Hætti að stunda kynlíf í eitt ár

Stundum getur verið gott að taka sér hlé frá kynlífi …
Stundum getur verið gott að taka sér hlé frá kynlífi með öðru fólki. Ljósmynd/Colourbox

Maria Hassan er 25 ára gömul kona frá Belfast sem ákvað að hætta að stunda kynlíf í eitt ár til þess að vinna í sjálfri sér. Hún komst að ýmsu fyrir vikið.

„Það var aldrei á planinu að hætta að stunda kynlíf. Ég hef alltaf haft gaman af kynlífi og stundaði það reglulega með hinum og þessum. Allir í vinahópnum elskuðu að hlusta á mig segja stefnumótasögur, margar hverjar mjög skrautlegar. Eins og til dæmis þegar ég var að hitta gaur sem bjó í herbergi uppi í risi og aðeins var hægt að komast þangað með því að klífa stiga úr svefnherbergi móður hans,“ segir Hassan í pistli sínum í Stylist Magazine.

„Svo kom heimsfaraldurinn og maður mátti ekki lengur hitta fólk. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég myndi lifa það af. En þessi einangrun gaf mér tíma til þess að hugsa minn gang. Ég áttaði mig á því að ég hafði verið andlega fjarverandi í öllum þessum hittingum mínum. Ég var bara að framkvæma og þóknast frekar en að upplifa og njóta.“

„Ég flýtti mér um of og hugsaði ekki um afleiðingarnar. Var þetta einhver sem hægt væri að treysta? Var ég alltaf að fara að rekast á hann? Ég vaknaði oftar en ekki í kvíðakasti yfir því sem ég hafði gert og fólk missti áhugann á mér um leið og við stunduðum kynlíf. Þetta var orðið næstum vélrænt.“

„Þetta hafði líka áhrif á eigið virði. Mér fannst ég aðeins skipta máli ef fólk vildi stunda kynlíf með mér.“

„Þrátt fyrir þessar hugleiðingar langaði mig að sofa hjá um leið og aðstæður leyfðu. Ég fór að hitta mann en áttaði mig á að eitthvað þyrfti að breytast inni í mér. Ég ákvað því að taka hlé frá kynlífi og komast að því hvað ég vildi fá út úr lífinu.“ 

„Nú er komið ár og ég hef ekki hvikað frá þessari afstöðu. Rannsóknir sína að ég er ekki ein með skírlífsheit. Árið 2024 sögðust 16% kvenna vera einhleypar að eigin vali og stunduðu ekki kynlíf. Sama má segja um stjörnurnar en Lenny Kravitz sagðist á dögunum hafa verið skírlífur síðustu níu árin.“

„Fyrst skildu vinir mínir þetta ekki en sáu svo að sjálfsöryggið mitt varð miklu betra eftir að ég tók þessa ákvörðun. Svo er þetta minni pressa. Ég þarf ekki að pæla eins mikið í útliti mínu því ég er ekki að reyna við aðra menn. Mér er sama hvað þeim finnst um mig. Þá hef ég sett meiri orku í áhugamál mín og nýt þess að vera ein með sjálfri mér.“

„Það er algengur misskilningur um skírlífi. Ég er enn kynvera og í raun er kynlífið mitt mun betra en það var. En það er bara með sjálfri mér. Ég þekki líkama minn betur.“

„Ég ætla ekki að vera skírlíf að eilífu. Mig langar til þess að kynnast einhverjum sem ég er örugg með. En ég mun nálgast það samband sem mun meðvitaðri manneskja. Stundum sakna ég þess að eiga ekki maka. Að deila fullnægingu með einhverjum er eitthvað sem er í sjálfu sér sérstök upplifun. Að finna nánd í sambandi er dýrmætt. Ég hef hins vegar lagt meiri áherslu á vinina og knúsa þá reglulega. Við þurfum öll líkamlega snertingu og nánd og það er hægt að sækja það með ýmsum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda