„Ég varð edrú fyrir son minn“

Andri Már Ágústsson.
Andri Már Ágústsson. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Andri Már Ágústs­son varð fyr­ir al­var­legri lík­ams­árás í mars 2016 þegar fimm ein­stak­ling­ar frel­is­sviftu hann. Hann er edrú í dag og seg­ir sögu sína í Sam­hjálp­ar­blaðinu. 

Andri Már var efni­leg­ur fót­boltamaður og marg­ir spáðu hon­um bjartri framtíð í íþrótt­inni. En innra með hon­um sjálf­um var ein­hver ólga og hann náði ekki þeirri ein­beit­ingu sem þarf til að skapa sér slík­an fer­il.

„Ég er al­inn upp við alkó­hól­isma,“ seg­ir hann. „Mér finnst að alla tíð hafi ríkt ákveðið rót­leysi í lífi mínu og mér fannst ég standa utan sam­fé­lags­ins. Mér gekk ekki vel í skóla en ég var góður í íþrótt­um, var í fót­bolta og það hélt mér réttu meg­in við lín­una þar til ég varð full­orðinn. Ég var far­inn að fikta við að drekka fjór­tán ára og far­inn að fikta við fíkni­efni eft­ir það. Þegar ég var sautján ára gafst pabbi upp og setti mér úr­slita­kosti, annaðhvort yrði ég að taka mig á eða finna mér annað heim­ili. Ég fór bara út, kynnt­ist barn­s­móður minni um svipað leyti og flutti heim til henn­ar og for­eldra henn­ar.

Ég róaðist tölu­vert við það. Notaði minna fíkni­efni en ég drakk mjög illa um helg­ar. Ég vann í Mjólk­ur­sam­söl­unni á þess­um árum og var í fínni rútínu að mörgu leyti. Við eignuðumst dreng árið 2011 og tveim­ur árum síðar labbaði ég út af heim­il­inu. Þegar ég hugsa til baka var fíkn­in ein­fald­lega orðin svo sterk að ég gat ekki lifað án þess að fá mér dag­lega og nán­ast hverja sek­úndu. Það var auðvitað ekki í boði með konu og barn á heim­il­inu svo að ég lét mig bara hverfa.“

Ljós­mynd/​Ragn­hild­ur Aðal­steins­dótt­ir

Þakk­lát­ur fyr­ir að hafa orðið fyr­ir lík­ams­árás

Hann er al­var­leg­ur á svip og nokkuð aug­ljóst að hon­um þykir erfitt að rifja þetta upp.

„Á ár­un­um frá 2013–2017 var bara ógeðslega mikið rugl á mér,“ held­ur hann áfram. „Ég flutti heim til mömmu, sem var orðin edrú þá, og var á sóf­an­um hjá henni þegar ég var ein­hvers staðar heima. Yngri bróðir minn hætti með kær­ustu sinni á svipuðum tíma og við fór­um á eitt­hvert flug sam­an. Ég fór inn á Vog í októ­ber 2013, kom út en gerði ekk­ert í mín­um mál­um og datt í það tíu dög­um síðar. Þangað fór ég aft­ur 2015 og sag­an end­ur­tók sig. Ég var ekki meðvitaður um raun­veru­leg­an vanda minn á þess­um tíma­punkti. Í mars 2016 lenti ég í mjög al­var­legri lík­ams­árás. Fimm ein­stak­ling­ar sviptu mig frelsi. Þeir voru vopnaðir og reyndu virki­lega að murka úr mér lífið. Þeir enduðu á að skutla mér heim til barn­s­móður minn­ar, þar sem ég leið út af og hún hringdi á sjúkra­bíl.

Ég vaknaði á spít­ala. Það hafði blætt inn á heil­ann, bein voru brot­in í and­lit­inu og fleiri áverk­ar um all­an lík­amann. Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg. Þótt ég hafi ekki orðið edrú fyrr en einu og hálfu ári seinna varð árás­in til þess að ég fór að reyna. Skömmu eft­ir þetta fór ég í meðferð í Hlaðgerðarkoti í fyrsta skipti. Þar fékk ég upp­lýs­ing­ar um hvað væri raun­veru­lega að mér og hvað ég þyrfti að gera til að halda mér edrú. Ég var mjög góður í meðferðinni og mér gekk mjög vel. Ég upp­lifði þá hluti sem á að upp­lifa þegar verið er að gera þá hluti sem eru nauðsyn­leg­ir til að verða edrú.

Þegar ég kom úr meðferðinni gerði ég hins veg­ar mörg mis­tök, meðal ann­ars fór ég að vinna of mikið og um helg­ar lokaði ég mig af með strák­inn minn. Ég náði að vera edrú í fjóra mánuði í heild­ina eft­ir það. Ég datt í það, við tóku mjög skraut­leg­ir níu dag­ar og ég vaknaði á Litla-Hrauni eft­ir þá með sex mánaða fang­elsis­vist fram und­an. Ég var mikið edrú meðan ég sat inni en þó ekki all­an tím­ann. Þarna fékk ég smjörþef­inn af því hvernig var að lifa án vímu­efna. Ég var í ágæt­isrútínu inni í fang­els­inu, í vinnu og lík­ams­rækt.“

Andri er mikill dýravinur og nýlega bættist þessi hvolpur í …
Andri er mik­ill dýra­vin­ur og ný­lega bætt­ist þessi hvolp­ur í fjöl­skyld­una. Ljós­mynd/​Ragn­hild­ur Aðal­steins­dótt­ir

Fékk fleiri verk­færi í hend­ur

Það er und­ar­legt að heyra að ein­hver mann­eskja geti fundið fyr­ir þakk­læti fyr­ir að hafa orðið fyr­ir al­var­legri lík­ams­árás og fyr­ir að hafa endað í fang­elsi. En engu síður er það svo að al­var­leg áföll geta orðið upp­haf ein­hvers góðs.

„Ég losnaði í des­em­ber 2016,“ seg­ir Andri. „Við tóku nokkr­ir mánuðir þar sem ég var að reyna að halda mér edrú en gekk illa en 25. sept­em­ber 2017 varð ég edrú og ég fór inn á Hlaðgerðarkot 2. októ­ber. Meðferðin var þá orðin lengri. Hún var sex vik­ur þegar ég fór í fyrra skiptið en var þrír mánuðir þegar ég kom í seinna skiptið. Ég hafði mjög gott af þess­um þrem­ur mánuðum þótt ég hafi gert hlut­ina mjög svipað og ég hafði gert áður. Ég lagði mig mjög mikið fram, gætti þess að mæta í allt pró­gramm og fór mjög fljótt að líða eins og ég væri að kom­ast í bata við alkó­hól­isma.

Það gerðist mjög margt hjá mér meðan á meðferðinni stóð. Ég upp­götvaði marga hluti þegar ég fór að skoða æsku mína bet­ur og fór að átta mig á að ég hefði hegðað mér á ákveðinn hátt út af ýmsu sem komið hafði fyr­ir og sá að ef ég breytti hegðun­ar­mynstr­inu gæti ég breytt öllu öðru. Ráðgjaf­inn minn kunni óskap­lega vel á menn eins og mig, vissi hvernig hann ætti að tala við mig. Hann náði að selja mér þá hug­mynd að meðferð væri bara fyrsta hænu­skrefið í þessu dæmi. Ef ég ætlaði að láta þetta end­ast yrði ég að fara í tólf spora sam­tök og halda vinn­unni áfram.

Þegar ég út­skrifaðist eft­ir ára­mót 2018 hafði ég í hönd­un­um mun fleiri verk­færi en áður og mjög meðvitaður um hvað ætti að gera. Síðan hef ég verið mjög virk­ur í tólf spora sam­tök­um. Þetta er bara líf mitt í dag. Ég er mjög op­inn með það að ég sé mjög virk­ur inn­an þeirra.“

Andri Már og Alexandra ásamt sonum sínum.
Andri Már og Al­ex­andra ásamt son­um sín­um.

Reynd­ist góður í að vinna með fólki

Næsta skref var að finna út hvað hann ætlaði að gera við tíma sinn og hverju hann vildi sinna í framtíðinni.

„Ég fór í skóla þegar ég út­skrifaðist, lærði heils­unudd í FÁ, kláraði þar þrjár ann­ir og á bara verk­lega hlut­ann eft­ir af því námi. Þegar ég lauk við bók­legu grein­arn­ar var svo mik­il bið eft­ir að kom­ast að í verk­nám að nem­end­ur þurftu að bíða í heilt ár. Ég nennti því ekki. Ákvað þess í stað að skoða aðra hluti og tók við rekstri á bón­stöð sem vin­ur minn var með, fór svo að vinna hjá Heklu og þaðan fór ég í vinnu á verk­stæði á Sel­fossi, Detail Ísland, sem sér­hæf­ir sig í kera­mik­húðun bíla. Meðan ég var að vinna þar fékk ég sím­tal frá Alla, sem var um­sjón­ar­maður á Hlaðgerðarkoti. Hann spurði mig hvort ég hefði ein­hvern áhuga á að leysa af í því starfi á sumr­in. Ég var held­ur bet­ur til í það.“

Andri Már fór í at­vinnu­viðtal við for­stöðukonu Hlaðgerðarkots og var í kjöl­farið feng­inn til að leysa af strax. Um svipað leyti bauðst hon­um einnig að verða um­sjón­ar­maður á áfanga­heim­il­inu Brú og þá gerði hann sér ljóst að hann hafði ýmsa hæfi­leika sem hann hafði ekki áður vitað af.

„Ég hafði ekki hug­mynd um að ég hefði áhuga á að vinna með fólki. Fram að þessu hafði ég mest verið að vinna með bíla og í erfiðri lík­am­legri vinnu en ég ger­sam­lega fann mig í þessu,“ seg­ir hann. „Vakt­irn­ar í Hlaðgerðarkoti voru þannig að maður vann átta sól­ar­hringa í mánuði, þannig að ég stofnaði eigið fyr­ir­tæki sem ég rak meðfram vinn­unni í Hlaðgerðarkoti og á Brú. Ég rak mitt eigið verk­stæði, Detail setrið, og fyr­ir­tækið stækkaði hratt. Sam­kvæmt öllu hefði ég átt að hætta á Hlaðgerðarkoti og Brú og helga mig því en ég ger­sam­lega dýrkaði að vinna þarna.

Ég er mjög góður í þessu starfi. Ég hef gengið þessa braut og tala af eig­in reynslu. Ég hef þenn­an fa­ktor að geta talað við aðra alkó­hólista á jafn­ingja­grund­velli. Þótt ég sé kom­inn aðeins lengra verð ég alltaf einn af þeim og því mæti ég fólki á þeim for­send­um. Ég fékk mjög góðan hljóm­grunn strax og var í ess­inu mínu að hjálpa fólki.“

Held­ur á nýj­ar slóðir

Ákveðinn vendipunkt­ur varð hjá Andra Má núna um ára­mót­in. Vakta­fyr­ir­komu­lagi í Hlaðgerðarkoti var breytt, áfanga­heim­ilið Brú var lagt niður og hann hafði selt fyr­ir­tækið sitt og hafið störf á Stuðlum. Hon­um bauðst þar staða og úr varð að hann ákvað að kveðja Hlaðgerðarkot og taka að sér meira starf með ung­ling­un­um á Stuðlum.

„Ég var ekki viss um að vakta­fyr­ir­komu­lagið myndi henta mér meðfram rekstr­in­um,“ seg­ir hann. „Ég hafði unnið mjög mikið lengi og var orðinn slæm­ur í skrokkn­um svo að ég ákvað að selja fyr­ir­tækið. Mér fannst nýja vakta­fyr­ir­komu­lagið skapa það að ég yrði ekki í eins mikl­um sam­skipt­um við fólkið og elskaði þann þátt vinn­unn­ar. Það var helsta ástæðan fyr­ir því að ég ákvað að hætta. Ég tók líka að mér auka­vinnu á Stuðlum meðan ég var í öllu hinu og stend mig vel í vinn­unni á Stuðlum og þeir voru alltaf að pota í mig að koma í meiri vinnu, taka að mér fast­ar vakt­ir og það varð úr. En það er mjög erfitt að hugsa til þess vera ekki leng­ur í Hlaðgerðarkoti.“

En hvað um einka­lífið?

„Ég og barn­s­móðir mín tók­um sam­an aft­ur þrem­ur árum eft­ir að ég hætti að drekka og trú­lofuðum okk­ur á aðfanga­dag 2021,“ seg­ir hann glaður. „Við keypt­um okk­ur íbúð sam­an og ætl­um að gifta okk­ur í sum­ar. Strák­ur­inn minn er að verða þrett­án ára. Síðastliðin ár hafa verið stór­kost­leg. Við höf­um ferðast mikið bæði inn­an­lands og er­lend­is. Ég hef upp­lifað lífið á mjög fal­leg­an hátt og aldrei hef­ur það komið upp í huga mér að ég þurfi áfengi eða fíkni­efni til að laga eitt­hvað eða bæta.“‘

Andri Már og unnusta hans og barnsmóðir, Alexandra Pálsdóttir.
Andri Már og unn­usta hans og barn­s­móðir, Al­ex­andra Páls­dótt­ir.

Víst hægt að hætta að drekka fyr­ir barnið sitt

Andri Már er líka mjög meðvitaður um hvað hann þarf að gera til að skapa sér vellíðan og rækta and­legt jafn­vægi.

„Ég finn að ég hef ein­hverja ró innra með mér sem ég hafði aldrei áður haft á æv­inni. Ég geri hlut­ina aldrei í hvat­vís­isrugli. Ég er með mjög sterk­an hóp manna í kring­um mig sem eru allt frá nokkr­um árum yngri upp í fleiri árum eldri sem ég leita til áður en ég tek stór­ar ákv­arðanir. Þeir passa upp á að ég æði ekk­ert áfram í mínu lífi. Per­sónu­lega er ég líka mjög ör­ugg­ur með á hvaða veg­ferð ég er en það er ákveðið sjálfs­traust og sjálfs­virðing sem hef­ur komið í kjöl­far þess að standa við allt sem ég hef sagst ætla að gera und­an­far­in ár.

Ástæðan fyr­ir því að ég varð edrú í upp­hafi er að mig langaði að vera til staðar fyr­ir barnið mitt, hundrað pró­sent. Það hef­ur gengið á sjö­unda ár núna. Ég hef á þeim tíma mætt í öll for­eldraviðtöl, öll fót­bolta­mót, alltaf verið til staðar. Það er mín lang­stærsta gjöf í þessu og annað hef­ur stækkað út frá því, störf­in sem ég hef gegnt, rekst­ur­inn og allt sem ég hef lært af því.

En þetta hef­ur verið ofboðslega erfitt á köfl­um. Ég missti besta vin minn í októ­ber 2022. Hann hafði búið á áfanga­heim­il­inu Brú hjá mér eft­ir meðferð í Hlaðgerðarkoti. Hann tók of stór­an skammt og það er erfiðasta lífs­reynsla sem ég hef farið í gegn­um. Hann dó ekki strax. Var um tíma í önd­un­ar­vél og maður hafði alltaf svo mikla trú á að hann myndi vakna. Þótt þetta væri hrika­leg­asta áfall sem ég hafði gengið í gegn­um eft­ir að ég varð edrú datt mér aldrei í hug að detta í það og það seg­ir mér að ein­hvers kon­ar lækn­ing hafi átt sér stað og ég sé að gera það sem ég þarf til að halda mér edrú. Ég var þannig að ef ein­hver talaði illa um mig eða sagði eitt­hvað sær­andi barði ég frá mér til að slökkva á sárs­auk­an­um inni í mér. Ég notaði áfengi og eit­ur­lyf til að lækna mig á tíma­bili en nú get ég farið í gegn­um lífið og mætt öllu án þeirr­ar deyf­ing­ar.

Það að hafa farið í meðferð í Hlaðgerðarkoti var besta gjöf sem ég hef fengið og barn­s­móðir mín, mamma og barnið mitt. Ég var al­gjör byrði á þessu fólki. Strák­ur­inn minn kom aldrei í heim­sókn til mín meðan ég var í fang­elsi. Það var nokkuð sem ég vissi að myndi ekki ger­ast. All­an tím­ann sem ég var í neyslu var barn­s­móðir mín samt svo góð. Hún sagði alltaf: „Ef þú læt­ur renna af þér máttu hitta barnið þitt.“ Ég gerði það reglu­lega svo ég missti aldrei teng­ing­una við hann, sem varð til þess að ég á end­an­um fór í meðferð fyr­ir hann. Það er talað um að menn verði ekki edrú fyr­ir börn­in sín en það er bara bull því í mínu til­viki var það aðal­hvat­inn. Það þýðir ekki að maður loki sig ein­hvers staðar af með barnið en það varð til þess að ég gerði meira í mín­um mál­um.

Þegar ég fór að fá hann til mín í pabbahelg­ar eft­ir að ég varð edrú var ég meðvitaður um að ég þyrfti líka að sinna mér. Ég fór á fundi á föstu­dög­um og mamma var bara með strák­inn á meðan. Ég mæti enn á þessa fundi en hann var al­gjör hvati fyr­ir mig. Við fór­um ný­lega til Teneri­fe og sú ferð var dá­sam­leg, nokkuð sem ég gat aldrei gefið hon­um áður, en við ger­um reglu­lega í dag,“ seg­ir Andri Már að lok­um, en næstu skref hans verða á Stuðlum að hjálpa ung­ling­um og ungu fólki að breyta lífi sínu til hins betra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda