Sársaukafullt að syrgja það sem aldrei varð og aldrei verður

Sigrún með tvö barna sinna; Örnu og Val. Arna er …
Sigrún með tvö barna sinna; Örnu og Val. Arna er fædd 2015 og Valur 2023. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Kristínar Valsdóttir missti Ylfu dóttur sína eftir 38 vikna meðgöngu, hún fæddist andvana 14. desember 2021. Sigrún segir frá sorg sinni og missi í viðtali við Karólínu Helgu Símonardóttur í hlaðvarpi Sorgarmiðstöðvar. 

Þegar Sigrún kom á fæðingardeildina, spennt að fá stúlkuna sína í hendurnar, fannst lít­ill sem eng­inn púls við skoðun. Í fram­hald­inu var brugðist hratt við og Sigrún sett í bjöllu­keis­ara. Þegar hún vaknaði upp úr svæf­ingu eftir ­keis­ar­ann kom í ljós dótt­ir henn­ar var lát­in.

Sigrún segir frá því í þættinum að eftir fæðinguna hafi hún upplifað einhvern súrrealískasta tíma ævi sinnar en á sama tíma hafi hún upplifað þakklæti. Hún er þakklát fyrir að hafa fengið tíma með látinni dóttur sinni sem þau gáfu nafnið Ylfa. 

„Ég fór aldrei út af spítalanum. Maðurinn minn fór og var að sinna dóttur okkar. Ég var þarna inni á þessu herbergi í marga daga. En að sama skapi þá er ég svo ótrúlega þakklát fyrir allan þennan tíma sem ég fékk með henni,“ segir Sigrún og bætir við: 

„Að hafa fengið tækifæri til að skoða hana, skoða neglurnar hennar, einhvern vegin taka hana inn og sjá líkindin,“ segir Sigrún og minnist á að minningarkassinn sem hún fékk frá félaginu Gleym mér ei hafi hjálpað henni. 

Sigrún Kristínar Valsdóttir fæddi andvana dóttur 14. desember 2021. Hún …
Sigrún Kristínar Valsdóttir fæddi andvana dóttur 14. desember 2021. Hún upplifði mikla sorg í kjölfarið. Ljósmynd/Aðsend

Kassinn sem varðveitir minningar

Sigrún lýsir því í þættinum hvernig henni leið þegar hún opnaði kassann og skoðaði innihaldið. Hún segir að það hafi verið erfitt að meðtaka að litla ljósið þeirra væri látið. 

„Það er einhver sem veit, hvað á að gera, hvernig á að vera og hvernig mér líður,“ segir Sigrún. Í kassanum var ýmislegt sem hálpaði til við að búa til minningar um Ylfu. Þar var lítið box fyrir hárlokk, leirmót fyrir litlar fætur og hendur. Og armband fyrir barnið sjálft og foreldra. Sigrún segir að henni hefði aldrei dottið í hug að varðveita þessar dýrmætu minningar. 

„Ég vissi ekki einu sinni að minningarkassar væru eitthvað sem væri gert. Það var þessi hlýja sem mér fannst koma frá þessum kassa á minni verstu stundu. Það var meira segja búið að hugsa fyrir því hvernig ég gæti varðveitt minningu dóttur minnar,“ segir Sigrún sem hafði fengið að kynnast sorginni áður en dóttir hennar fæddist andvana. 

Sigrún missti föður sinn 2018 og systur sína árið 2002. Hún segir að það sé öðruvísi að syrgja afkvæmi sitt sem fæðist andvana en að missa nána ættingja. 

„Það að missa barnið sitt, barnið sem maður fékk aldrei að hafa hjá sér. Er annað, þú þarft að skapa rými. Maður hefur ekki tónlistina sem þið hlustuðuð á saman,“ segir hún sem dæmi.  

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Gleym mér ei Styrktarfélag býður til minningarstundar þriðjudaginn 15. október, kl. 20.00 í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Aá dagur er á heimsvísu tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda