Hvað er til ráða ef barnabarnið fer í taugarnar á þér?

Amma hefur áhyggjur af einu barnabarninu sínu því það fer …
Amma hefur áhyggjur af einu barnabarninu sínu því það fer í taugarnar á henni. Hvað er til ráða? Annie Spratt/Unsplash

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá ömmu sem veit ekki alveg í hvorn fótinn hún á að stíga. 

Sæl.

Ég á nokkur barnabörn og þykir vænt um þau nema eitt. Þetta eina barn, sem er 10 ára fer svo mikið í taugarnar á mér. Hann er frekur, veit allt og kann allt, ber litla virðingu fyrir öðru fólki og ég á í miklum vandræðum með að þola barnið. Það er hellings klapplið í kringum hann svo hann fær mikla athygli og hrós en ég er í vandræðum með mig. Hvað á amma að gera? 

Kveðja,

amma

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.

Sæl amma.

Mikið ertu rík að eiga öll þessi barnabörn og ég get trúað því að þau séu öll jafn ólík og þau eru mörg. Ég myndi ráðleggja þér að búa til samverustund með honum einum, en samverustundir með börnum er góð leið til þess að tengjast barninu betur, draga fram jákvætt viðmót hjá barninu og auka líkur á æskilegri hegðun. Þar myndu þið fá tækifæri til þess að hafa samskipti ykkar á milli á jákvæðum nótum og hann fengi þína athygli óskipta.

Sum börn sýna óæskilega hegðun eins og stjórnsemi, frekju og yfirgang í þeim tilgangi að fá athygli frá öðrum. Í samverustundinni er mikilvægt að gera eitthvað með honum sem hann hefur áhuga á og finnst eftirsóknarvert að gera eins og til dæmis að baka, fara í göngutúr, í sund eða spila saman. Bara eitthvað sem þér dettur í hug að gera með honum. Eitthvað sem er gefandi og veitir ykkur báðum ánægju og gleði.

Ef samverustundin gengur illa, hann sýnir yfirgang, stjórnsemi eða óæskilega hegðun þá er mikilvægt að stöðva samverustundina en reyna aftur seinna. Þá getur verið gott fyrir þig að skrifa niður jákvæða eiginleika hans, reyna að einblína á styrkleika frekar en að einblína á það sem fer í taugarnar á þér í hans fari. Það gefur þér lítið, dregur einungis orku frá þér og bitnar ef til vill á ykkar samskiptum og tengingu ykkar á milli.

Mikilvægt að hrósa

Hrós er mikilvægt í þeim tilgangi að festa æskilega hegðun í sessi. Oft er það því miður þannig að ef börn eru gjörn á að sýna óæskilega hegðun þá vekur það oft meiri athygli þeirra sem umgangast barnið en þegar barnið sýnir jákvæða og æskilega hegðun.

Þess vegna hvet ég þig til þess að vera dugleg að hrósa honum þegar hann sýnir jákvæða og æskilega hegðun og þá hegðun sem þú vilt að hann sýni aftur. Þá er mikilvægt að nota lýsandi hrós, svo hann viti hvað sé verið að hrósa honum fyrir. Prófaðu að eyða púðri í hrósið og ég get lofað þér því að ef þú notar það markvisst þá mun smám saman draga úr óæskilegri hegðun hjá honum og jákvæð hegðun fer að verða meira sýnilegri.

Öll börn þurfa á því sama að halda til að ná að blómstra og dafna sem best, en það er öryggi, hlýja, jákvætt viðmót og jákvæð athygli.

Gangi þér sem allra best amma.

Bestu kveðjur,

Tinna Rut sálfræðingur. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál