Reiði fólks í hlutfalli við stýrivexti

Valgeir Magnússon skrifar um reiði og pirring sem hrjáir fólk …
Valgeir Magnússon skrifar um reiði og pirring sem hrjáir fólk þessa dagana. Samsett mynd

Val­geir Magnús­son viðskipta-og hag­fræðing­ur skrif­ar um stemn­ing­una í sam­fé­lag­inu og velt­ir fyr­ir sér hvort hag­fræði hafi áhrif á hug­ar­far fólks. 

Ég hef verið hugsi yfir reiði fólks í sam­fé­lag­inu und­an­farið og því hve orðræðan verður sí­fellt harðari og harðari. Fyr­ir nokkr­um árum voru nettröll­in nokk­ur og þau röfluðu út í eitt og eng­inn hafði mikl­ar áhyggj­ur af því. Þetta fólk dæmdi sig bara sjálft. En núna virðist stór hluti þjóðar­inn­ar hafa breyst í ein­hvers kon­ar nettröll. Það eru góðu nettröll­in og vondu nettröll­in. Þau góðu hika ekki við að drulla yfir fólk sem ekki er á sömu skoðun og það og þau vondu smætta minni­hluta­hópa. Eft­ir stend­ur þögla miðjan sem fer minnk­andi. 

Ég átti spjall við raf­virkja sem viðraði áhyggj­ur sín­ar af þessu og hann hélt því fram að með því að fjöl­miðlar hafi sam­ein­ast góðu nettröll­un­um sé verið að sam­eina ölll vondu nettröll­in í reiði og fjölga þeim. Við þetta æs­ast góðu nettröll­in enn meira upp og þá erum við kom­in með póla­ríser­ingu sem sé hættu­leg. Þetta þótti mér áhuga­verð og góð skýr­ing. Eig­in­lega ágæt­is lýs­ing á því sem er að ger­ast í Banda­ríkj­un­um þar sem gjá myndaðist á milli vald­hafa/​fjöl­miðla og stórs hluta al­menn­ings sem ákvað þá að maður eins og Trump væri góð hug­mynd.

En svo átti ég spjall við Mörtu Maríu sem oft hef­ur verið mjög nösk á að taka hita­stigið á sam­fé­lag­inu. Hún var með þá kenn­ingu að stýri­vext­ir hafi valdið því að fólk hafi ekki haft efni á „fix­inu“ sínu. Þetta þótti mér áhuga­vert. Því við erum flest ein­hvers kon­ar fíkl­ar. Fíkn okk­ar get­ur verið Tene-ferð tvisvar á ári. Kaupa skó reglu­lega. Eða kaupa fal­lega hluti fyr­ir heim­ilið og setja mynd á In­sta­gram. Eða end­ur­nýja bíl­inn á 2ja ára fresti, nú eða bara fara reglu­lega á gott fylle­rí. Hjá mér er „fixið“ að hreyfa mig. En þegar fólk verður þung­lynt yfir því að eiga ekki fyr­ir af­borg­un­um af hús­inu sínu er erfitt að skreppa bara í rækt­ina og vera hress. Það þekki ég frá því í 90´s þegar ég var í slíkri stöðu. Hver hef­ur sitt „fix“.

Það er nefni­lega þannig að þegar „fixið“ er tekið af okk­ur, sama hvað það er, þá bygg­ist upp pirr­ing­ur og á end­an­um brjál­umst við. Og þegar fík­ill­inn brjál­ast þá veit hann ekki al­veg af hverju hann er brjálaður. Hann veit bara að hann er brjálaður og að það er glatað að vera brjálaður út í ekki neitt. Þess vegna þarf maður að finna eitt­hvað til að verða brjálaður út í. Þar ligg­ur hund­ur­inn graf­inn. All­ir fíkl­ar sem eru með upp­safnaðan pirr­ing yfir því að fá ekki „fixið“ sitt gera annað af þessu tvennu: Fara á AA fund til að ná spenn­unni út eða finna eitt­hvað til að ríf­ast yfir til að rétt­læta reiðina og síðan að detta í það. Og við sem fáum ekki fixið okk­ar en telj­um okk­ur ekki fíkla við höf­um eng­an stað til að losa út spenn­una og lykla­borðskast á net­inu er ein leið.

Nú er því netið fullt af reiðu fólki sem í mörg­um til­fell­um átt­ar sig ekki á hvaðan reiðin kem­ur. Vanda­málið er oft bara að það hef­ur ekki efni á „fix­inu“ sínu, áhyggj­ur af van­skil­um, minnk­andi kaup­mátt­ur. Það finn­ur því reiðinni út­rás á lykla­borðinu og hend­ist út á sta­f­ræn­an víg­völl til að berj­ast og fá út­rás fyr­ir upp­safnaða reiði. Þetta magn­ast svo upp og áður en við vit­um af geis­ar stríð á net­inu.

Svo erum við með berg­máls­hell­ana sem efla fólk enn frek­ar í að segja hvað sem er því þar virðast all­ir vera sam­mála. Þá fær fólk kjark til að segja sín­ar skoðanir op­in­ber­lega þó svo að það sé að segja hluti um aðra sem það myndi aldei segja með viðkom­andi viðstadda í raun­heim­um.

Til viðbót­ar vor­um við öll mikið heima og í net­heim­um í tvö ár og marg­ir hafa haldið áfram að lifa meira í net­heim­um en raun­heim­um eft­ir það. Þarna hætti fólk að til­heyra fjöl­breytt­um hóp­um og fór að til­heyra sér lík­ara fólki og þeir sem hafa aðrar skoðanir eru bara óvin­ir þínir. Það er okk­ur nefni­lega svo mik­il­vægt að til­heyra. 

Hvað er til ráða? Fyr­ir ein­stak­ling­inn sem er reiður gæti verið hug­mynd að hugsa fyrst og pikka svo. Eða byrja í jóga, hreyfa sig, fara niður í fjöru og öskra. Taka sér frí á sam­fé­lags­miðlum eða hugsa þegar maður sér ein­hvern segja ein­hverja vit­leysu. Hugs­an­lega líður þess­um ein­stak­lingi bara illa og þess­vegna er þessi full­yrðing svona hart orðuð. Svo þurf­um við að muna að það er ekk­ert rifr­ildi nema a.m.k. tveir ríf­ist og að það þarf ekki að svara öll­um nettröll­um. Því ef við ger­um það ekki þá verða þau að steini og gleym­ast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda