„Mamma fór inn á geðdeild um leið og ég fæddist“

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna eru stjórnendur hlaðvarpsins, Í …
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna eru stjórnendur hlaðvarpsins, Í alvöru talað.

Vinkonurnar Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna eru umsjónarmenn hlaðvarpsins Í alvöru talað. Gulla er 44 ára förðunarfræðingur, áhugaleikari og tískuáhugakona mikil og starfar sem verslunarstjóri í Collections á Hafnartorgi. Lydía er 41 árs sálfræðingur, jógakennari og söngfugl en starfar sem sálfræðingur á Samkennd Heilsusetri og er með námskeið sem heitir Gott Jafnvægi, sérstaklega sniðið að fólki sem er að vinna sig úr kulnun (e. burnout) en er líka fyrir fólk sem vinnur að því að draga úr streitu og koma betra jafnvægi á líf sitt.

Þær fóru blint í sjóinn með hlaðvarpið og veltu fyrir sér hvort einhver hefði áhuga á að hlusta á tvær konur tala um kulnun, áföll, erfiðar uppeldisaðstæður, geðsjúkdóma, útlit, húðumhirðu, streitu, sjálfshjálp og daglegt strit? Svarið er já því hlaðvarpið hefur strax fengið góð viðbrögð. 

Í fyrsta þættinum fjalla þær stöllur um uppvaxtarár annars þáttastjórnandans, Gullu, sem átti síður en svo hefðbundin uppvaxtarár sem þó hafa gert hana að þeirri manneskju sem hún er í dag. Gulla vill deila reynslu sinni af skrautlegu uppeldi og áföllum til þess að geta verið öðrum hvatning til að leita sér hjálpar, vinna í eigin erfiðleikum, sýna sér sjálfsmildi og lifa fallegu og innihaldsríku lífi þar sem áföllin eru styrkur en ekki veikleiki.

„Ég hef verið í rosalega mikilli sjálfsvinnu, búin að vera að gera upp alls konar og vinna í sjálfri mér. Í því ferli hefur hjálpað mér svo mikið að heyra sögur annarra, hlusta á það sem aðrir hafa að segja og það sem aðrir hafa gengið í gegnum. Ég hlusta á ævisögur og mikið af hlaðvörpum. Sagan er svo sterkur miðill og við eigum öll einstaka og merkilega sögu. Þær eru allar einstakar en líka allar eins,“ segir Gulla sem ólst upp í Árbænum frá 5 ára aldri. 

Vill ekki skoða gögn barnaverndar

Gulla fæddist 3 mánuðum fyrir tímann og því má segja að lífsbarátta hennar hafi hafist snemma því þessa fyrstu mánuði barðist hún fyrir lífi sínu.

„Á þessum tíma eru foreldrar mínir ekki saman og eru í forræðisdeilu. Það er rosalega margt í minni sögu sem ég veit ekki alveg og margt sem ég mun aldrei fá að vita. Ég hef ekki skoðað gögn um mig hjá Barnavernd og á eftir að ákveða hvort ég mun einhvern tíma gera það,“ segir hún.

Á þessum tíma var móðir hennar mjög veik af geðhvarfasýki og faðir hennar af alkóhólisma. Þessa fyrstu mánuði var hún án foreldra sinna á vökudeildinni. 

„Mamma fór inn á geðdeild um leið og ég fæddist. Þetta var helvíti brött brekka fyrir mig til að byrja lífið. Þegar ég mátti útskrifast fór ég beint inn á barnaheimili því foreldrar voru í forræðisdeilu. Þar er ég til rúmlega eins árs. Ég fæ illt í hjartað að hugsa um þetta og hvað ef þetta væri barnið mitt. Ég var bara nafnlaus lilla á barnaheimili. Fékk ekki nafn fyrr en rúmlega eins árs. En við verðum að muna að þarna eru ofboðslega veikir einstaklingar á ferð,“ segir Gulla. 

Faðirinn fékk forræðið

Faðir Gullu fékk forræði yfir henni og þau bjuggu saman í Árbænum öll hennar æskuár. Hún segir að það hafi verið erfitt að búa með pabba sínum þar sem hann var veikur af alkahólisma. Móðir hennar hitti hana ekki oft en gaf Gullu mjög skýrar leiðbeiningar um að enginn mætti vita að faðir hennar væri alkóhólisti. Hún vildi ekki að Gulla yrði tekin frá honum og sett í fóstur annað.

„Mamma var með möntru. Hún sagði: „þú mátt ekki segja neinum frá því þegar pabbi þinn dettur í það. Þú mátt ekki segja neinum frá því að pabbi þinn drekki vín. Þú mátt ekki tala um að þú sért svöng. Þú verður alltaf að vera hrein, líta vel út og vera í hreinum fötum. Það skiptir engu máli hvað þetta er erfitt. Það er verra að þurfa að fara á fósturheimili“.“

Gulla segir frá því að hún hafi vaknað um miðja nótt og áttað sig á að því að pabbi hennar var ekki heima. Það gerðist ítrekað í gegnum æskuna. Þá hafði pabbi hennar dottið í það.

„Ég man að ég grét þangað til ég gat ekki staðið lengur, en svo vaknaði ég daginn eftir og þá var hann kominn heim. Þetta verður þemað í minni sögu, ég er ein og eftirlitslaus.“

Eftir að Gulla hafði lært á síma gat hún hringt í mömmu sína sem gat verið til staðar fyrir hana í þessum aðstæðum.

„Þá reddaði mamma mér þó hún hafi ekki alltaf verið í ástandi til þess.“

Gulla var mjög mikið með mömmu sinni á geðdeild. Heimsótti hana oft og dvaldi heilu dagana hjá henni. Það þótti hjálplegt fyrir móður hennar.

„Mér var bara skutlað á morgnana og var þarna bara með henni og öllum hinum á deildinni. Þetta voru vinir mínir og ég vissi hvað allir hétu. Svo sátum við öll saman og höfðum það næs inni í reykherbergi. Ég fékk að sjá móður mína í hrikalegum aðstæðum og útgáfum í sínum veikindum,“  segir hún.

Það var talið gott fyrir móður Gullu að hafa hana hjá sér en það er spurning hvort einhver hafi verið að hugsa hvað væri gott fyrir Gullu.

„Ég sé það ekki þannig að einhver hafi verið að fórna mér fyrir hana, en þetta voru auðvitað ekki góðar aðstæður fyrir barn að vera í. Starfsfólkið var eins og frænkur mínar og vöruðu mig við að ég ætti ekki að tala við ákveðnar manneskjur þann daginn því þær væru ekki í góðu ástandi í dag. Þetta er náttúrulega alveg grillað ef við pælum í því.”

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál