Má áttræð móðir „lána“ tveimur dætrum peninga en ekki hinum?

Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Berg­lind Svavars­dótt­ir lögmaður á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem spyr um fjár­muni tengda­móður sinn­ar en hann hef­ur haft um­sjón með skattafram­tali henn­ar og sér að hún hef­ur verið að láta tvö af fjór­um börn­um hafa tölu­verða pen­inga. 

Sæl. 

Síðustu ár hef ég aðstoðað tengda­móður mína með skatt­fram­talið. Nokkuð ein­falt hjá henni; Áttræð ekkja býr í eig­in hús­næði, á gaml­an sum­ar­bú­stað, allt skuld­laust og ágæt­an vara­sjóð.

Núna tók ég eft­ir að hún hef­ur verið að „lána“ tveim­ur dætr­um sín­um tölu­verðar fjár­hæðir. Við viss­um af sum­um lán­un­um en þegar allt var tekið sam­an þá hafði hún „lánað“ yngsta barn­inu sínu við kaup á fyrstu íbúð. 

Hin dótt­ir­in hef­ur fengið lánað fyr­ir kaup­um á bíl, út­borg­un í sum­ar­bú­stað, ut­an­lands­ferðir og fleira smærra. Með henn­ar leyfi tók ég þetta sam­an og upp­reiknaði á verðgildi dags­ins í dag.  Hún hef­ur „lánað“ þeim alls 9 millj­ón­ir.

Eng­in und­ir­rituð sam­komu­lög eru um lán­in né talað um hvenær eigi að borga til baka. Okk­ur lang­ar til að ganga ein­hvern veg­inn frá þessu því við ótt­umst að e-ð ósætti gæti orðið seinna ef gera á skuld­ir upp eða sú gamla fell­ur frá. Þær sem hafa fengið lánað fara und­an í flæm­ingi ef ræða á mál­in og tengda­mamma vill ekki fá þær á móti sér. Öll fjög­ur systkin­in sinna móður sinni nokkuð jafnt og fjár­hags­leg staða er svipuð þannig að eng­in er í slæm­um mál­um og þyrfti í raun að vera fá þessi „lán“.

Hvernig er best að ganga frá slík­um lán­um og við hvern get­um ráðfært okk­ur við áður en við eig­um sam­talið svo ósætti komi ekki upp?

Kveðja, 

BH

Góðan dag.

For­eldr­ar, sem fjár­ráða ein­stak­ling­ar, hafa al­mennt fullt for­ræði á eign­um sín­um og fjár­mun­um, geta ráðstafað þeim að vild og án af­skipta annarra, þ.m.t. barna sinna.

Tengda­móður þinni er þannig í sjálfs­vald sett hvernig hún ver sín­um fjár­mun­um, hvort sem um lán eða gjöf er að ræða og þarf ekki samþykki barna sinna. Af­hend­ing verðmæta til barna sæt­ir þó ýms­um skatta­leg­um tak­mörk­un­um en sam­kvæmt tekju­skatts­lög­um nr. 90/​2003 eru gjaf­ir al­mennt skattlagðar sem tekj­ur sbr. 66. gr. þeirra  nema um fyr­ir­fram­greidd­an arf sé að ræða en þá þarf að greiða 10% erfðafjárskatt.

Reynd­ar kem­ur ekki fram í fyr­ir­spurn þinni hvort tengda­móðir þín sitji í óskiptu búi en hið sama gild­ir að meg­in­stefnu til í slík­um til­vik­um. Eft­ir­lif­andi maki er sit­ur í óskiptu búi hef­ur einn ráðstöf­un­ar­rétt yfir öll­um eign­um bús­ins. Ef eft­ir­lif­andi maki væri hins veg­ar að mis­fara með hags­muni hins óskipta bús (þ.e hluta hins skamm­líf­ari) þá heim­ila erfðalög nr. 8/​1962 erf­ingj­um til­tek­in úrræði svo sem rift­un­ar- og end­ur­gjalds­kröf­ur sbr. 15. og 17. gr. þeirra.  

Kveðja, 

Berlind Svavars­dótt­ir lögmaður. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Berg­lindi og öðrum lög­mönn­um á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda