Áslaug Kristjánsdóttir hjúkrunar- og kynfræðingur og höfundur bókarinnar Lífið er kynlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem greindist með krabbamein og finnur hvernig það hefur haft áhrif á hjónabandið.
Sæl Áslaug,
Ég greindist með krabbamein fyrir nokkru síðan og fór í lyfjameðferð. Það er eins og bilið á milli mín og mannsins míns hafi breikkað. Það er eins og við séum bæði hrædd við nánd eftir veikindin. Áttu einhver ráð fyrir okkur?
Kær kveðja,
LK
Sælar,
Það er algengt að fólk sé hrætt við nánd eftir alvarleg veikindi eins og krabbamein. Þegar fólk veikist þá breytist líklega allt í ástarsambandi um tíma. Ég sé þetta sem svo að alla jafna er fólk jafningjar í sínu parsambandi og vill vera það. Þegar krabbamein kemur til sögunnar þá raskast jafnvægið sem gjarnan er ósýnilegt í sambandinu. Í upphafi sambands kemur par á jafnvægi sem hentar því. Í veikindum getur þú ekki sinnt þínu í þessu jafnvægi eins og áður, sem er eðlilegt í þessum aðstæðum. Fólk sem ég hef hitt og hefur greinst með krabbamein finnst þetta erfiður partur af veikindunum. Jafnvel hef ég heyrt að það að geta ekki það sem þú gast áður sé það erfiðasta við veikindin.
Algengt er að maki fari að vernda og vill jafnvel ekki leggja neitt á þann veika. Hann hættir gjarnan að reyna við veika makann af tillitsemi. Hann er ekkert að sýna kynferðislegan áhuga á þessum tíma frekar en að biðja þig að fara út og moka snjóinn. Einhverra hluta vegna er oft litið á það sem álag að vera náin, snertast og stunda kynlíf.
Í lyfjameðferðum er kynlíf stundum það sísta sem fólk hugsar um. En langar samt í nánd, ást og umhyggju. Þegar pör hætta að stunda kynlíf verður eins og ást og umhyggja og líkamleg nánd sé of mikil áminning um kynlíf að fólk sleppir þessu öllu saman.
Í þau ár sem ég hef unnið með krabbameins greindum, bæði í Krabbameinsfélaginu og Ljósinu, hef ég ráðlagt fólki að iðka nakta nánd. Nakin nánd er æfingin fyrir pör. Þið takið frá tíma, berháttið ykkur og leggist saman upp í rúm. Þar liggið þið um stund, húð í húð. Liggja hlið við hlið, bringu að bringu eða í skeið, allt er gott og þið verið að finna hvað hentar hverju sinni. Endurgjöfin sem ég hef fengið er að þetta sé hjálpleg leið til þess að upplifa nánd á tímum sem kynlíf er ekki kostur. Meira að segja virðist þetta auðvelda pörum leiðina að kynlífi á ný þegar veikindin verða bærilegri og þegar bata er náð.
Ef þetta gengur vel og þið finnið að þið eruð tilbúin í meira en að liggja nakin saman þá er best að fikra sig áfram og gefa sér tíma. Samfarir eru oft stærsti hjallinn og því er gott að muna að aðrar kynlífsathafnir eru líka til. Krabbameinsmeðferðir hafa gjarnan slæm áhrif á slímhúðir og þá er gott að hafa sleipiefni við höndina. Passa þarf að sleipiefnið innihaldi ekki sykrur því þegar slímhúðin er varnalítil þá eiga sveppir og bakteríur greiðari aðgang til vaxtar á henni. Ef þú berð sykrur á kynfærin þá ertu að bjóða sveppnum í mat, því hann lifir á sykri. Ekki gera það.
Annað ráð sem ég hef séð virka vel er að taka sér frí frá því að vera með krabbamein. Ég veit vel að það er ekki hægt í raun en það má ímynda sér ýmislegt. Fólk ákveður þá að fara á stefnumót og gera eitthvað skemmtilegt, í takt við það sem heilsan leyfir. En öllu tali um krabbameinið, meðferðina eða framtíðina er sleppt. Það að hafa gaman saman hefur jákvæð áhrif á ástarsambönd og jafnvel kynlíf. Þannig getur samveran orðið eins og vítamínsprauta fyrir sambandið.
Kveðja,
Áslaug
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Áslaugu spurningu HÉR.