Virtur lögmaður á höfuðborgarsvæðinu lét hafa það eftir sér að fólk kynntist ekki fyrir alvöru fyrr en það erfði peninga (og þyrfti að skipta arfinum með öðru fólki). Það að skipta bróðurlega á milli sín og annarra væri ekki á færi allra og líklegra væri að allt færi fjandans til. Hvernig eiga systkini, sem hafa aldrei þolað hvort annað, að geta skyndilega hagað sér vel og farið eftir boðorðunum 10?
Án þess að nefna nein nöfn sagði lögmaðurinn frá því hvernig dagfarsprúðir bonus pater familias gætu umturnast í gráðug nýrík skrímsli við það eitt að áskotnast peningar sem annað fólk hefði stritað fyrir. Hann nefndi að fólk væri stundum til í að gera eiginlega hvað sem er til þess að eignast loksins risastóran Toyotu-jeppa, geta innréttað bar heima hjá sér með pool-borði og píluspjaldi og bjórkrana, farið til Maldvíveyja í frí og borðað á veitingastöðum á venjulegum mánudögum í stað þess að sjóða sér kattamat og drekka vatn með.
Það er einmitt vegna þessara orða lögmannsins sem það er mikilvægt að minna fólk á, sem er á besta aldri, að eyða bara arfi barnanna. Það er að segja ef fólk á peninga sem gætu valdið deilum.
Er ekki tilgangslaust að hafa verið allt sitt líf í þremur vinnum, vaknað upp í öllum veðrum og sparað hverja einustu krónu, til þess eins að afkomendur geti hnakkrifist yfir peningunum þínum þegar búið er að hola þér niður? Það hlýtur að vera dapurlegt að horfa á fjölskylduveldi sitt springa í loft upp því þú áttir svo mikið og börnin þín geta ekki komið sér saman um hver á að fá rjúpurnar hans Guðmundar frá Miðdal eða Kjarvalinn? Það er ekki hægt að saga málverkið í tvennt og rjúpurnar brotna bara ef einhver reynir að aðskilja þær. Þú sem ætlaðir loksins að slaka á þarna í himnaríki og hafa það náðugt neyðist þess í stað til að horfa niður á öll þessi ósköp. Eina sem þú getur gert er að fá dauðans samviskubit yfir því að hafa ekki frekar reynt að ala börnin upp í stað þess að vera alltaf í vinnunni. Ef þú hefðir átt minna væru þau ekki að kasta kristalsvösum, sem þú keyptir þegar þú fórst í reisu með veiðiklúbbnum til Prag, hvert í annað heima hjá þér og skemma parketið í leiðinni. Meiri ótuktirnar.
Hvers vegna ætli það sé jafnríkt í fólki og það er að skilja nógu mikið eftir fyrir börnin þegar þú ert horfin/n á braut? Landlæg meðvirkni hjá honum meðal-Jóni ætti ekki að vilja hleypa öllu í bál og brand eftir hans dag. Það er ekki auðvelt að greina hvers vegna þessi hugsunarháttur er ríkjandi.
Kannski erum við sem þjóð bara svo ung og óreynd í erfðamálum að við höldum að þetta eigi að vera svona. Við sem yngri erum þurfum að hvetja leiðtogana í lífi okkar til þess að njóta eigin erfiðis og eyða peningunum sínum án þess að detta í fullkomið stjórnleysi.
Flökkukindur eiga að ferðast um heiminn á meðan þær eru á fæti og ekki orðnar slæmar í hnjánum og komnar með gláku. Fagurkerar ættu líka að kaupa sér eitthvað fallegt. Kannski nýjan stól í stofuna? Einhvern fagurrauðan eftir Arne Jacobsen? Fólk sem finnur fyrir vonum og væntingum býr yfir andlegu ríkidæmi sem hefur þó ekkert með peninga að gera. Það að langa í eitthvað og hafa krafta til að búa til ævintýri er eftirsóknarvert.
Svo má ekki gleyma því að vonir og væntingar og kannski smá fiðringur yfir einhverju fallegu sem gleður skynfærin örvar hagkerfi heimsins.
Það að langa í eitthvað er merki um að fólk sé enn með rennandi blóð í æðum og hjarta sem slær. Er hægt að fá eitthvað mikið meira út úr lífinu en það?