Áhrifavaldurinn Zanna van Dijk er 188 cm á hæð. Hún var undir miklum þrýstingi að kynnast manni sem væri að minnsta kosti jafnhár ef ekki hærri. Hún endaði þó á að giftast manni sem er 180 cm. Í viðtali við The Stylist segir hún frá þeim fordómum sem mættu þeim í samfélaginu vegna hæðarmunar.
„Ég var alltaf hæsta stelpan í bekknum og er því löngu orðin vön því að fólk stari á mig vegna hæðar minnar. Þegar ég birti myndir af mér á samfélagsmiðlum fæ ég mikil viðbrögð frá konum sem þora ekki að vera í hælaskóm og eru bognar í baki því þeim líður svo illa með að vera hávaxnar. Ég hef hins vegar alltaf verið örugg með mig og hamingjusöm með hæðina.“
„Samfélagið er þannig að fólki finnst það undarlegt að sjá konuna hærri en karlinn og bandarísk tölfræði segir að konan sé hærri í aðeins 4% hjónabanda. Margir draga þá ályktun að karlar vilji ekki vera með konum sem eru hærri en þeir og konur vilji að sama skapi ekki vera með körlum sem eru lægri en þær."
„Ég tók það alltaf fram á stefnumótasíðum hversu há ég var og gerði bara ráð fyrir því að ég myndi enda með hávöxnum karli. En svo hitti ég manninn minn.“
„Við hittumst á stefnumótasíðu og ég sagði honum hversu há ég var. Hann hins vegar minntist ekkert á sína hæð. Um leið og ég sá hann þá hugsaði ég: Ó, hann er lágvaxinn. Ég var hissa því ég átti ekki von á því. En við fundum strax mikla tengingu og okkur kom vel saman. Eftir það pældi ég ekki í hæðarmuninum.“
van Djik komst síðar að því hversu umdeilt það er að vera með lágvaxnari manni þegar myndir fóru að birtast af þeim saman á netinu. Stundum er hún á háum hælum og þá er hæðarmunurinn enn ýktari. „Það varð alltaf brjálað í athugasemdakerfinu. Mörgum þótti hræðilegt að ég skyldi vera hærri en hann og það særði mig mjög. Fólk sagði að ég liti út fyrir að vera mamma hans, ég væri bara með honum fyrir peningana hans og þetta væri allt svo neyðarlegt.“
„Við höfum nú verið saman í tíu ár og þetta ber næstum aldrei á góma hjá okkur. Þetta er bara ekki vandamál. Maðurinn minn segir þetta ekki skipta hann neinu máli og hann hefur alltaf hvatt mig til þess að vera á háum hælum og fagna því hversu há ég er.“
„Fyrri kærastar hafa ekki verið jafnskilningsríkir. Margir hafa hætt við stefnumót með mér eftir að þeir föttuðu hversu há ég var. Þá heyri ég á mörgum að þeir forðist að hefja samband með þeim sem þeir líka við af þessari ástæðu. Ég vil hins vegar sýna fólki að hæð segir ekki til um gæði sambands.“
„Sem samfélag höfum við áorkað ýmsu og reynum að forðast að vera yfirborðskennd en hér eimir enn eftir af slíku. Við sættum okkur við að ekki eru allir með þvottabretta-maga en við einblínum enn á hæðina.“
„Það eru forneskjulegar hugmyndir um að konan eigi að vera lítil og nett í samanburði við karlinn og sem betur fer er þetta að breytast með tilkomu Nicole Kidman og Zendaya sem eru í samböndum við lægri karla.“
„Ráð mitt til hávaxinna kvenna er að láta hugmyndir um hæð ekki aftra sér frá því að finna réttu manneskjuna. Að missa af einhverjum sem gæti gert þig hamingjusama væri synd og skömm.“