Draumurinn var byggður á minnimáttarkennd

Sara Oddsdóttir markþjálfi og lögfræðingur er gestur Sölva Tryggvasonar.
Sara Oddsdóttir markþjálfi og lögfræðingur er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Árni Sæberg

Sara Odds­dótt­ir markþjálf­ari og lög­fræðing­ur seg­ir að fólk upp til hópa hafi týnt sinni eig­in rödd og þar með ástríðunni og lífs­gleðinni. Sara, sem er nýj­asti gest­ur­inn í podcasti Sölva Tryggva­son­ar, tal­ar í þætt­in­um um hvernig skil­yrðing­ar valdi því að fólk miss­ir sjón­ar á draum­um sín­um. 

„Það eru skil­yrðing­ar úti um allt sem hafa mik­il áhrif á okk­ur. Auðvitað þarf að hafa regl­ur í sam­fé­lagi manna, en mjög mikið af fólki hef­ur týnt ástríðunni af því að það er orðið al­veg fast í skil­yrðing­un­um. Ég sé þetta mjög mikið í störf­um mín­um. Fólk er búið að týna sinni eig­in rödd af því að það hef­ur í ár­araðir gert það sem er ætl­ast til af því í stað þess að fara sín­ar eig­in leiðir. Þegar ég vinn með fólki og við för­um inn í þetta kem­ur yf­ir­leitt fyrst viðnám, þar sem fólk finn­ur all­ar ástæður sem til eru til þess að taka ekki stökkið. En svo hægt og ró­lega fer fólk að átta sig á því að það er fast í skil­yrðing­um um að eitt­hvað slæmt sé að fara að ger­ast. Þá fer að opn­ast fyr­ir rödd­ina sem seg­ir fólki hvað það raun­veru­lega vill.

Þegar sú teng­ing er kom­in og byrj­ar að styrkj­ast verður auðveld­ara að sleppa tak­inu, taka hug­rakk­ar ákv­arðanir og gera það sem maður raun­veru­lega vill gera í líf­inu. Ef maður hef­ur aldrei tekið U-Beygju verður sú fyrsta alltaf erfið. Ef þú fórst bara í skóla, hélst svo áfram í meira nám og beint í vinn­una sem var eðli­legt fram­hald er eðli­lega erfitt að taka fyrsta stökkið og mót­stöðurn­ar eru mikl­ar. En yf­ir­leitt kemst fólk svo að því að ef við leyf­um okk­ur að gera það sem við elsk­um falla hlut­irn­ir oft­ar en ekki með okk­ur.“

Sara hef­ur sjálf tekið fleiri en eina U-beygju í líf­inu eft­ir að hafa fundið að ástríðuna vantaði í það sem hún var að gera. 

„Ég rak tísku­versl­an­ir eft­ir að hafa al­ist upp í tísku­geir­an­um og var al­gjör­lega sann­færð um að það væri það sem ég vildi gera í líf­inu. En á ein­hverj­um punkti áttaði ég mig á því að þessi draum­ur var bara byggður á hug­mynd­um úr æsk­unni og ákveðinni minni­mátt­ar­kennd. En eft­ir að ég hafði menntað mig í lög­fræði tók ég svo í raun aðra U-beygju og áttaði mig á því að ég vildi vinna með fólki. Það er auðvitað meira en að segja það að ákveða að hætta ein­hverju sem maður hef­ur lagt mik­inn pen­ing, tíma og metnað í að gera, en á end­an­um verður maður að elta ástríðuna og gera það sem raun­veru­lega nær­ir mann og fyll­ir mann eld­móði,” seg­ir Sara, sem seg­ist alltaf hafa verið þannig af guði gerð að hún hafi þorað að fara eig­in leiðir. Í þætt­in­um seg­ir hún  til að mynda sögu af sjálfri sér þegar hún var við ferm­ing­ar­ald­ur og ákvað að kaupa sér hest án mik­ils fyr­ir­vara:

„Ég var búin að vera al­veg heltek­in af hest­um í lang­an tíma þó að það væri eng­inn í kring­um mig í hesta­mennsku. Einu skipt­in sem ég var ná­lægt hest­um þegar for­eldr­ar mín­ir sendu mig í sveit á sumr­in. Svo er það árið sem ég er að ferm­ast að ég seldi mér þá hug­mynd að ég gæti fengið hest og til þess að fá hann yrði ég bara að fara upp í sveit og kaupa hann. Ég var búin að reikna mig þangað að ferm­ing­in myndi skila mér næg­um pen­ing til að kaupa hest­inn og fór bara í málið. En svo var það sím­talið við pabba þar sem ég þurfti að segja hon­um frá þessu og finna út úr því hvernig ætti að koma hest­in­um í bæ­inn og hvernig ætti að borga fyr­ir hann!“

Í þætt­in­um ræða Sölvi og Sara líka um sögu Íslands og hvernig hún verði að spila inn í umræðuna um til­finn­ing­ar og and­lega líðan hér á landi. 

„Aðstæðurn­ar sem fólk bjó við fyr­ir ekki svo löngu voru mjög harðneskju­leg­ar og það var lík­lega ekki mikið rými fyr­ir úr­vinnslu til­finn­inga og áfalla. Við kom­um úr gríðarlega hörðum aðstæðum þar sem hér var bar­átta upp á líf og dauða alla daga fyr­ir ekki svo löngu síðan. Við þurf­um ekki að fara nema þrjár til fjór­ar kyn­slóðir aft­ur í tím­ann til að sjá þær aðstæður að fólkið hér var að berj­ast fyr­ir lífi sínu alla daga, kon­ur á mín­um aldri höfðu kannski átt 10 börn og aðeins 5 voru á lífi og voru bún­ar að missa 2 menn. Menn fóru út á sjó í ein­verj­um ára­bát­um í óveðrum upp á von og óvon og svo þurfti bara að halda áfram með lífið. Það er staður­inn sem við erum að koma frá og í raun er þessi þjóð enn að vinna úr sam­eig­in­legri áfall­a­streitu fyrri kyn­slóða,“ seg­ir Sara og held­ur áfram:

„Núna búum við í allt ann­ars kon­ar aðstæðum, þar sem allt hef­ur batnað og efna­hag­ur þjóðar­inn­ar gjör­breytt­ist. En engu að síður hef­ur okk­ur á ein­hvern hátt aldrei liðið verr og nán­ast all­ar töl­ur um geðheil­brigði eru á leiðinni í ranga átt. Við verðum öll að taka sam­tal um það hvað við ætl­um að gera í því. Þó að lyf eigi full­an rétt á sér get­ur það ekki verið eina lausn­in að stærri og stærri hluti bæði barna og full­orðinna sé sett­ur á lyf við geðsjúk­dóm­um.“

 Hægt er að hlusta á brot úr þátt­um Sölva Tryggva­son­ar á hlaðvarpsvef mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda