„Við biðjum vonandi öll á jólum um frið. Það er það sem við þráum öll. Við þráum frið í heiminn og við viljum börnunum okkar ekkert minna en þau fái frið. Við viljum að börnin okkar alist upp við frið og að þau fái að njóta lífsins og að heimurinn sé fallegur og góður fyrir þau. Og við viljum það fyrir öll börn, ekki bara okkar fjölskyldubörn heldur börn um allan heim,“ segir Díana Ósk Óskardóttir prestur á Landspítalanum.
Oft er talað um jólin sem hátíð kærleika, ljóss og friðar. Það er hinn rétti jólaboðskapur. Staðreyndin er hins vegar sú að ýmsar skuggahliðar lífsins líkt og pólitísk bitbein samtímans um víða veröld koma í veg fyrir að öll mannsbörn fái tækifæri til að upplifa hinn raunverulega boðskap jólanna.
„Þetta er ákall um frið sem er svo mikilvægt að muna eftir alla daga auðvitað en kannski sérstaklega um jólin af því það er friðarboðskapur,“ segir hún og heldur áfram:
„Alveg eins og ég segi á morgnanna: „Drottinn minn viltu leiða mig í dag. Viltu sýna mér hvar ég fæ best þjónað þér.“ Oft er það ekki mannlegur máttur sem getur leyst svona hluti þannig það er líka von í því að við eigum þarna algóðan Guð sem vonandi vakir yfir okkur.“
Erfiðleikar, hörmungar, sorg og vandamál hverfa ekki á jólunum en Díana segir að í einhverjum tilfellum sé hægt að gleyma sér eitt stundarkorn í friðsæld jólanna. Njóta þess að vera í núinu og halda þakklætinu á lofti.
Hún nefnir þó að margar fjölskyldur eigi erfitt uppdráttar í kringum jólahátíðina þar sem samskiptavandi, áfengi og vímuefni, ofbeldi, fátækt og önnur harmkvæli þvælast fyrir. Í slíkum aðstæðum er ekki einfalt að halda gleðileg jól.
„Eins og í fjölskyldum þar sem ríkir ófriður að fólk geti lagt þennan ófrið til hliðar og notið saman einhverra stunda - gert bara vopnahlé.“
Hugtökin átök og ófriður eiga sér víðtæka merkingu. Fjölskylduófriður getur verið jafn misjafn og hann er margur. Stórar og miklar tilfinningar fylgja slíkum ófrið og oftar en ekki getur það kostað fjölskyldumeðlimi blóð, svita og tár að stilla til friðar, ýta sjálfinu til hliðar og grafa stríðsöxina rétt yfir hátíðirnar.
Ertu með eitthvað ráð fyrir þá sem eru í erfiðum aðstæðum samanber þær sem hér hafa verið nefndar?
„Það er kannski ekki eitthvað eitt sem virkar fyrir allar þær birtingarmyndir sem eru í gangi en til að gefa eitthvað ráð þá myndi ég vilja segja að þar sem ríkir það mikill ófriður að þar er betra að vera í sundur. Þá er ég að tala um ef það er mikið ofbeldi eða slíkt. Í þannig aðstæðum er betra að halda í friðinn með því að vera í sundur. En þar sem því er við komið að geta samið um vopnahlé og eiga góðar stundir, ef fólk ræður við það þá er það auðvitað alltaf fallegast.“
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Díönu Ósk í heild sinni.