Helga Vala Helgadóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem spyr út í dánarbú föður síns og hvort seinni konan megi sitja í óskiptu búi.
Hæ Helga Vala!
Faðir minn dó fyrir nokkrum árum. Hann átti 6 börn með fyrri konunni og tvö með þeirri seinni. Er það sjálfkrafa að hún sitji eftir í óskiptu búi? Má hún selja fyrirtæki sem þau áttu án þess að ráðfæra sig við öll börnin átta? Hafa börn fyrri konunnar engan rétt? Er ekkert í lögum um skráningu á eignum hins látna við lát hans? Innistæður í banka, hlutabréf, fasteignir eða annað sem hann átti?
Kveðja,
GH
Góðan dag
Hvað varðar leyfi til setu í óskiptu búi þá skiptir mestu hvort þau hjón hafi gert með sér erfðaskrá þar sem mælt hafi verið fyrir um að hið langlífara mætti sitja áfram í óskiptu búi. Með öðrum orðum þá gerist slíkt ekki sjálfkrafa, svo þeirri spurningu sé svarað en erfðaskrá þess efnis gildir. Þá er það sýslumaður sem veitir leyfi til setu í óskiptu búi.
Þegar andlát er tilkynnt og sýslumaður veitir heimild til setu í óskiptu búi skal við umsóknina skilað inn lista yfir eignir og skuldir búsins og eru þær þannig vandlega skráðar. Skoðar sýslumaður hvort grundvöllur sé til setu í óskiptu búi og metur önnur skilyrði, svo sem hvort eignir hrökkvi fyrir skuldum og hvort hinn eftirlifandi maki sé lögráða og hafi ekki sjálfur verið tekinn til gjaldþrotaskipta.
Samkvæmt 7. gr. erfðalaga á hið langlífara rétt á að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja nema erfðaskrá mæli fyrir um að búi skuli skipt við andlát annars þeirra.
Svo eru hér atriði sem skipta máli þegar um samsettar fjölskyldur er að ræða eins og algengt er og ekki hefur verið gerð erfðaskrá:
Til að hið langlífara megi sitja í óskiptu búi, með stúpbörnum sínum, þá þurfa börnin eða aðrir niðjar að gefa heimild fyrir því. Sérreglur gilda um ófjárráða börn, en mér sýnist á spurningu þinni að um sé að ræða uppkomin börn þeirra hjóna.
Sá sem situr í óskiptu búi hefur eignarráð yfir fjármunum búsins skv. 12. gr. erfðalaga. Hann ber ábyrgð á skuldum hins látna og hefur sömuleiðis heimild til að ráðstafa eignum en getur einnig sjálfur krafist skipta hvenær sem er.
Ef erfingi telur að sá sem sitji í óskiptu búi rýri eignir búsins verulega eða að hætta sé á slíku þá getur erfingi sent sýslumanni kröfu um að bú sé tekið til skipta. Erfinginn þarf að færa skýra sönnun fyrir slíku. Hafa ber í huga að hinn eftirlifandi má ráðstafa eignum búsins og getur meira að segja ráðstafað sínum hluta bús með sérstakri erfðaskrá ef því er að skipta sem og einstaka munum, en þó ekki rýra eignir hins óskipta bús þeirra hjóna svo verulega að sannað þyki að verulega gangi á erfðarétt einstaka erfingja.
Svo spurningum þínum sé svarað þá má hið eftirlifandi kaupa og selja fyrirtæki eða aðrar eignir og þarf ekki að bera slíkt undir erfingja, sbr. þó það sem að ofan greinir varðandi verulega rýrnun búsins. Stjúpbörn hins eftirlifandi hafa þannig þann eina rétt að leita til sýslumanns ef eignir eru að rýrna verulega.
Gangi ykkur vel
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Helgu Völu og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.