Má stjúpa selja fyrirtæki látins föður?

Helga Vala Helgadóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda.
Helga Vala Helgadóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda. mbl.is/Eyþór Árnason

Helga Vala Helga­dótt­ir lögmaður á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem spyr út í dán­ar­bú föður síns og hvort seinni kon­an megi sitja í óskiptu búi. 

Hæ Helga Vala!

Faðir minn dó fyr­ir nokkr­um árum. Hann átti 6 börn með fyrri kon­unni og tvö með þeirri seinni. Er það sjálf­krafa að hún sitji eft­ir í óskiptu búi? Má hún selja fyr­ir­tæki sem þau áttu án þess að ráðfæra sig við öll börn­in átta? Hafa börn fyrri kon­unn­ar eng­an rétt? Er ekk­ert í lög­um um skrán­ingu á eign­um hins látna við lát hans? Inni­stæður í banka, hluta­bréf, fast­eign­ir eða annað sem hann átti?

Kveðja, 

GH

Góðan dag

Hvað varðar leyfi til setu í óskiptu búi þá skipt­ir mestu hvort þau hjón hafi gert með sér erfðaskrá þar sem mælt hafi verið fyr­ir um að hið lang­líf­ara mætti sitja áfram í óskiptu búi. Með öðrum orðum þá ger­ist slíkt ekki sjálf­krafa, svo þeirri spurn­ingu sé svarað en erfðaskrá þess efn­is gild­ir. Þá er það sýslumaður sem veit­ir leyfi til setu í óskiptu búi.

Þegar and­lát er til­kynnt og sýslumaður veit­ir heim­ild til setu í óskiptu búi skal við um­sókn­ina skilað inn lista yfir eign­ir og skuld­ir bús­ins og eru þær þannig vand­lega skráðar. Skoðar sýslumaður hvort grund­völl­ur sé til setu í óskiptu búi og met­ur önn­ur skil­yrði, svo sem hvort eign­ir hrökkvi fyr­ir skuld­um og hvort hinn eft­ir­lif­andi maki sé lögráða og hafi ekki sjálf­ur verið tek­inn til gjaldþrota­skipta.

Sam­kvæmt 7. gr. erfðalaga á hið lang­líf­ara rétt á að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja nema erfðaskrá mæli fyr­ir um að búi skuli skipt við and­lát ann­ars þeirra.

Svo eru hér atriði sem skipta máli þegar um sam­sett­ar fjöl­skyld­ur er að ræða eins og al­gengt er og ekki hef­ur verið gerð erfðaskrá:

Til að hið lang­líf­ara megi sitja í óskiptu búi, með stúp­börn­um sín­um, þá þurfa börn­in eða aðrir niðjar að gefa heim­ild fyr­ir því. Sérregl­ur gilda um ófjár­ráða börn, en mér sýn­ist á spurn­ingu þinni að um sé að ræða upp­kom­in börn þeirra hjóna.

Sá sem sit­ur í óskiptu búi hef­ur eign­ar­ráð yfir fjár­mun­um bús­ins skv. 12. gr. erfðalaga. Hann ber ábyrgð á skuld­um hins látna og hef­ur sömu­leiðis heim­ild til að ráðstafa eign­um en get­ur einnig sjálf­ur kraf­ist skipta hvenær sem er.

Ef erf­ingi tel­ur að sá sem sitji í óskiptu búi rýri eign­ir bús­ins veru­lega eða að hætta sé á slíku þá get­ur erf­ingi sent sýslu­manni kröfu um að bú sé tekið til skipta. Erf­ing­inn þarf að færa skýra sönn­un fyr­ir slíku. Hafa ber í huga að hinn eft­ir­lif­andi má ráðstafa eign­um bús­ins og get­ur meira að segja ráðstafað sín­um hluta bús með sér­stakri erfðaskrá ef því er að skipta sem og ein­staka mun­um, en þó ekki rýra eign­ir hins óskipta bús þeirra hjóna svo veru­lega að sannað þyki að veru­lega gangi á erfðarétt ein­staka erf­ingja.

Svo spurn­ing­um þínum sé svarað þá má hið eft­ir­lif­andi kaupa og selja fyr­ir­tæki eða aðrar eign­ir og þarf ekki að bera slíkt und­ir erf­ingja, sbr. þó það sem að ofan grein­ir varðandi veru­lega rýrn­un bús­ins. Stjúp­börn hins eft­ir­lif­andi hafa þannig þann eina rétt að leita til sýslu­manns ef eign­ir eru að rýrna veru­lega.

Gangi ykk­ur vel

Helga Vala Helga­dótt­ir, lögmaður

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Helgu Völu og öðrum lög­mönn­um á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda