Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem spyr um fjármuni tengdamóður sinnar en hann hefur haft umsjón með skattaframtali hennar og sér að hún hefur verið að láta tvö af fjórum börnum hafa töluverða peninga.
Sæl.
Síðustu ár hef ég aðstoðað tengdamóður mína með skattframtalið. Nokkuð einfalt hjá henni; Áttræð ekkja býr í eigin húsnæði, á gamlan sumarbústað, allt skuldlaust og ágætan varasjóð.
Núna tók ég eftir að hún hefur verið að „lána“ tveimur dætrum sínum töluverðar fjárhæðir. Við vissum af sumum lánunum en þegar allt var tekið saman þá hafði hún „lánað“ yngsta barninu sínu við kaup á fyrstu íbúð.
Hin dóttirin hefur fengið lánað fyrir kaupum á bíl, útborgun í sumarbústað, utanlandsferðir og fleira smærra. Með hennar leyfi tók ég þetta saman og uppreiknaði á verðgildi dagsins í dag. Hún hefur „lánað“ þeim alls 9 milljónir.
Engin undirrituð samkomulög eru um lánin né talað um hvenær eigi að borga til baka. Okkur langar til að ganga einhvern veginn frá þessu því við óttumst að e-ð ósætti gæti orðið seinna ef gera á skuldir upp eða sú gamla fellur frá. Þær sem hafa fengið lánað fara undan í flæmingi ef ræða á málin og tengdamamma vill ekki fá þær á móti sér. Öll fjögur systkinin sinna móður sinni nokkuð jafnt og fjárhagsleg staða er svipuð þannig að engin er í slæmum málum og þyrfti í raun að vera fá þessi „lán“.
Hvernig er best að ganga frá slíkum lánum og við hvern getum ráðfært okkur við áður en við eigum samtalið svo ósætti komi ekki upp?
Kveðja,
BH
Góðan dag.
Foreldrar, sem fjárráða einstaklingar, hafa almennt fullt forræði á eignum sínum og fjármunum, geta ráðstafað þeim að vild og án afskipta annarra, þ.m.t. barna sinna.
Tengdamóður þinni er þannig í sjálfsvald sett hvernig hún ver sínum fjármunum, hvort sem um lán eða gjöf er að ræða og þarf ekki samþykki barna sinna. Afhending verðmæta til barna sætir þó ýmsum skattalegum takmörkunum en samkvæmt tekjuskattslögum nr. 90/2003 eru gjafir almennt skattlagðar sem tekjur sbr. 66. gr. þeirra nema um fyrirframgreiddan arf sé að ræða en þá þarf að greiða 10% erfðafjárskatt.
Reyndar kemur ekki fram í fyrirspurn þinni hvort tengdamóðir þín sitji í óskiptu búi en hið sama gildir að meginstefnu til í slíkum tilvikum. Eftirlifandi maki er situr í óskiptu búi hefur einn ráðstöfunarrétt yfir öllum eignum búsins. Ef eftirlifandi maki væri hins vegar að misfara með hagsmuni hins óskipta bús (þ.e hluta hins skammlífari) þá heimila erfðalög nr. 8/1962 erfingjum tiltekin úrræði svo sem riftunar- og endurgjaldskröfur sbr. 15. og 17. gr. þeirra.
Kveðja,
Berlind Svavarsdóttir lögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Berglindi og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.