Rithöfundurinn Molly Roden Winter var búin að vera í opnu hjónabandi í 15 ár áður en hún loksins fann fulla sátt með það. Loks fann hún til gleði yfir því að maður hennar væri með einhverri annarri.
„Hann átti 56 ára afmæli. Við vöknuðum saman, hann teygði sig í símann sinn og ég sá að hann var að skoða skilaboð frá henni þar sem hún óskaði honum til hamingju með afmælið og sagðist elska hann. Ég fann ekki fyrir neinu, engin reiði eða afbrýðissemi,“ segir Winter í pistli sínum á The Stylist.
„Eitt sinn hefði mér þótt þetta óbærilegt en ekki í dag. Það eru 15 ár síðan við opnuðum hjónabandið og átta ár síðan maðurinn minn hitti núverandi kærustu sína. Nú ber ég aðeins jákvæðar tilfinningar.“
„Í gegnum árin þegar ég hef sagt fólki að ég sé í opnu hjónabandi segir fólk oftast að það gæti ekki afborið slíkt. Það yrði of afbrýðisamt. Ég tengi við það. Ég afbar þetta ekki lengi vel. En afbrýðisemi er gríma fyrir þau innri átök sem maður glímir við. Í mínu tilviki var þetta barátta við sjálfsvirði. Við þráum einkvæni til þess að upplifa það að maður sé einstakur og að einhver hafi valið mann. Það fyllir okkur öryggi. Að þurfa að deila slíkri ást getur verið ógnvænlegt og fær mann til þess að óttast að vera yfirgefinn og verðlaus.“
„Þetta kann að hljóma eins og klisja en einn af kostum þess að opna hjónabandið var að ég tengdist sjálfri mér betur. Ég leitaði til ráðgjafa og hlúði að sjálfri mér. Ég lærði á gítar, fór í ræktina og hugleiddi daglega. Ég ráðlegg öllum að efla tengslin við sjálft sig áður en það ræðst í fjölveru. Ég hugsa um mig og ætlast ekki til neins af öðrum. Þannig er ég mun öruggari í samböndum. Þetta tók þó sinn tíma.“