Fjóla Rut Rúnarsdóttir, listakona og nuddari, opnar myndlistarsýninguna Ásýnd á föstudag. Um er að ræða fyrstu einkasýningu Fjólu Rutar sem hefur fengist við margvíslega listsköpun síðustu ár. Verk hennar varpa fram svipmyndum af eigin hugleiðingum þar sem rýnt er í vitund, sjálfsmynd og lífsreynslu.
Fjóla Rut hefur um árabil verið einn vinsælasti nuddari landsins og er að margra mati með sannkallaðar töfrahendur. Hún hefur hjálpað mörgum í gegnum árin og fann óvænt ástina í örmum eins nuddþega síns. Fjóla Rut játaðist sínum heittelskaða, Jóni Óskari Carlssyni, á síðasta ári eftir fallegt og ástríkt tólf ára samband.
„Saga okkar Jóns er einstök og falleg. Hann var búinn að vera hjá mér á bekknum sem nuddþegi í fleiri ár. Ég þekkti hann en hafði aldrei hugsað um hann sem neitt annað en nuddþega,“ útskýrir Fjóla Rut.
Hvernig hófst samband ykkar?
„Sko, einn daginn var vinur Jóns hjá mér í nuddi og sagði mér þau miklu sorgartíðindi að kona Jóns hafi látist þá um nóttina. Ég tók andköf aftur á bak og vissi ómögulega hvaðan þessi tilfinning kom. Ég bara vissi innst inni að ég yrði að tala við Jón, kynnast honum betur og deila með honum þessari tilfinningu.
Þetta var snúinn en skemmtilegur tími, uppfullur af alls konar misskilningi og mjög sterkum tilfinningum frá minni hálfu. Það leið alls ekki langur tími frá þessu áhrifamikla augnabliki, þar sem mér leið eins og kampavínstappa væri skotið úr brjóstholi mínu, þar til við tengdum saman, þarna voru æðri öfl að verki. Hann er betri helmingurinn minn og sálufélagi. Við erum eins og eitt.“
Fjóla Rut og Jón giftu sig við lágstemmda athöfn í Kópavogskirkju á síðasta ári.
Jón er listrænn líkt og spúsa sín og hefur ást þeirra opnað nýjar víddir í listsköpun þeirra beggja. Fjóla Rut segist hafa kafað meira inn á við síðustu ár og er það áberandi í nýjustu verkum hennar.
„Ég hef leitað mikið inn á við síðustu ár, sérstaklega vegna mikilla breytinga í alheimsorkunni sem er að færa sig á milli vídda. Segja má að jörðin okkar og orka sé að koma inn í hjartaorku og ég finn mikið fyrir því eins og fleira fólk. Ég hef þar af leiðandi verið í innri tiltekt og sjálfsvinnu og myndirnar mínar eru því mikið uppgjör og saga, mörg andlit og ólíkar birtingarmyndir.”
Hvernig hefur maki þinn ýtt undir sköpunarkraftinn?
„Elsku Jón hefur verið mér einstakur stuðningur, hvatning og skynsemi. Hann kemur að mörgum verka minna sem ráðgjafi og eru það bestu stundir okkar saman, þegar við erum að vinna í listinni, enda mikil ástríða hjá okkur báðum.”
Fjóla Rut fann innra með sér hvöt og sterka löngun til þess að sýna verk sín og ákvað með litlum fyrirvara að slá upp sýningu.
Af hverju ákvaðstu að halda sýningu?
„Í vor þegar ég var eins og hamhleypa á vinnustofunni fann ég og heyrði inni í mér að ég þyrfti að sýna myndirnar mínar. Þær eru orka og þessi orka þarf að komast út og áfram til fólks. Hugmyndina bar ég undir góða vinkonu sem leist strax vel á þetta. Sú kynnti mig fyrir Hönnu Styrmisdóttur, sem er stóra blessunin mín í öllu þessu ferli og sýningarstjóri. Hún hefur hjálpað mér að koma öllu heim og saman og náð að skilja mig og sérvisku mína.”
Sýning Fjólu Rutar, Ásýnd, stendur yfir frá 30. ágúst til 15. september og er haldin 2. hæð við Vatnagarða 10.