Framhjáhöld þrífast í starfsumhverfinu

Björg Vigfúsdóttir, fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá Sálfræðistofunni á Höfðabakka, hefur um árabil aðstoðað íslensk pör við að bæta samskipti, endurheimta traust, leysa úr ágreiningi og takast á við misstórar áskoranir og hindranir sem búa í hversdagsleika samferðafólks í lífinu.

Björg segir framhjáhöld býsna algengt vandamál á meðal íslenskra para. Við það styðji töluleg gögn sem sálfræðingar og meðferðarfræðingar notast við til að greina tíðni og algengi vandamála skjólstæðinga sinna.

„Þetta eru bara svakalegar tölur en það er náttúrulega erfitt að rannsaka framhjáhöldin,“ segir Björg. 

Mikið um þetta í starfsumhverfinu

„Það eru ekkert allir sem eru til í að fara inn í rannsókn og segja „já ég hef gert þetta“ og hjá sumum er það feimnismál og svo framvegis,“ lýsir hún og segist hafa orðið vör við að algengt sé að framhjáhöld eigi stað í starfsumhverfi fólks. 

„Ég er alla vega að upplifa það að það er mikið um þetta og það sem ég er að sjá líka er að þetta er svolítið í starfsumhverfinu. Þar sem fólk er í raun og veru að tengjast einhverju sameiginlegu verkefni og þá kemur eitthvað samtal og samtalið þróast út í eitthvað annað.“

Vont ef haldið er áfram á sama vinnustað

Björg segir framhjáhöld sem eiga sér stað inni á vinnustað oft geta verið flókin og erfið viðureignar. Sér í lagi þegar sá sem heldur framhjá heldur áfram að starfa á vinnustaðnum þar sem svikin áttu sér stað. Þá sé mikilvægt að báðir aðilar hafi sterkan vilja til að leggja upp í þá vegferð að bjarga sambandinu og skuldbindast því af heilum hug.  

„Það er oft erfiðast út af því að ef viðkomandi heldur svo áfram að vinna á vinnustaðnum þá er það mjög flókið ferli fyrir hina makana. Þannig ég er að sjá þetta svolítið og það er svolítið mikið um þetta en það er gott fyrir fólk að vita að það er hægt að vinna úr slíku,“ segir Björg sem býr yfir ýmsum bjargráðum fyrir pör sem komin eru á ystu nöf með sambandið sitt.

„Það þarf auðvitað að vilja að fara inn í vinnuna og tala um hlutina.“  

Ekki óyfirstíganlegt þrátt fyrir sársaukann

Að sögn Bjargar fylgir því mikill sársauki að upplifa framhjáhald. Ekki er óalgengt að sterk áfallastreituviðbrögð geri vart við sig þegar upp kemur um svik sem geta haft skaðleg áhrif á andlega heilsu. Mikilvægt sé að vinna úr slíku á réttan hátt með hjálp fagaðila.

„Þetta er áfall og það þarf að vinna sig út úr því. Að mínu mati eru þetta algerar hetjur sem koma til mín og vilja vinna úr þessu. Ef báðir vilja fara í gegnum þetta, fara inn í fyrirgefninguna og allt þetta, þá er maður oft að sjá dýpri sambönd og sterkari sambönd,“ segir Björg og leggur áherslu á að það sé ekki óyfirstíganlegt að fyrirgefa framhjáhald og að í því sé engin skömm fólgin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál