„Við vissum frá upphafi að við ættum vel saman“

Jessý og Magnús eru glæsilegt par.
Jessý og Magnús eru glæsilegt par. Ljósmynd/Úr einkasafni

Jessý Jónsdóttir vélaverkfræðingur fann ástina á íslenska stefnumótaforritinu Smitten snemma árs í fyrra. Unnusti hennar, Magnús Ólafsson, einn af stofnmeðlimum stefnumótaforritsins, fór á skeljarnar og bað Jessýjar á björtum sumardegi í Færeyjum í lok júlímánaðar og það má því með sanni segja að nýtrúlofaða parið sé gangandi auglýsing fyrir jákvæðan árangur Smitten.

Var þetta ást við fyrstu sýn?

„Við vissum frá upphafi að við ættum vel saman og hlutirnir hafa gengið hratt og vel fyrir sig. Fyrsta stefnumótið var stutt. Við hittumst á kaffihúsi í bænum og spjölluðum í um það bil 45 mínútur áður en hann þurfti að rjúka af stað til að hjálpa ömmu sinni og afa, sem ég taldi að sjálfsögðu vera tylliástæðu, en svo kom annað á daginn. Magnús er bara einstaklega hjálpsamur maður. 

Annað stefnumótið okkar átti sér stað ríflega þremur vikum síðar og eftir það byrjuðum við að hittast reglulega og ekki leið á löngu þar til hann flutti inn.“

Hvernig vissir þú að hann væri sá eini rétti?

„Ætli það hafi ekki verið þegar við vorum að keyra til baka frá Hvammsvík, en þar eyddum við deginum saman á öðru stefnumótinu okkar. Við hlógum og töluðum um allt milli himins og jarðar. Þá rann það upp fyrir mér að þetta væri eitthvað sem ég gæti alveg hugsað mér að gera til æviloka.“

Nýtrúlofaða parið er hamingjusamt.
Nýtrúlofaða parið er hamingjusamt. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hver er lykillinn að góðu sambandi (í ykkar tilfelli að minnsta kosti)?

„Fyrst og fremst þá er það vinskapurinn. Ef maður ætlar að verja lunganum af deginum með einhverjum þá er algjörlega nauðsynlegt að geta haft gaman saman og átt skemmtilegar og gefandi samræður. Við spjöllum nánast óhóflega mikið saman og ræðum mikið um hvert okkur langar að stefna saman í lífinu, hvað okkur langar að sjá og upplifa.“

Hverjir finnst þér bestu kostir maka þíns?

„Magnús er svo mörgum góðum kostum gæddur. Hann er góðhjartaður, hjálpsamur, úrræðagóður og ofboðslega myndarlegur (hlutlaust mat).“

Hver er rómantíski aðilinn í sambandinu?

„Magnús er margfalt meiri Rómeó en ég. Til að mynda þegar ég kem heim eftir að hafa verið erlendis bíða mín oftar en ekki falleg blóm og uppáhalds nammið mitt. Hann er líka duglegur að taka til í íbúðinni þegar ég er í burtu og hellir upp á kaffi langflesta morgna og færir mér morgunbollann upp í rúm. Ég hef samt ort hringhendu til hans.“

Hvað gerið þið þegar þið farið á stefnumót eða viljið gera vel við ykkur?

„Við erum algjörir sundgarpar og förum mjög reglulega í sund, en við erum með markmið að væta okkur í öllum laugum á landinu, það gengur mjög vel.

Magnús er líka mikill matarunnandi og finnst gaman að töfra fram góðan mat eða fara út að borða. Ég trúi því að það séu til tvær tegundir af manneskjum, þær sem borða til að lifa og þær sem lifa til að borða. Magnús lifir til að borða og ég borða til að halda í mér líftórunni en við njótum okkar ávallt yfir ljúffengri máltíð.“

Parið nýtur þess að eyða tíma saman.
Parið nýtur þess að eyða tíma saman. Ljósmynd/Úr einkasafni

Eru einhverjir hápunktar?

„Við gengum um fáséða staði á Fjallabaki í sumar sem var dásamleg lífsreynsla en á sama tíma þrautaraun í vosbúð og úrhelli. Við heimsóttum einnig Tæland í páskafríinu sem var hreint út sagt mögnuð upplifun. 

En ætli það sé ekki hversdagsleikinn sem eigi vinninginn, bara að vakna saman og brasa eitthvað skemmtilegt. Við erum algjörir braskóngar og komum okkur reglulega í alls konar ógöngur en þá er mjög heppilegt að hann er pollrólegur og yfirvegaður að eðlisfari en ég er aðeins meiri stresspeppari. Við náum því samnýta krafta okkur og leysa úr hlutunum í sameiningu.“

Hvernig hefur sambandið þróast?

„Mjög vel! Við erum sífellt að læra meira inn á hvort annað og það er mjög gaman að kynnast honum inn í kjölinn, en stundum kemur það mér á óvart hvað honum finnst um vissa hluti. Það er áhugavert að þekkja einhvern svona vel, en samt ekki, því vissulega höfum við bara þekkst í sautján mánuði – en svo ég leyfi mér að sletta: „When you know, you know.“

Segðu frá bónorðinu?

„Mig hafði lengi langað að heimsækja Færeyjar og fara á Ólafsvöku og dansa orminn langa með frændum okkar þar. Sá draumur rættist nú í sumar. Magnús var heldur betur til í að fara með mér og við keyptum okkur far með Norrænu frá Seyðisfirði til Færeyja, þar sem við tjölduðum í rigningu og roki með vinum okkar. 

Hamingjan ræður ríkjum.
Hamingjan ræður ríkjum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Við áttum dásamlegar stundir í pollagöllunum í Færeyjum en vorum svo heppin að fá stakan sólskinsdag, sama dag og við áttum að ná bátnum aftur til Íslands. Við fórum því í hópferð á Kirkjubæ, sem er einn sögufrægasti staður Færeyja, og þar sem ég var sú eina á bíl þá ferjaði ég vini okkar þangað.

Við vorum orðin heldur tæp á tíma til að ná dallinum heim til Íslands þegar Magnús biður mig um að labba spölkorn út á lítinn tanga á Kirkjubæ, bara við tvö.

Ég var ekki alveg á þeim skónum þar sem ég vildi drífa mig aftur í Þórshöfn til að ná Norrænu og koma í veg fyrir að við enduðum sem strandaglópar í Færeyjum. Þrátt fyrir það þá tókst Magnúsi að sannfæra mig um að labba með honum. Ég var mjög upptekin við að taka upp Instagram-myndband af útsýninu þegar ég fann hann tylla sér niður fyrir aftan mig og hélt að hann væri að bjóða mér að setjast á hnéð á sér eftir þessa örstuttu göngu okkar. Ég hlammaði mér því niður og hélt áfram að taka upp myndbandið, en skömmu síðar ýtti hann í mig og bað mig um að snúa mér við. Þá var hann á skeljunum og með hringa tilbúna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál