„Ég átti aldrei auðvelt með athyglina“

Gunnbjörg Óladóttir er prestur í Noregi.
Gunnbjörg Óladóttir er prestur í Noregi. Ljósmynd/Samsett

Gunn­björg Óla­dótt­ir og fjöl­skylda henn­ar voru meðal þeirra sem mótuðu og byggðu upp starf Sam­hjálp­ar á upp­hafs­ár­um sam­tak­anna. Faðir henn­ar, Óli Ágústs­son, var fram­kvæmda­stjóri þeirra í yfir tutt­ugu ár. Hann var þekkt­ur rokk­söngv­ari þegar hann var ung­ur maður og því lá nokkuð beint við að setja sam­an fjöl­skyldu­hljóm­sveit og gefa út plöt­ur. Gunn­björg og bræður henn­ar sungu með föður sín­um og þess­ar plöt­ur náðu met­sölu, langt um­fram gull­plöt­ur þess tíma. Hún seg­ir sögu sína í tíma­riti Sam­hjálp­ar. 

Mikið var um tónlist og tón­list­ariðkun í fjöl­skyldu Gunn­bjarg­ar. Hún söng í Fíla­delfíu­kórn­um og spilaði á gít­ar og bræðurn­ir spiluðu á hljóðfæri. Þau systkin­in og faðir þeirra kölluðu sig Fjöl­skyld­an fimm og fyrsta plat­an kom út árið 1984. Hét hún Heyr þú minn söng og tveim­ur árum síðar kom önn­ur, Þú ert mér nær.

Hver var aðdrag­and­inn að því að ákveðið var að ráðast í plötu­út­gáfu til styrkt­ar Sam­hjálp? „Þetta voru hvoru tveggja breiðskíf­ur og bæk­ur sem voru út­gefn­ar. Það var gagn­gert til að styrkja starfið og auka það, byggja upp og bæta við aðstöðuna,“ seg­ir Gunn­björg. „Mig minn­ir að alls hafi komið út fimm plöt­ur. Tvær með kór Fíla­delfíu, ein með Garðari og Önnu og Ágústu, ein með Fjöl­skyld­unni fimm og svo var ég með sóló­plötu und­ir lok­in. Loks var gef­inn út geisladisk­ur með safni af þessu öllu.“

Plötu­út­gáfa á Íslandi er al­mennt ekki tal­in neinn gróðaveg­ur. Höfðuð þið fyr­ir fram gert ein­hverja könn­un á áhuga eða selt í for­sölu? „Ekk­ert slíkt. Eins og ég segi var þetta fyrst og fremst hugsað sem styrkt­ar­leið og sal­an fór þannig fram að það var farið í hvert hús á land­inu til að vekja at­hygli á starf­inu og selja varn­ing­inn.“

Gunnbjörg prestur í Noregi söng inn á vinsælar hljómplötur.
Gunn­björg prest­ur í Nor­egi söng inn á vin­sæl­ar hljóm­plöt­ur.

Hitti Leon­ard Cohen

Plöt­urn­ar ykk­ar náðu met­sölu og fóru marg­ar um­fram það sem vin­sæl­ustu lista­menn þess­ara ára gátu vænst í sölu á verk­um sín­um. Hverju þakk­ar þú það? „Það er að þakka vel­vilja þjóðar­inn­ar í garð þeirra sem verst voru sett­ir, trúi ég,“ seg­ir Gunn­björg. „Og svo hef­ur söng­ur Hvíta­sunnu­manna á Íslandi alltaf notið ákveðinna vin­sælda, eða gerði það hér áður alla­vega.“

Þú varst senni­lega fyrst Íslend­inga til að syngja hið vin­sæla lag Leon­ards Cohen, Hallelujah, inn á plötu, með ís­lensk­um texta föður þíns, en marg­ir hafa spreytt sig á því síðan. En lagið kom út á Þú ert mér nær. Hvernig kom það til? 

„Það var til­vilj­un að við sáum þátt um Leon­ard Cohen og heilluðumst af hon­um öll sem eitt. Hallelujah-lagið lá vel við höggi í ljósi and­ans sem ræktaður var í starf­inu og ábreiðan okk­ar var reynd­ar sú fyrsta í heim­in­um, segja þeir sem best vita.“

Við höf­um heyrt að þú haf­ir hitt Leon­ard Cohen sjálf­an og hann verið ánægður með flutn­ing þinn á lag­inu sínu. Er það rétt? „Ég hitti Leon­ard Cohen í Höfða, þá var Lista­hátíð í Reykja­vík 1988, og mér var boðið að vera við mót­tök­una og hitta hann,“ seg­ir Gunn­björg. „Hann var af­skap­lega viðkunn­an­leg­ur, hlýr maður, enda vit­ur. Eng­inn hafði hug­boð þá um vin­sæld­ir Hallelujah-lags­ins, þannig að ég veit svo sem ekki hvað hon­um fannst um það en veit að hann breytti text­an­um síðar. Hann kem­ur úr gyðing­leg­um bak­grunni og var búdd­isti þannig að kannski vildi hann gæta þess að hafa text­ann inn­an síns eig­in hug­mynda­heims.“

Ham­ingj­an býr í hinu ósýni­lega

Við þetta tæki­færi færði Gunn­björg hon­um ein­tak af plöt­unni. Söng­ur þinn á þess­um plöt­um vakti at­hygli og þú fórst í viðtöl í fjöl­miðlum. Hvað fannst þér um at­hygl­ina? „Ég átti aldrei auðvelt með at­hygl­ina og ákvað strax þá að það ætti ekki við mig. Ham­ingj­an býr í hinu ósýni­lega, segja fransk­ir vitr­ing­ar.“

Faðir Gunn­bjarg­ar, Óli Ágústs­son, var for­stöðumaður Sam­hjálp­ar frá ár­inu 1977 til 2000. Hann tók virk­an þátt í vinnu við út­gáfu­starf­sem­ina og samdi texta við mörg lag­anna. All­ar voru plöt­urn­ar vandaðar og fjöldi þekktra ís­lenskra tón­list­ar­manna kom að gerð þeirra, meðal ann­ars Björn Thorodd­sen og Sig­urður Rún­ar Jóns­son (Diddi fiðla). En syng­ur Gunn­björg enn?

„Ég syng bara með mínu nefi hér í Guðbrands­daln­um. Það kem­ur sér vel í guðsþjón­ust­um því það eru eng­ir kirkju­kór­ar í sveit­inni,“ seg­ir hún, en Gunn­björg lauk BA-prófi í guðfræði frá Há­skóla Íslands og meist­ara­gráðu í trú­ar­bragðafræði frá Há­skól­an­um í Ed­in­borg. Hún er nú bú­sett í Nor­egi og gegn­ir prest­sembætti í Guðbrands­dal.

Vann með skóla hjá Sam­hjálp

Í ár­daga starfs­ins hjá Sam­hjálp komu marg­ar hend­ur að upp­bygg­ing­unni. Óli og öll hans fjöl­skylda sýndu óþrjót­andi dugnað og eld­móð í því starfi. Tókst þú þátt í starf­inu að öðru leyti en að leggja til rödd­ina þína á plöt­um? „Já, já, ég vann í Hlaðgerðarkoti og við göngu­deild­ina. Ég var meira og minna með í öllu pró­gramm­inu með skóla. Ég vann að dag­skrár­gerð í Hlaðgerðarkoti, það voru hóp­fund­ir og kennslufund­ir í Hlaðgerðarkoti. Það var sam­komu­hald og á göngu­deild­inni sner­ist starfið meira og minna um viðtöl við þá sem voru komn­ir út í lífið og eða aðstand­end­ur.“

Gunn­björg tók líka virk­an þátt í starfi Dorkas-hóps­ins, hóps kvenna sem komu sam­an til að styðja hver aðra. Í síðasta tölu­blaði Sam­hjálp­ar birt­ist viðtal við séra Sigrúnu Óskars­dótt­ur. Þar lýs­ir hún því hve ein­stakt henni fannst and­rúms­loftið í Dorkas-hópn­um og það bænastarf sem þar fór fram. Get­ur þú sagt okk­ur frá Dorkas-hópn­um, hvenær hann var stofnaður og hver til­gang­ur­inn var?

„Dorkas-hóp­ur­inn var stofnaður 1982 og við byrjuðum að hitt­ast í Þríbúðum í Hverf­is­götu árið eft­ir. Mark­miðið var að búa til hóp sem ein­göngu væri skipaður kon­um þannig að kon­ur gætu opnað sig bet­ur um sér­tæk mál kvenna. Það get­ur verið auðveld­ara fyr­ir kon­ur að tala við kon­ur. Það gef­ur auga­leið. Ég var alin upp í þannig um­hverfi að fyr­ir mér var opið sam­tal og að biðja sam­an mjög eðli­legt. Þetta var allt nýtt fyr­ir Sigrúnu. Ég áttaði mig ekk­ert á því hversu stórt mál þetta var fyr­ir henni fyrr en ég las þetta viðtal. Ég held að það sé ekk­ert endi­lega hægt að lýsa and­rúms­loft­inu en held að þar sem skap­ast rými fyr­ir mann­eskj­una að opna á viðkvæm­ustu reynslu sína eða hliðar, þar býr það heil­aga.“

Krefj­andi um­hvörf að taka við prest­starfi í Nor­egi

Í dag er Gunn­björg starf­andi prest­ur í Nor­egi. Hvers vegna flutti hún þangað? „Það kom til af tvennu, ég hafði farið aft­ur í HÍ til að taka þau fög sem á vantaði til prests­starfs. Fékk vinnu hér hratt og ör­ugg­lega og það hjálpaði að vera í Guðbrands­dal, þar sem bróðir minn er starf­andi prest­ur hér. Þau hjón­in voru búin að vera hér í ára­tug þegar ég kom og það hjálpaði til við hvar ég endaði.“

Hvenær tókstu við starf­inu og hvernig lík­ar þér? „Ég kom hingað í Guðbrands­dal­inn í ág­úst 2021. Þetta hafa verið krefj­andi um­hvörf, nýtt um­hverfi, nýtt tungu­mál og nýtt starf að fást við, og eig­in­lega brjálað að gera í þann tíma sem ég hef verið hér. Hefði aldrei komið í hug að óreyndu að prests­starf í sveit væri svo anna­samt. Skipu­lag og starfs­um­hverfi kirkn­anna hér er mjög gott og það hjálp­ar. Um­hverfið er heill­andi en ég hef lít­inn tíma haft til að kanna króka og kima vegna anna. Það lag­ast von­andi með vax­andi reynslu í starfi. Ann­ars verð ég göm­ul og lúin fyr­ir ald­ur fram,“ seg­ir Gunn­björg.

Vild­ir þú ekki vera prest­ur á Íslandi? „Jú og nei, andúðin í garð kirkj­unn­ar á Íslandi geng­ur stund­um fram af mér, en það eru sjálfsagt marg­ar ástæður þar að baki. Ég vildi kannski frek­ar byrja á nýj­um slóðum, þar var lít­il bið á tæki­fær­un­um. En það er hins veg­ar aldrei að vita hvað verður í framtíðinni. Ekk­ert er end­an­legt.“

Sam­hjálp stór­kost­leg­ur skóli

Er Guðbrands­dal­ur af­skekkt­ur staður? „Nei, alls ekki. Hann er frek­ar sunn­ar­lega og ligg­ur frá Lillehammer út til Leisja. Um Guðbrands­dal­inn ligg­ur þessi fræga Ólafs helga píla­gríma­leið en hún nær frá Ósló til Niðaróss (Þránd­heims) og drýgst­ur hlut­inn um dal­inn. Hér er vin­sælt sum­ar­bú­staðasvæði og á sumr­in og í öll­um frí­um eru hér mjög marg­ir Norðmenn. Svo á Har­ald­ur Nor­egs­kon­ung­ur hér hesta­búg­arð í fjöll­un­um og þar höf­um við sér guðsþjón­ustu fyr­ir hann og fylgilið hans á föstu­dag­inn langa. Það verður mitt hlut­verk næsta ár ef við lif­um bæði.“

Hugs­ar þú stund­um til baka til þeirra tíma þegar þú vannst fyr­ir Sam­hjálp og sakn­ar þú þeirra á ein­hvern hátt? „Nei, ég geri það nú ekki en þetta var al­veg stór­kost­leg­ur skóli að fara í gegn­um og al­veg ein­stakt að vera þátt­tak­andi í þessu starfi og upp­bygg­ing­unni allri. Fólkið sem ég hitti í þess­um aðstæðum er ógleym­an­legt og verður mér alltaf mjög kær­komið. Ég gat líka tengt þetta við guðfræðinámið en starf á stofn­un er hluti af nám­inu þannig að það nýtt­ist inn í námið, fyr­ir utan alla reynsl­una af sam­skipt­um við fólk sem deil­ir hlut sín­um með öðrum á ein­arðan hátt,“ seg­ir Gunn­björg að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda