Það er heil­brigt að setja öðrum mörk og við þurf­um að gera það, ann­ars verðum við fyr­ir skaða fólks sem ber ekki virðingu fyr­ir mörk­um annarra. Að setja skýr mörk get­ur verið hæg­ara sagt en gert og marg­ir eru hrædd­ir við að setja mörk, af því þeir ótt­ast viðbrögðin. Það er ein birt­ing­ar­mynd meðvirkni.

Það kost­ar yf­ir­leitt átök að setja skýr mörk gagn­vart mann­eskju sem vill ekki láta setja sér mörk. Eng­inn get­ur sett sig al­menni­lega í spor annarra og ástæðurn­ar fyr­ir því að fólk set­ur ekki skýr mörk og stend­ur við þau geta auðvitað verið marg­ar. Það get­ur til dæm­is verið bein­lín­is hættu­legt að setja of­beld­is­fólki skýr mörk og þess vegna mik­il­vægt að fá eins mik­inn stuðning og hægt er þegar það er gert.

Í raun­inni er erfitt að finna spurn­ingu í fyr­ir­spurn­inni frá þér en það er frek­ar aug­ljóst að þú ert að velta fyr­ir þér hvort það er skyn­sam­legt að fjár­festa áfram í þessu sam­bandi. Því get­ur eng­inn svarað nema þú. Með því að setja skýr mörk, hvað þú vilt og hvað þú vilt ekki, segja það upp­hátt og halda þig við þessi mörk, þá kem­ur í ljós hvort maki þinn beri virðingu fyr­ir því sem þú ert að segja.

Ef svo er alls ekki, þá kemstu hugs­an­lega nær svar­inu um hvað þú vilt gera. Al­mennt talað ætt­um við ekki að sætta okk­ur við virðing­ar­leysi, sér­stak­lega ekki af hálfu maka. Varðandi spurn­ing­una þína hvort hægt sé „að lækna nars­iss­ista sem er með ADHD og hafn­ar lyfj­um því hann er með allt sitt upp á 110%“ þá er svarið ein­fald­lega: Ég veit það ekki. Það velt­ur fyrst og fremst á því hvort viðkom­andi ein­stak­ling­ur telji sjálf­ur að hann þurfi á „lækn­ingu“ að halda og sé til­bú­inn að skuld­binda sig til að vinna að bata.

Þó mann­eskja sé sjálf­hverf þarf ekki að vera að hún flokk­ist und­ir að vera nars­iss­isti en það er mjög sjúk­legt ástand þar sem sjálf­hverf­an er al­gjör og skort­ur á sam­kennd ein­kenn­andi. Nars­iss­ísk­ir ein­stak­ling­ar vilja til dæm­is helst ekki fara í hjóna­bands­ráðgjöf og mjög ólík­legt að slík ráðgjöf hjálpi ef um raun­veru­leg­an nars­iss­ista er að ræða. Spurn­ing­in ætti miklu frek­ar að vera hversu lengi ætl­ar þú að sætta þig við óbreytt ástand í sam­bandi með ein­stak­ling sem hegðar sér eins og þú lýs­ir því? Í staðinn fyr­ir að fara í hjóna­bands­ráðgjöf þá myndi ég hik­laust mæla með því að þú fær­ir fyrst í ein­stak­lings­ráðgjöf og fáir aðstoð við að styrkja þig og finna hvað er rétt fyr­ir þig að gera.

Kær kveðja, 

Valdi­mar Þór Svavars­son ráðgjafi. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Valdi­mar spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda