„Ég var á mjög vondum stað og sá enga aðra leið út“

Sunna Dóra Möller segist hafa komið út sterkari.
Sunna Dóra Möller segist hafa komið út sterkari. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Ég veit núna að allt get­ur breyst á einu auga­bragði,“ seg­ir Sunna Dóra Möller, frá­far­andi prest­ur við Digra­nes- og Hjalla­kirkju í Kópa­vogi. Seint um kvöld, í maí á síðasta ári, tók til­vera henn­ar væg­ast sagt skarpa og óvænta beygju.

Dagurinn byrjaði líkt og hver annar, morgunbollinn, vinnan, matarinnkaupin og fleira til, ekkert var óvenjulegt eða ófyrirséð, þangað til leið á miðnætti. Þá hrönnuðust óveðursskýin upp í huga hennar, eitt af öðru, án þess að hún kæmi nokkrum vörnum við. Allt varð svart, sársaukinn nísti inn að beini og allar leiðir virtust henni lokaðar. Hún var læst inni í sjálfri sér og sá bara eina lausn á vanda sínum.

Sunna Dóra er fædd 1975 og uppalin í Árbæjarhverfinu í Reykjavík. Hún lauk embættisprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands í febrúar 2011 og hefur starfað sem prestur frá árinu 2012, fyrst sem æskulýðsprestur við Akureyrarkirkju, eftir að hafa verið æskulýðsfulltrúi þar í tvö ár á undan, og svo við Hjallakirkju í Kópavogi, sem sameinaðist síðar Digraneskirkju. Sunna Dóra er fráskilin, á þrjú uppkomin börn og tvö barnabörn.

Margt og mis­jafnt hef­ur á daga henn­ar drifið og fékkst hún góðfús­lega til að deila sögu sinni með les­end­um mbl.is og Morg­un­blaðsins.

Sigldi nokkuð mildilega í gegnum æskuárin

„Ég var frekar feimið barn, hlédrægt, en stóð mig alltaf mjög vel í námi,“ segir Sunna Dóra. „Ég hef sennilega verið það sem kalla mætti framúrskarandi námsmaður, enda lagði ég mikinn metnað í námið og var auk þess mikill lestrarhestur, var alæta á bækur. Aftur á móti var ég lítil íþróttamanneskja. Þrátt fyrir þetta átti ég samt alltaf góða vini og fjölskylda mín var dásamleg. Ég á tvö yngri systkini, systur og bróður, og mamma og pabbi héldu vel utan um okkur. Það má því segja að ég hafi siglt nokkuð mildilega í gegnum æskuárin.“

„Fjölskylda mín var trúrækin.“
„Fjölskylda mín var trúrækin.“ Ljósmynd/Aðsend

Á heimili Sunnu Dóru voru kristin gildi í heiðri höfð. „Fjölskylda mín var trúrækin,“ segir hún. „Ég átti ömmu sem var mjög trúuð. Hún kenndi mér bænir og signdi mig á hverju kvöldi fyrir svefninn. Annars var trúarlegum boðskap ekki haldið að okkur systkinunum. Ég var samt mjög áhugasöm um kristna trú og þegar ég var 10 eða 11 ára gömul fór ég upp á mitt eindæmi að stunda sunnudagaskólann í Árbæjarkirkju. Þetta var ekki ytri hvatning heldur eitthvað sem mig langaði virkilega til þess að gera.“

Móðir í menntaskóla

Eftir grunnskólapróf lá leið Sunnu Dóru í Menntaskólann í Reykjavík. Henni sóttist námið áfram vel en á lokaári hennar í skólanum, þegar hún var 19 ára, varð heldur betur breyting á hennar högum.

„Ég varð ófrísk um vorið 1994, við barnsfaðirinn vorum ekki í sambandi og það þýddi bara eitt: Ég varð einstæð móðir og þegar ég útskrifaðist sem stúdent árið 1995 var ég móðir sex mánaða gamals drengs.

Þetta voru erfiðir mánuðir, mér fannst drulluerfitt að vera ung stúlka með lítið barn. Það hvarflaði ekki að mér að láta eyða fóstrinu og ég hef alltaf litið á son minn og önnur börn sem guðsgjöf. En þarna þurfti ég að læra á lífið upp á nýtt og var mjög lánsöm að eiga góða að. Ég fékk vissulega skot frá sumum, mér óskyldum, en ég lét þau ekki særa mig og saman komumst við sonur minn í gegnum þetta. Hann gaf mér mikinn styrk og hjálpaði mér að þroskast á svo margan hátt.“

„Þetta gekk einfaldlega ekki upp“

Eftir stúdentsprófið fór Sunna Dóra í Háskóla Íslands. Þar spreytti hún sig fyrst á lögfræði, en skellti sér svo í guðfræði. „Ég var að fletta aðalnámskrá skólans, staldraði við stutta greinargerð um guðfræðideildina og ákvað í kjölfarið að skipta um vettvang. Námið þar kallaði á mig, enda fjölbreytt og nýtilegt til margra hluta.

Í guðfræðideildinni kynntist ég fyrrverandi eiginmanni mínum, Bolla Pétri Bollasyni. Við eigum tvær dætur saman og komu þær báðar í heiminn í náminu, fæddar 2000 og 2002.“

Bolli Pétur var valinn sóknarprestur í Laufási í Grýtubakkahreppi vorið 2009. Þá flutti fjölskyldan norður og stuttu síðar fékk Sunna Dóra stöðu við Akureyrarkirkju eins og fram hefur komið.

Leiðir Sunnu Dóru og Bolla Péturs skildi árið 2022.

Sunna Dóra á börnum sínum lífið að launa.
Sunna Dóra á börnum sínum lífið að launa. Ljósmynd/Aðsend

Upplifði mikinn ótta

Nokkru fyrir skilnað Sunnu Dóru og Bolla Péturs, eða í maí 2020, veiktist hún lífshættulega. „Ég fékk það sem er kallað flysjun í slagæð á hálsi. Ég var stödd í blómabúð í Reykjavík að kaupa sumarblóm þegar ég fékk allt í einu gríðarlegar sjóntruflanir. Ég var þar ásamt Bolla Pétri. Við héldum rakleiðis upp á bráðamóttöku.

Þetta var á miðju kórónuveirutímabilinu og það var rokið með mig í myndatöku. Nokkrum klukkustundum síðar var mér tilkynnt hvað hefði valdið þessu. Slagæð í hálsi hafði rofnað. Þetta hefði getað farið mjög illa ef ég hefði ekki komist svona fljótt undir læknishendur. Ég var heppin þar sem margir fá heilablóðfall í kjölfarið á svona löguðu.

Í framhaldinu af þessu fór ég í níu mánaða leyfi frá störfum en það tekur æðina sex mánuði að gróa að fullu. Ég var mjög skelkuð og upplifði mikinn ótta eftir þessa lífsreynslu og nýtti veikindaleyfið meðal annars til að sækja EMDR-meðferð til að vinna úr áfallinu,“ útskýrir Sunna Dóra.

„Taldi mig vera reiðubúna“

„Ég sneri aftur til vinnu í janúar 2021, taldi mig vera reiðubúna til að takast á við þau verkefni sem starfinu fylgja og var það á margan hátt, en á sama tíma var líka margt óunnið í sálarlífinu sem ég gaf mér, á þeim tíma, ekki nægt rými til að vinna úr. Ofan á þetta bættist þungt mál innan safnaðarins, sem nú samanstóð af tveimur kirkjum, Digranes- og Hjallakirkju.“

Málið varðaði sóknarprest sem þá þjónaði í sama prestakalli og Sunna Dóra. Hann var ásakaður um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti í garð nokkurra samstarfskvenna.

„Þetta fór hljóðlega af stað í október 2021. Ég fór ásamt samstarfskonu minni á fund hjá faglegu teymi á vegum þjóðkirkjunnar, sem í kjölfarið hóf að skoða aðstæður í prestakallinu og kanna hvað væri hæft í þessum ásökunum í garð sóknarprestsins.

Ég, tiltölulega nýkomin úr veikindaleyfi og erfiðu áfalli, gekk inn í þessar aðstæður. Það voru þung spor. Þegar svona stórt sár opnast þá veit maður að lífið verður aldrei eins aftur. Þetta mál breytti heilmiklu innan prestastéttarinnar, enda stórt og rannsóknin viðamikil. Málið var óþægilegt í alla staði, mjög viðkvæmt og snerti fleiri en þau sem þarna voru í brennidepli.

Það var samt aldrei efi í mínum huga hvernig í þessu lá og var viðkomandi sendur í leyfi frá störfum í söfnuðinum allt þar til niðurstaða teymisins var kynnt í september 2022.

Sunna Dóra er þakklát fyrir að vera á lífi.
Sunna Dóra er þakklát fyrir að vera á lífi. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Á undanförnum árum hafa komið upp á yfirborðið, hérlendis og erlendis, ýmis mál af kynferðislegum toga sem sýna okkur að margt er að varast í þessum efnum, líka innan kirkjunnar. Við verðum því að vera vakandi, nota röddina og hafa kjark til að tækla mál sem þessi og standa með þolendum, alltaf og alls staðar.“

„Kannski var þetta kornið sem fyllti mælinn“

Hverfum nú fram til ársins 2023. Álagið sem fylgdi því sem á undan hafði gengið í lífi Sunnu Dóru; veikindunum, leiðindamálinu í prestakallinu og svo hjónaskilnaðinum, skildi eftir sig ör á sálu hennar. Hún hafði enn fremur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á unglingsárunum og einhvern veginn höfðu þau tekið sér bólfestu í undirmeðvitund hennar. Nú spruttu þau fram af fullum krafti og bættust við það sem á henni dundi. „Þetta gerðist á djamminu árið sem ég varð 16 ára. Ég var í glasi og það er stutt síðan ég áttaði mig á því að þetta var ekkert annað en ofbeldi.

Kannski var þetta kornið sem fyllti mælinn og varð til þess að síðla kvölds, 16. maí í fyrra, missti ég öll tök á tilverunni og mátti engu muna að þar hefði ég kvatt þetta líf fyrir fullt og allt.

Á þessum tíma var þrautseigja mín vel tognuð og taugakerfið löngu búið með yfirdráttinn, ef svo má að orði komast. Þetta var á þriðjudegi og hann byrjaði vel. Það finnst mér vera það óhugnanlegasta í öllu þessu þegar ég hugsa til baka. Hvað gerðist eiginlega?

Ég bý í Vesturbænum og eftir vinnu keyrði ég út á Eiðistorg og keypti mér þar eina rauðvínsbelju, fer svo heim og byrja að drekka úr henni. Nokkrum klukkustundum seinna var ég búin að tæma úr pilluboxum sem höfðu að geyma svefnlyf, kvíðalyf og róandi lyf. Það var augljóst hvert stefndi, ég vildi ekki vera til.“

„Ég var á mjög vondum stað og sá enga aðra …
„Ég var á mjög vondum stað og sá enga aðra leið út. Þetta kom gjörsamlega aftan að mér.“ Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Í lyfjavímunni sendi Sunna Dóra símaskilaboð á börnin sín þrjú og sagðist elska þau. „Það er svo merkilegt að önnur dóttir mín og sonur minn hafa samband sín á milli eftir þetta og lásu eitthvað meira úr skilaboðunum en í þeim stóð. Auk þess var orðalagið í þeim ólíkt því sem ég er vön að senda á þau, það var sterkara og gaf sennilega til kynna að eitthvað meira byggi þarna á bak við. Ég var vön að senda á þau kærleikskveðjur en ekki með þessum orðum. Þetta varð mér til lífs. Börnin mín voru sammála um að eitthvað væri að hjá mér og dóttir mín, sem býr skammt frá mér, stökk því af stað og fann mig hálfrænulausa. Hún hringdi strax á Neyðarlínuna og sjúkrabíll var jafnharðan sendur á staðinn.“

„Þetta kom algjörlega aftan að mér“

Sunna Dóra var flutt í snatri á bráðamóttökuna. Sjálf segist hún ekki muna eftir ferðinni þangað og hafi ekki vitað af sér fyrr en hún rankaði við sér daginn eftir. „Ég vissi hvað ég hafði gert þegar ég vaknaði, ég var mjög hrædd. Fyrstu viðbrögð mín voru að láta sem allt væri í góðu lagi en svo var ekki.

Ég var á mjög vondum stað og sá enga aðra leið út. Þetta kom gjörsamlega aftan að mér. Ég veit að í einhverjum tilfellum er fólk búið að gera upp hug sinn en hjá mér var þetta stundarbrjálæði og hugrof. Áföllin mín höfðu safnast saman, óuppgerð, og það var eins og þau hefðu ákveðið að nú væri nóg komið!

Lyfjunum var ekki dælt upp úr mér en ég var sett í hjartalínurit. Ég fékk aldrei að vita nákvæmlega á hvaða stað ég hefði verið við komuna á spítalann og hef heldur ekkert spurt að því. Ég veit hreinlega ekki hvort ég vilji vita það. Það er nóg fyrir mig að vita að ég hafi tekið þessar töflur, tekið þessa ákvörðun.“

Reynslusaga Sunnu Dóru sýnir okkur að það geta allir átt í innri baráttu, baráttu upp á líf og dauða, líka það fólk sem hefur margsinnis komið öðrum til hjálpar á neyðarstundu og þar eru prestar ekki undanskildir. „Það tók mig smátíma að koma til baka,“ segir hún. „Það urðu allir hræddir. Það er mjög eðlilegt. Það er erfitt fyrir barn að upplifa það að eiga mömmu sem fór á þennan stað. Fyrir aðstandendur er þetta áfall og sársauki. Það tekur tíma að vinna úr þessu í stóra samhenginu. Við höfum verið að gera það hægt og rólega. Það er dásamlegt. Börnin mín eru stolt af mömmu sinni í dag. Þau eru það dýrmætasta sem ég á.“

„Þrátt fyrir allt sem hefur á gengið hef ég aldrei …
„Þrátt fyrir allt sem hefur á gengið hef ég aldrei misst trúna.“ Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Lífið er gott og ég meina það“

Aðspurð segist Sunna Dóra þakklát fyrir að vera á lífi. „Ég er mjög lánsöm. Lífið er gott og ég meina það. Ég er hamingjusöm og guðslifandi fegin. Ég hef verið í meðferð hjá þunglyndis- og kvíðateymi Landspítalans síðustu mánuði og fengið mikla, góða og þarfa hjálp.“

Sunna Dóra sneri aftur til vinnu þann 1. júní síðastliðinn. „Ég hlakka mjög mikið til. Ég sagði stöðu minni við Digranes- og Hjallakirkju lausri nú í mars og fer í ný og spennandi verkefni. Ég mun halda áfram að starfa sem prestur, það er mín köllun.

Þrátt fyrir allt sem hefur á gengið hef ég aldrei misst trúna. Guð veldur ekki en verkar til góðs og ég veit að guð hefur aldrei yfirgefið mig. Ég leitaði mikið í trúna á þessum erfiðu tímum og trúi því bjargfast að yfir mér sé vakað.“

Ef þú upplifir vanlíðan eða sjálfsvíghugsanir eða hefur áhyggjur af einhverjum í kringum þig getur þú leitað til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 (opið allan sólarhringinn), Píeta-samtakanna í síma 552 2218 eða bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál