„Við vissum frá upphafi að við ættum vel saman“

Jessý og Magnús eru glæsilegt par.
Jessý og Magnús eru glæsilegt par. Ljósmynd/Úr einkasafni

Jes­sý Jóns­dótt­ir véla­verk­fræðing­ur fann ást­ina á ís­lenska stefnu­móta­for­rit­inu Smitten snemma árs í fyrra. Unnusti henn­ar, Magnús Ólafs­son, einn af stofnmeðlim­um stefnu­móta­for­rits­ins, fór á skelj­arn­ar og bað Jes­sýj­ar á björt­um sum­ar­degi í Fær­eyj­um í lok júlí­mánaðar og það má því með sanni segja að ný­trú­lofaða parið sé gang­andi aug­lýs­ing fyr­ir já­kvæðan ár­ang­ur Smitten.

Var þetta ást við fyrstu sýn?

„Við viss­um frá upp­hafi að við ætt­um vel sam­an og hlut­irn­ir hafa gengið hratt og vel fyr­ir sig. Fyrsta stefnu­mótið var stutt. Við hitt­umst á kaffi­húsi í bæn­um og spjölluðum í um það bil 45 mín­út­ur áður en hann þurfti að rjúka af stað til að hjálpa ömmu sinni og afa, sem ég taldi að sjálf­sögðu vera tylli­á­stæðu, en svo kom annað á dag­inn. Magnús er bara ein­stak­lega hjálp­sam­ur maður. 

Annað stefnu­mótið okk­ar átti sér stað ríf­lega þrem­ur vik­um síðar og eft­ir það byrjuðum við að hitt­ast reglu­lega og ekki leið á löngu þar til hann flutti inn.“

Hvernig viss­ir þú að hann væri sá eini rétti?

„Ætli það hafi ekki verið þegar við vor­um að keyra til baka frá Hvamms­vík, en þar eydd­um við deg­in­um sam­an á öðru stefnu­mót­inu okk­ar. Við hlóg­um og töluðum um allt milli him­ins og jarðar. Þá rann það upp fyr­ir mér að þetta væri eitt­hvað sem ég gæti al­veg hugsað mér að gera til æviloka.“

Nýtrúlofaða parið er hamingjusamt.
Ný­trú­lofaða parið er ham­ingju­samt. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Hver er lyk­ill­inn að góðu sam­bandi (í ykk­ar til­felli að minnsta kosti)?

„Fyrst og fremst þá er það vin­skap­ur­inn. Ef maður ætl­ar að verja lung­an­um af deg­in­um með ein­hverj­um þá er al­gjör­lega nauðsyn­legt að geta haft gam­an sam­an og átt skemmti­leg­ar og gef­andi sam­ræður. Við spjöll­um nán­ast óhóf­lega mikið sam­an og ræðum mikið um hvert okk­ur lang­ar að stefna sam­an í líf­inu, hvað okk­ur lang­ar að sjá og upp­lifa.“

Hverj­ir finnst þér bestu kost­ir maka þíns?

„Magnús er svo mörg­um góðum kost­um gædd­ur. Hann er góðhjartaður, hjálp­sam­ur, úrræðagóður og ofboðslega mynd­ar­leg­ur (hlut­laust mat).“

Hver er róm­an­tíski aðil­inn í sam­band­inu?

„Magnús er marg­falt meiri Rómeó en ég. Til að mynda þegar ég kem heim eft­ir að hafa verið er­lend­is bíða mín oft­ar en ekki fal­leg blóm og upp­á­halds nammið mitt. Hann er líka dug­leg­ur að taka til í íbúðinni þegar ég er í burtu og hell­ir upp á kaffi lang­flesta morgna og fær­ir mér morg­un­boll­ann upp í rúm. Ég hef samt ort hring­hendu til hans.“

Hvað gerið þið þegar þið farið á stefnu­mót eða viljið gera vel við ykk­ur?

„Við erum al­gjör­ir sund­garp­ar og för­um mjög reglu­lega í sund, en við erum með mark­mið að væta okk­ur í öll­um laug­um á land­inu, það geng­ur mjög vel.

Magnús er líka mik­ill mat­ar­unn­andi og finnst gam­an að töfra fram góðan mat eða fara út að borða. Ég trúi því að það séu til tvær teg­und­ir af mann­eskj­um, þær sem borða til að lifa og þær sem lifa til að borða. Magnús lif­ir til að borða og ég borða til að halda í mér líftór­unni en við njót­um okk­ar ávallt yfir ljúf­fengri máltíð.“

Parið nýtur þess að eyða tíma saman.
Parið nýt­ur þess að eyða tíma sam­an. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Eru ein­hverj­ir hápunkt­ar?

„Við geng­um um fáséða staði á Fjalla­baki í sum­ar sem var dá­sam­leg lífs­reynsla en á sama tíma þraut­ar­aun í vos­búð og úr­helli. Við heim­sótt­um einnig Tæ­land í páskafrí­inu sem var hreint út sagt mögnuð upp­lif­un. 

En ætli það sé ekki hvers­dags­leik­inn sem eigi vinn­ing­inn, bara að vakna sam­an og brasa eitt­hvað skemmti­legt. Við erum al­gjör­ir braskóng­ar og kom­um okk­ur reglu­lega í alls kon­ar ógöng­ur en þá er mjög heppi­legt að hann er poll­ró­leg­ur og yf­ir­vegaður að eðlis­fari en ég er aðeins meiri stresspepp­ari. Við náum því sam­nýta krafta okk­ur og leysa úr hlut­un­um í sam­ein­ingu.“

Hvernig hef­ur sam­bandið þró­ast?

„Mjög vel! Við erum sí­fellt að læra meira inn á hvort annað og það er mjög gam­an að kynn­ast hon­um inn í kjöl­inn, en stund­um kem­ur það mér á óvart hvað hon­um finnst um vissa hluti. Það er áhuga­vert að þekkja ein­hvern svona vel, en samt ekki, því vissu­lega höf­um við bara þekkst í sautján mánuði – en svo ég leyfi mér að sletta: „When you know, you know.“

Segðu frá bón­orðinu?

„Mig hafði lengi langað að heim­sækja Fær­eyj­ar og fara á Ólafs­vöku og dansa orm­inn langa með frænd­um okk­ar þar. Sá draum­ur rætt­ist nú í sum­ar. Magnús var held­ur bet­ur til í að fara með mér og við keypt­um okk­ur far með Nor­rænu frá Seyðis­firði til Fær­eyja, þar sem við tjölduðum í rign­ingu og roki með vin­um okk­ar. 

Hamingjan ræður ríkjum.
Ham­ingj­an ræður ríkj­um. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Við átt­um dá­sam­leg­ar stund­ir í polla­göll­un­um í Fær­eyj­um en vor­um svo hepp­in að fá stak­an sól­skins­dag, sama dag og við átt­um að ná bátn­um aft­ur til Íslands. Við fór­um því í hóp­ferð á Kirkju­bæ, sem er einn sögu­fræg­asti staður Fær­eyja, og þar sem ég var sú eina á bíl þá ferjaði ég vini okk­ar þangað.

Við vor­um orðin held­ur tæp á tíma til að ná dall­in­um heim til Íslands þegar Magnús biður mig um að labba spöl­korn út á lít­inn tanga á Kirkju­bæ, bara við tvö.

Ég var ekki al­veg á þeim skón­um þar sem ég vildi drífa mig aft­ur í Þórs­höfn til að ná Nor­rænu og koma í veg fyr­ir að við enduðum sem strandaglóp­ar í Fær­eyj­um. Þrátt fyr­ir það þá tókst Magnúsi að sann­færa mig um að labba með hon­um. Ég var mjög upp­tek­in við að taka upp In­sta­gram-mynd­band af út­sýn­inu þegar ég fann hann tylla sér niður fyr­ir aft­an mig og hélt að hann væri að bjóða mér að setj­ast á hnéð á sér eft­ir þessa ör­stuttu göngu okk­ar. Ég hlammaði mér því niður og hélt áfram að taka upp mynd­bandið, en skömmu síðar ýtti hann í mig og bað mig um að snúa mér við. Þá var hann á skelj­un­um og með hringa til­búna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda