„Ég var heimilislaus í langan tíma með börnin mín“

Sigrún er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.
Sigrún er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.

Fjögurra barna móðir utan að landi sem ólst upp við alkóhólisma og fátækt er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman þessa vikuna. Hún kemur fram undir dulnefni til að vernda börnin sín. Hér er hún kölluð Sigrún. Sjálf hefur hún glímt við fíkn og bjó um tíma á götunni með börnin sín. 

„Ég upplifði alltaf að flaskan væri mikilvægari en ég og lærði snemma að vera meðvirk. Ég er samt mjög heppin með foreldra, þeirra reynsla gerði það að verkum að þau kunnu ekki betur og í raun gerðu þau betur en þau gátu,“ segir Sigrún. 

Sigrún var vinsæl, átti mikið af vinum og gekk vel í skólanum. Hún var líka með mikið sjálfstraust. 

„Ég man þegar mamma vinkonu minnar spurði okkur hvað við ætluðum að verða þegar við yrðum stórar. Vinkonur mínar voru með sín svör á hreinu en eina svarið mitt var að ég ætlaði að verða mamma.“

Sigrún flosnaði upp úr framhaldsskóla vegna fjárhagsvanda og fór að vinna í fiski. Þar kynntist hún fyrri barnsföður sínum. Þau reyndu í nokkur ár að eignast barn en náðu svo að eignast tvö börn saman en leiðir þeirra skildu skildi. 

„Ég fór í Keili og flutti í Keflavík. Þar kynntist ég manni, seinni barnsföður mínum og við eignuðumst tvo stráka. Ég var orðin um 140 kíló og komst inn á Reykjalund og fór í hjáveituaðgerð þegar yngsti sonur minn var innan við árs gamall,“ segir Sigrún. 

Byrjaði að drekka í sveitinni

Þegar Sigrún var í fæðingarorlofi fór hún í sveit til systur sinnar og gerðist ráðskona í réttum.

„Það var alltaf bjór í ísskápnum og áður en ég vissi af var ég farin að drekka bjór á hverjum degi. Mér leið miklu betur og hélt að ég væri miklu betri þannig, hélt ég væri æðisleg húsmóðir.“

Þegar Sigrún og sonur hennar komu heim aftur hélt drykkjan áfram og eftir eitt ár af dagdrykkju fór hún inn á Vog.

„Mér finnst Vogur og meðferð SÁÁ hræðilegur staður. Þar er talað niður til fólks og ógnarstjórn. Þar er ekki verið að vinna með manneskjuna,“ segir hún og bætir við:

„Inni á Vogi var einn maður sem náði að róa mig mikið. Hann var með far um hálsinn eftir að hafa reynt að hengja sig. Ég var svo í grúbbu og fékk rosalega vonda tilfinningu, rauk út og fór að herberginu hans. Hann var þá búinn að binda bandið af sloppnum um hálsinn, á fjórum fótum, og var dáinn,“ segir hún.

Sigrún reyndi að fara aftur inn á Vog og fór á Vík en eins og hún segir þá hefur hún margt út á SÁÁ að setja.

Geðdeild hefur tekið við Sigrúnu og þar segir hún viðmótið allt annað.

„Á geðdeild er unnið með fólk og komið fram við mann eins og manneskju.“

Heimilislaus í langan tíma

Með tímanum jókst neyslan og breyttist á þann hátt að Sigrún varð ófær um að hugsa um börnin sín, halda heimili og borga leigu. Hún endaði á götunni með tvö eldri börnin sín, yngri börnin áttu alltaf öruggt skjól hjá föður sínum. 

„Ég var heimilislaus í langan tíma með börnin mín. Ég vissi oft ekki hvar ég myndi leggja börnin mín niður á kvöldin. Þau spurðu stundum hvert þau ættu að koma eftir skóla og ég gat ekki svarað því.“

Sigrún kynntist manni og varð yfir sig ástfangin. Ástin varð til þess að hún fann listakonuna sem bjó alltaf innra með henni en hafði verið í dvala í mörg ár.

„Ég varð svo ástfangin en þurfti ekki að eiga hann. Við tók langur tími af djammi og ég setti allt of mikla ábyrgð á dóttur mína,“ segir Sigrún. 

Það sem fyllti mælinn og varð til þess að hún vildi stoppa var þegar yngri synir hennar áttu að vera hjá henni og hún gat ekki haldið sér edrú. Hún þurfti að játa sig sigraða. Það tók þó tíma og áföll þar til hún náði inn í meðferð á Hlaðgerðarkoti þar sem hún fann æðri mátt. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál