„Ég var fastur í myrkrinu og í neyslu“

Natalie Narvaez Antonsdóttir og Þórir Kjartansson.
Natalie Narvaez Antonsdóttir og Þórir Kjartansson. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Þórir Kjart­ans­son og Na­talie T. Nar­vaéz Ant­ons­dóttur þurftu virki­lega að berj­ast fyr­ir hjónabandi sínu eft­ir að al­var­legt áfall skók und­ir­stöðu lífs þeirra um tíma. Þau eru kom­in fyr­ir vind eft­ir mikla sjálfs­vinnu og sam­an rækta þau hvort annað og fjölskyldu sína. Saga Þóris er saga áfalla, ein­mana­leika, ótta og van­rækslu en líka upprisu, gleði og sig­urs. Na­talie aft­ur á móti var leit­andi en fann réttu leiðina þegar hún sá leik­rit í Hvítasunnu­kirkj­unni Fíladelfíu í Reykjavík og fann það sem hafði vantað í líf henn­ar. Stein­gerður Stein­ars­dótt­ir ræddi við þau fyr­ir Sam­hjálp­ar­blaðið: 

Þórir svaf oft í bílakjall­ara Ráðhúss Reykjavíkur þegar verst var komið fyr­ir hon­um. Í dag er hann húsvörður í því húsi og á í góðum sam­skipt­um við borg­ar­stjóra og aðra er vinna þar. En þegar hon­um leið verst hafði hann sætt sig við að örlög hans yrðu að búa á götunni.

„Ég var kom­inn á þann stað í mínu lífi að ég var fast­ur í myrkr­inu og í neyslu,“ seg­ir hann. „Þetta líferni var farið að hafa mik­il and­leg áhrif á mig. Ég fór inn og út af geðdeild en þar fann ég öryggi um stund. Það var komið að þeim tíma­punkti að ég hefði svipt mig lífi ef ég hefði þorað því. Mig langaði mest að eyða mér ein­hvern veg­inn því ég sá eng­an til­gang og eygði enga von um að ég gæti orðið edrú. Ég var ofboðslega reiður og bit­ur út í allt og alla. Ég kenndi í raun öllum öðrum um en sjálfum mér. Það er staða sem maður lend­ir oft í þegar maður er á þess­um stað. Ég vissi bara ekki mitt rjúkandi ráð.“

Leynd­armálið var þung byrði að bera

Áttir þú eitt­hvert bak­land, ein­hverja sem þú gast leitað til?

„Það var svo mik­il skömm í lífi mínu að mig langaði ekki að leita til neins, vildi bara vera í friði því mér fannst eng­inn skilja mig. For­eldr­ar mínir eru báðir alkóhólist­ar og ég missti mömmu mína fyr­ir um það bil tíu árum. Pabbi minn er virk­ur alkóhólisti enn í dag og ég er al­inn upp í mjög sjúku um­hverfi,“ seg­ir Þórir. „Mig vantaði vænt­umþykju, aðhald og um­hyggju. Orsökin fyr­ir öllu sam­an var líka mis­notk­un sem ég varð fyr­ir í æsku og hélt æv­in­lega leyndri, fór ekki að vinna í því fyrr en 2021. Maður sem bjó í hverf­inu mínu þótt­ist vera vin­ur minn og beitti mig of­beldi. Ég fékk þau skila­boð að ég mætti ekki segja frá þessu og var full­ur af sekt­ar­kennd og skömm. Það er ekki gott að ganga með það allt líf sitt að vera hrædd­ur og reiður, geta ekki treyst nein­um, og ég var rosa­lega einn. Þannig voru flest árin mín í neyslu nema kannski rétt fyrst. Þegar ég byrjaði að drekka var eins og það opnaðist ein­hver flóðgátt og ég losnaði við höml­urn­ar og gat farið að tala. Ég hugsaði eft­ir fyrsta vímugjaf­ann minn: Þetta ætla ég að gera aft­ur. Ég fann fljótt minn vímugjafa, am­fetamín, mér þótti gott að vera vak­andi lengi. Þá gat ég talað og slegið frá mér ef þurfti en það fór mjög fljótt með mig á enn verri stað.“

Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

Var edrú en ekki í bata og féll

Þórir á að baki tvær meðferðir og tvö tímabil edrúmennsku. Fyrra edrútímabilið var árið 2007, en þá fékk Þórir að búa í Ármúla hjá Baldri, sem hafði breytt húsnæði þar í at­hvarf fyr­ir fólk nýhætt í neyslu.

„Bald­ur var ótrúlega góður við mig og hans fjölskylda og hann kynnti mig fyr­ir Guði en ég náði ein­hvern veg­inn ekki utan um allt þetta góða, ég var að stíga upp úr svo miklu myrkri. Ég var edrú en ekki í bata,“ seg­ir Þórir. „Ég var þurr en mér leið illa. Mig vantaði að sinna prógramm­inu, vera heiðarleg­ur. Ég var full­ur af skömm, hrædd­ur, fannst all­ir vera að dæma mig og ég alltaf vera skítug­ur. Bæði út af mis­notk­un­inni sem ég varð fyr­ir og mínu fyrra líferni. Ég féll og við tóku þrjú hörm­ung­arár. Fjölskyld­an sneri baki við mér og ég fékk ekki að hitta barnið mitt. Ég var líkam­lega tal­inn svo illa stadd­ur að lækn­ir­inn minn setti mig á var­an­lega örorku og sagði að ég ætti ekki aft­ur­kvæmt á vinnu­markaðinn. Ég þvæld­ist um, var stund­um í ein­hverj­um her­bergj­um, stund­um hjá hinum og þess­um og stund­um á götunni.“

Að þess­um hörm­ung­arárum liðnum urðu tveir vendipunkt­ar í lífi Þóris. Hann hitti mann sem hann kannaðist við í strætó á leið niðri í bæ. Hann var að kenna syni sínum á strætókerfið.

„Hann sá að ég var í hræðilegu ástandi bæði and­lega og líkam­lega og sagði við mig: „Þórir, það er til lausn á þessu. Ég er að vinna í Alanó-húsinu. Komdu á fund til mín. Þú get­ur alltaf komið til mín.“ Eft­ir nokkr­ar vik­ur fór ég á fund og verið var að selja lyklakipp­ur með æðru­leys­is­bæn­inni í and­dyr­inu og ég keypti eina. Hann tók á móti mér, faðmaði mig og sagði: „Ég er búinn að vera að bíða eft­ir þér.“ Hann bauð mig vel­kom­inn og ég bað hann að vera sponsor­inn minn í kjölfarið. Pabbi minn bjó þá í Hvera­gerði og ég fékk að vera hjá hon­um í 2–3 vik­ur meðan ég tók erfiðasta hjall­ann í fráhvörfum. Ég svaf þar en tók strætó í bæ­inn á AA-fundi á hverj­um degi. Edrúdag­ur­inn minn er 17. sept­em­ber 2013.“

Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

Mætti dag­lega á göngu­deild Sam­hjálpar

Á þess­um tíma kom Sveinn, bróðir Þóris, aft­ur inn í líf hans og dag nokk­urn var hann að keyra hann upp Ártúns­brekk­una.

„Ég hugsa oft um þetta sam­tal okk­ar því ég bý í Ártúns­holt­inu og við að vera kom­in á þenn­an stað í dag fyll­ist ég þakk­læti. „Þórir,“ sagði hann við mig. „Þú get­ur orðið edrú. Þú get­ur breytt lífi þínu. Þú einn get­ur gert það.“ Hann kom þar með þeim skila­boðum til mín að ef ég breytti hugs­un­ar­hætti mínum gæti ég eign­ast líf eins og hann var búinn að eign­ast. Þetta sat í mér og ég fór sjálfur upp í Sam­hjálp, sem þá var í Stang­ar­hyl, og talaði við Þóri Har­alds­son áfeng­isráðgjafa. Hann bauð mér að fara inn á Sporið, áfanga­heim­ili. Ég fékk að fara þangað inn með þrem­ur skil­yrðum, að ég væri edrú og kæmi upp í Sam­hjálp á göngu­deild­ina á hverj­um degi, léti sjá mig og færi ekki niður í bæ. Og svona byrjaði gang­an mín. Ég fór að hjálpa til á Nytja­markaðnum og fór síðan á Sam­hjálp­ar­bílinn. Upp frá þessu fékk ég von­ina um að ég gæti orðið edrú aft­ur.

Ég bjó á Spor­inu fram að áramótum, eft­ir það flutti ég á Brú og fljótlega varð ég húsvörður þar. Ég man sérstak­lega eft­ir því þegar ég fór í bank­ann í fyrsta sinn og borgaði húsa­leigu. Mér fannst það rosa­lega merki­legt. Ég hafði ekki há laun og helm­ing­ur­inn fór í leig­una en mér fannst það stórkost­legt. Á svipuðum tíma var ég far­inn að hafa sam­band við son minn aft­ur og hann far­inn að koma til mín aðra hvora helgi. Mér bauðst svo vinna í Gistiskýlinu við Lind­argötu sem Sam­hjálp sá um á þeim tíma. Það hjálpaði mér gríðarlega mikið fyrstu árin að vinna þarna og ég var þakklátur fyr­ir að vera kom­inn aft­ur á vinnu­markaðinn. Ég náði góðu sam­bandi við karl­ana og ég varði tveim­ur aðfanga­dagskvöldum með þeim þar sem Hjálpræðis­her­inn var með jólaboð í Ráðhúsinu og við fórum all­ir sam­an.“

Keyrði tvisvar fram­hjá barn­um

Þórir eignaðist þarna von og trú á að eign­ast nýtt líf. Hann hélt áfram að vinna á Gistiskýlinu og maður­inn sem hafði verið tal­inn með var­an­lega örorku og óvinnu­fær gat sér fljótt gott orð fyr­ir dugnað og áreiðan­leika. En hvað með Na­talie, hef­ur hún glímt við fíkn?

„Já, ég var ekki kom­in á góðan stað. Ég hef alltaf verið sjálf­stæð og flutti ung að heim­an, en ég flutti ekki út af ein­hverju veseni,“ seg­ir hún. „Ég er skilnaðarbarn en átti gott heim­ili. Pabbi var ekki mikið í mínu lífi þegar ég var að al­ast upp, en við áttum samt mjög gott sam­band fram til hans síðasta dags. Hann lést í nóvem­ber 2019. Hann átti við alkóhólisma að stríða um nokk­urt skeið. Það er mikið um alkóhólisma í fjölskyldu minni. Þegar ég var átján ára fór ég á fjölskyld­unámskeið hjá SÁÁ og það gaf mér smá drif­kraft. Einn eðli­leg­asti hlut­ur í heimi í um­hverfi mínu var að byrja að drekka, „all­ir drukku“ og ég byrjaði um ferm­ing­ar­ald­ur.

Það var drukkið um helg­ar og svo fór það að verða meira og meira og stjórn­leysi að taka yfir, sérstak­lega eft­ir grunnskóla þegar ég var far­in að vinna og bjó ein. Ég fann al­veg að þetta var ekki í lagi og ég var far­in að hugsa, það hlýtur að vera eitt­hvað meira í þessu lífi en þetta. Auk þess var þetta farið að verða það kostnaðarsamt að ég náði varla að standa und­ir því. Lífið var farið að fara niður á við og mig farið að hungra í að vita meira, finna ein­hvern til­gang. Ég fór ekki í meðferð, því ég sá ekki fyr­ir mér að ég gæti tekið mér frí til þess, kunni ekk­ert á þess­ar leiðir. Ég er mjög ábyrgðarfull og sá ekki leið til að borga reikn­ing­ana mína á meðan ég væri í margra mánaða meðferð og vissi ekk­ert hvað ég átti að gera. Ég sagði við vin­kon­ur mínar: „Ég á eft­ir að hætta að drekka, ég veit ekki hvernig eða hvenær en sá dag­ur mun koma.“

Fljótlega eft­ir þetta var mér boðið á leik­rit í Hvítasunnu­kirkj­unni Fíladelfíu í Hátúni, þetta var í fe­brú­ar árið 1999. Ég man að þenn­an dag leið mér hræðilega illa. Ég ætlaði eig­in­lega að hætta við að fara en fannst þetta samt spenn­andi og dreif mig. Mér fannst mjög sniðugt að verið væri að nýta húsið í eitt­hvað annað en messu, hafði ekki hug­mynd um að þetta væri á veg­um kirkj­unn­ar. Leik­ritið sner­ist um lífið, hvernig okk­ur get­ur liðið og erfiðleik­ar leikið okk­ur grátt. Það var verið að sýna þung­lyndi, kvíða, drykkju og bara hvernig hvers­dags­leik­inn get­ur sligað okk­ur. Svo var sýnt hvernig allt breytt­ist þegar þess­ir ein­stak­ling­ar tóku við Guði. Okk­ur var sagt hvernig Jesú hafði dáið fyr­ir synd­ir okk­ar og að hann gæti létt all­ar okk­ar byrðar. Hann gæti gefið okk­ur frið, betra líf og eilíft líf. Ég var eig­in­lega upp­num­in. Hugsaði, ef þetta er satt þá vil ég þetta. Ég hafði haldið að Jesú væri bara æv­intýri.

Þeim sem vildu var boðið að koma fram og taka þetta skref að taka við Guði. Ég þorði sko ekki og sat sem fast­ast í sæt­inu en hjartað í mér barðist og eitt­hvað innra með mér hrópaði: Ég vil þetta. En ég bara gat ekki gengið fram. Ég var svo meyr og gráti næst. En þarna fann ég að eitt­hvað gerðist. Lífið hjá mér breytt­ist og ég fann að ég vildi vita meira og upp frá þessu hætti ég að drekka og reykja. Mig langaði ekki leng­ur í bæ­inn að djamma og vin­ir mínir og vin­kon­ur skildu ekk­ert í þessu. Þau reyndu að fá mig með og ég reyndi að taka þátt og fór meira að segja einu sinni niður í bæ og ætlaði að hitta þau á bar en ég keyrði tvisvar sinn­um fram­hjá. Ég gat ekki farið inn. Ég var kom­in með ógeð á þessu. Það var kom­inn nýr andi. Nýtt líferni hafði tekið við af gömlu. Ég fór að sækja sam­kom­ur í Hvítasunnu­kirkj­unni Fíladelfíu og það var tekið óskap­lega vel á móti mér og ég er þar enn.“

Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

„Vá hvað hún er fal­leg“

En hvernig kynnt­ust þið?

„Ég var alltaf að þvæl­ast í Sam­hjálp og Na­talie kom þangað að vinna og ég tók á móti henni. Ég man að ég hugsaði; vá hvað hún er fal­leg,“ seg­ir Þórir og horf­ir hlýj­um aug­um á konu sína.

En þér, Na­talie, hvernig leist þér á hann?

„Það var ekk­ert svo­leiðis,“ seg­ir hún bros­andi. „Ég var bara að koma í vinnu og síst af öllu að hugsa eitt­hvað á þeim nótum. Ég hóf störf 2014 en kynnt­ist Þóri svo sem ekki mikið. Hann kom reglu­lega við, en til að gera langa sögu stutta gerðist ekk­ert á milli okk­ar fyrr en í janúar 2017.“

„Já, ég var með aug­un á henni,“ skýtur Þórir inn í.

„Ég var ekk­ert að pæla í þessu, en þegar ástin kvikn­ar milli okk­ar var hann flutt­ur af áfanga­heim­il­inu Brú í íbúð sem hann tók á leigu. Við fórum að hitt­ast og ég ákvað bara að leita til Guðs með þetta. Ég vissi eitt­hvað um hann, alls ekki allt um fortíð hans. Hafði lesið viðtal við hann en sá bara hvað hann var búinn að vera dug­leg­ur og kom­inn vel af stað í lífinu. Hann var búinn að vera þrjú og hálft ár edrú þegar við fórum að vera sam­an. En ég þurfti vissu­lega að hugsa mig um hvort ég væri til­búin í þetta sam­band. Svo kol­féll ég fyr­ir hon­um.“

Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

Treysti Guði

En varaði þig ein­hver við hon­um eða að taka sam­an við hann?

„Nei, ég vildi bara leggja þetta í hend­ur Guðs og talaði því ekki við aðra um það. Ég var sann­færð um að ef Hann vildi að þetta yrði maður­inn minn myndi Hann leiða mig áfram; ef ekki myndu dyrn­ar lokast. Þórir var svo kurt­eis og al­menni­leg­ur alltaf við mig og gaf mér tíma. Í raun var mjög auðvelt að kynn­ast hon­um og mér leið rosa­lega vel með hon­um.“

„Ég var á mjög góðum stað and­lega á þess­um tíma,“ bæt­ir Þórir við. „Ég vildi byrja allt upp á nýtt, læra allt upp á nýtt og losna við þær hömlur sem höfðu haldið aft­ur af mér áður. Eft­ir að við tókum sam­an var ég enn að vinna í Gistiskýlinu og það var farið að taka svolítið í, sérstak­lega að vera á næt­ur­vöktum. Þá bauðst mér vinna í Ráðhúsinu, sem ég var hrædd­ur við að taka því ég hafði hrærst svo lengi í að vinna með fólki með fíkni­sjúk­dóma að þetta var of „heil­brigt“ – ég vissi ekki hvort ég myndi fun­kera þarna. En kon­an mín sagði: „Þetta er ekki spurn­ing, þú tek­ur þess­ari vinnu og átt eft­ir að læra svo mikið þarna,“ og ég sé svo sann­ar­lega ekki eft­ir því.“

Lamaður eft­ir vinnu­slys

Og þar hef­ur hann verið síðan. En lífið bauð enn og aft­ur upp á óvænt­an snúning. Áfall sem setti allt úr skorðum um tíma.

„Þetta hef­ur ekki alltaf verið dans á rósum. Fyr­ir tveim­ur og hálfu ári lenti ég í rosa­legu vinnu­slysi. Ég féll niður um tvo og hálfan metra af still­ans í Ráðhúsinu og var flutt­ur á gjörgæslu. Það var tvísýnt í byrj­un hvort ég hefði lam­ast eða ekki því ég missti all­an mátt í fótun­um. Lá á gjörgæslu og gat ekki hreyft mig. Na­talie og Sandra syst­ir henn­ar komu upp á gjörgæslu og Na­talie fékk rétt að hitta mig, ég gat ekki hreyft mig né talað við hana. Til mik­ill­ar bless­un­ar fékk ég mátt í fæt­urna aft­ur dag­inn eft­ir, en mikið hafði verið beðið fyr­ir mér bæði hjá Sam­hjálp, í kirkj­un­um og á sjúkra­húsinu þar sem Na­talie bað fyr­ir mér. Ég stóð bara upp dag­inn eft­ir. Ég hafði fengið svona rosa­legt mænu­sjokk. Taug­arn­ar höfðu lam­ast við sjokkið.“

„Það fyrsta sem hann sagði við lækn­inn var: „Ekki gefa mér neitt eit­ur“,“ seg­ir Na­talie. Þóri var auðvitað efst í huga að ekki mætti vekja neina fíkni­vaka með verkjalyfj­um.

„Ég var kom­inn heim tveim­ur dögum seinna, en upp frá þessu hófst rosa­legt tímabil hjá mér,“ seg­ir hann. „Ég var mjög verkjaður í líkam­an­um og gat rétt svo gengið um gólf heima. Kvíði, von­leysi og reiði hellt­ust yfir mig. Ég velti fyr­ir mér hvort ég kæm­ist út á vinnu­markaðinn aft­ur eða hvort af þessu hlyt­ist var­an­leg örorka. Mér leið illa að kyssa kon­una mína bless á hverj­um morgni þegar hún var að fara í vinn­una og son­ur­inn í skólann og eft­ir sat ég einn heima, kval­inn af sárs­auka. And­lega hliðin hrundi. Ég var pirraður og reiður og ýmsir skap­gerðarbrest­ir komu í ljós. Já, ég fór á virki­lega slæm­an stað. Ég var kom­inn á fall­braut.“

„Þakkaðu fyr­ir að þú get­ur gengið“

„Þetta gerðist í október 2020,“ seg­ir Na­talie. „Ég var alltaf að segja hon­um: „Þórir, þakkaðu fyr­ir að þú get­ir gengið. Þú átt eft­ir að ná þér.“ Hann náði sér frek­ar fljótt, þ.e. að standa upp og svona, en haus­inn á hon­um var bara ekki á réttum stað og hann var mjög verkjaður í líkam­an­um í mjög lang­an tíma. Hann fór aðeins að vinna um miðjan des­em­ber en krassaði al­veg. Í janúar var hann send­ur aft­ur í veik­indafrí, fór aft­ur til vinnu of snemma, krassaði í annað sinn og fór aft­ur í veik­indafrí. Brest­irn­ir, reiðin og bit­ur­leiki brut­ust út. Þetta var rosa­lega erfiður tími og mér leist bara ekk­ert á hann stund­um. Hann var hins veg­ar mjög passa­sam­ur með lyf­in. Þeir vildu bara senda hann heim með alls kon­ar lyf en hann tók það ekki í mál. Í raun­inni kom gamli maður­inn upp, allt nema neysl­an. Frá barnæsku og til þrjátíu og eitt­hvað ára var hans heim­ur neysla og blekk­ing. Hon­um var ekki tamt siðferði og þol­in­mæði og þarna hellt­ust yfir hann alls kon­ar venj­ur og vond­ar leiðir út úr vand­an­um.“

Ferlið sem Þórir lýsir er auðvitað ekk­ert nýtt. Fólk sem þjáist af áfall­a­streitu þekk­ir svona bak­slög. Ný áföll vekja upp gömul og stund­um þarf að byrja upp á nýtt að vinna úr vond­um til­finn­ing­um. En hvað varð Þóri til bjarg­ar?

„Ég fékk annað tæki­færi hjá kon­unni minni og fór að vinna mark­visst í mér. Hún á heiður skil­inn fyr­ir hvernig hún tókst á við þetta tímabil. Ég fór til sálfræðings og þerap­ista. Tók sjálfan mig al­menni­lega í gegn. Ég hef verið und­an­farið ár hjá VIRK starf­send­ur­hæf­ingu, vann með sjúkraþjálfara og kírópraktor og fór á AA-fundi og í rækt­ina. Ég gafst upp með báðum hönd­um og fór að leita Guðs, sem mætti mér á stórkost­leg­an hátt og ég er enn þar í dag. Ég fór að treysta og trúa því að ég gæti eign­ast og haldið í gott líf og skilaði skömm­inni, hún til­heyr­ir mér ekki leng­ur.“

„Þetta gamla „ég kann ekki neitt, get ekki neitt, er ekki nógu góður“ var svo ríkt í hon­um, fórn­ar­lambs­hlut­verkið. „Af hverju ertu með mér?“ spurði hann oft. Við þurft­um að fara í hjónabandsráðgjöf,“ seg­ir Na­talie og röddin brest­ur. „Þetta var ofboðslega erfiður tími. En ég gafst ekki upp. Trú mín var sterk. Ég var alltaf að hvetja hann og uppörva. Segja hon­um hvernig Guð sér hann. Að auðkenni hans þyrfti að vera í Guði, Hann er jú skap­ar­inn. Eins og seg­ir: „Ef ein­hver er í Kristi er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá nýtt er orðið til,“ (2.Kor. 5:17). Ég þurfti líka að horfa fram­hjá öllu því sem var í gangi. Guð sýndi mér hann eins og Hann sér hann og þá gat ég verið mis­kunn­söm og fyr­ir­gefið og elskað hann til lífs. Eins og í byrj­un sá ég alltaf þetta hjarta sem hann hafði og ég vissi að hann vildi ekki vera svona. Við fórum í massífa hjónabands­vinnu og að þrýsta okk­ur nær Guði og trúa því hver Hann seg­ir okk­ur vera, ekki láta aðstæður og kring­um­stæður stjórna lífi okk­ar. Þá komst að kær­leik­ur, heiðarleiki og virðing. Grunn­ur­inn okk­ar var líka sterk­ur í sam­band­inu.”

Beið eft­ir stóra skell­in­um

„Á tímabili var ég full­viss um að ég myndi missa allt frá mér,“ seg­ir Þórir. „Ég var ekki kom­inn að því að ætla að fara detta í það en ég var kom­inn mjög langt niður. En í dag er ég á mínum besta stað í lífinu, betri en ég hef nokkru sinni verið. Ég stunda AA-fundi og sam­kom­ur og læt gott af mér leiða og hjálpa öðrum. Ég er kom­inn aft­ur í vinn­una hægt og rólega og í dag er ég í 75% vinnu. Mér finnst ég and­lega sterk­ari en ég var.“

„Þegar við byrjuðum sam­an var hann enn að læra ein­hvern veg­inn á lífið,“ seg­ir Na­talie, „ekki það að ég sé með það á hreinu en þá meina ég að hans tími í neyslu og rugli var búinn að vera svo lang­ur. Hon­um fannst hann ekki eiga neitt gott skilið og um leið og hon­um var farið að líða vel varð hann hrædd­ur við að missa það. Ég sagði hon­um að ég væri ekk­ert að fara en hann beið alltaf eft­ir því eða bjóst við því, því hann var svo van­ur sjálfur að hlaupa alltaf í burtu. Var alltaf í viðbragðsstöðu, hvenær kem­ur skell­ur­inn. Allt hafði gengið mjög vel hjá okk­ur og rétt fyr­ir slysið var mikið álag í vinn­unni, það vantaði starfs­fólk og hann vann út í eitt. Í raun­inni var sjálfs­mynd hans líka mjög bund­in vinn­unni og þegar hún fór hrundi allt. Ég var alltaf að reyna að segja hon­um að horfa á það sem hann hefði og að hann yrði að byggja upp sjálfs­mynd óháða starf­inu. Í dag get ég sagt að þessi reiði og sárs­auki, sem var alltaf þarna þótt við sæj­um það ekki þá og ég áttaði mig ekk­ert al­veg á, er nú far­inn. Það er kom­in lækn­ing. Öll þessi vinna tek­ur tíma og það tek­ur tíma að sleppa öllu.“

Þórir á einn sautján ára strák, Na­talie á tutt­ugu og tveggja ára dóttur og son sem er tólf ára. Dóttir henn­ar er flutt að heim­an með tengda­syni og eiga þau árs­gaml­an ynd­is­leg­an dreng.

„Við erum orðin amma og afi,“ seg­ir Þórir. „Það er best í heimi. Ég upp­lifi það mjög sterkt. Ég var ekki til staðar fyr­ir strákinn minn þegar hann var lítill en núna fæ ég að ganga í gegn­um þetta allt og sá litli er svo hrif­inn af mér. Það er stórkost­legt og að vera kom­inn á þann stað sem ég er á í dag er krafta­verki líkast.“

„Von fyr­ir alla“

Þórir seg­ist þakka Sam­hjálp og þeim stuðningi sem hann mætti þar það líf sem hon­um hef­ur tek­ist að byggja upp. Hann nýtur mik­ill­ar virðing­ar og vel­vild­ar í vinn­unni, enda sinn­ir hann nú af alúð og natni húsinu þar sem hann leitaði skjóls þegar hann var einn á reiki um götur Reykjavíkur. Er það ekki svolítið skrítinn snúning­ur á lífinu?

„Það er náttúrlega al­veg magnað og það seg­ir manni það að allt er hægt, eng­inn er von­laus. All­ir eiga séns og með því að fram­kvæma einn dag í einu get­ur maður verið edrú með hjálp Guðs og treyst hon­um. Þrátt fyr­ir storma lífs­ins veit­ir Hann styrk og kraft til að halda áfram. Trúin er gjöf og ég sagði já takk við þeirri gjöf,“ seg­ir Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda