Er hægt að finna kynferðislega nánd í fjarsambandi?

Áslaug Kristjánsdóttir segir að töfralausnir virki ekki þegar kemur að …
Áslaug Kristjánsdóttir segir að töfralausnir virki ekki þegar kemur að kynlífi. Ljósmynd/Samsett

Áslaug Kristjáns­dótt­ir hjúkr­un­ar- og kyn­fræðing­ur og höf­und­ur bók­ar­inn­ar Lífið er kyn­líf svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá grasekkjunni sem finnst vanta nánd í sambandið með kærastanum. Hann sendi henni mynd af kynfærum sínum til að reyna að kveikja í henni en það virkaði illa. 

Kæra Áslaug.  

Ég og kærastinn minn erum búin að vera saman í tæpt ár. Ég er 39 ára en hann er bara 27 ára.  Við náum vel saman en stundum finn ég fyrir því að við erum ekki á sama stað í lífinu. Ég er búin að mennta mig og er í starfi sem ég er ánægð í en hann ákvað að fara erlendis í framhaldsnám.  

Ég hef ekki áhyggjur af traustinu í sambandinu en mér finnst samt eins og við höfum fjarlægst síðustu vikurnar. Ég veit ekki alveg hvernig við eigum að vera náin! Hann hefur verið að þrýsta á mig að senda sér kynferðislegar myndir sem mér finnst óþægilegt. Hann sendi mér mynd af kynfærum sínum um daginn og segir slíkar sendingar venjulegar í sínum vinahópi. Mér finnst það hins vegar ekki eðlilegt og finnst myndin af typpinu alls ekki sexí! Mér finnst þetta ekki vera rétta leiðin til að vera náin - en ég veit samt ekki hver rétta leiðin er. Og er þetta kannski merki um að við eigum ekki að vera saman þar sem hann er augljóslega yngri og vanur öðrum venjum en ég? 

Kveðja,  

Grasekkjan 

Kæra Grasekkja,

Það getur verið erfitt að búa til nánd yfir hafið. Fjarsambönd reyna á nándina á allt annan hátt en nærsambönd. Það að senda kynfæramyndir getur verið kynslóða tengt en ég sé það ekki endilega í minni vinnu. Það er frekar tengt gildismati eða áhugasviði en aldri. Það að þið séuð ósammála um hversu spennandi slíkar myndir eru er ekki óalgengt. En þegar staðan er þannig þarf að finna aðrar leiðir. 

Við búum á tímum þar sem við getum átt myndsímtöl við fólk út um allan heim sem gerir fjarlægðina oft auðveldari. Sumir sem eru í svipaðri stöðu og þið skipuleggja stefnumót sem fara fram í myndsímtölum. Þið takið þá frá tíma eins og um stefnumót í sama rými væri að ræða og skipuleggið eitthvað sem tengir ykkur og er skemmtilegt. Það má elda saman, borða saman, jafnvel horfir fólk á sjónvarpsþætti saman á meðan það spjallar yfir netið.

Kynferðisleg nánd í fjarsambandi er flókin. Þar reynir á samskiptahæfni parsins, hversu auðvelt eigið þið með að segja hvað hentar ykkur og hvað er örvandi þegar fjarlægðin truflar. Þú segist vilja nánd en ekki vita hvað er rétta leiðin fyrir þig. Það er oft þannig að við erum hugmyndasnauð þegar kemur að kryddi í kynlífið því við höfum ekki gefið því mikinn gaum. Það þarf að virkja sköpunarkraftinn í þessum aðstæðum. Viljið þið senda skilaboð yfir netið, skrifa ástarbréf sem þið sendið í pósti, stunda sjálfsfróun með hitt á línunni?

Ég set mig ekki í dómarasæti og segi til um hvort þetta sé merki um að þið eigið ekki saman vegna aldursmunar. Ég trúi því almennt að ef neistinn er til staðar þá megi tala sig og prófa sig í gegnum flest það sem pör glíma við. Eitt sem er spennandi við fjarsamband er tilhlökkunin fyrir endurfundum. Rannsóknir hafa sýnt að hún hefur verulega jákvæð áhrif á kynlöngun. 

Kær kveðja, Áslaug

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Áslaugu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda