Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir fyrir sér erfðamálum og hvað myndi gerast ef hann og fjölskyldan myndi farast á sama tíma.
Heil og sæl.
Við hjónin vorum á ferðalagi á dögunum í Frakklandi ásamt dóttur okkar. Hún er okkar eina barn og við ferðumst mjög mikið saman öll fjölskyldan, nokkrum sinnum á ári hið minnsta.
Við sátum föst í umferðarteppu á hraðbrautinni um stund sem orsakaðist af slysi sem hafði orðið skammt frá. Þegar við fórum framhjá slysstað var augljóst að alvarlegt slys hafði orðið, en það vakti mig og konuna mína til umhugsunar varðandi erfðamál.
Við hjónin erum bæði alin upp af einstæðum mæðrum sem hafa stutt okkur óendanlega á öllum sviðum og alltaf verið til staðar fyrir okkur og lagt sig fram um að vera hluti af lífi okkar. Að sama skapi þá hafa feður okkar beggja ekkert skipt sér af okkur, hafa ekki samband og leggja sig ekki fram við að vera hluti af lífum okkar eða barnsins okkar.
Nú höfum við komið ár okkar ágætlega fyrir borð og eigum nokkuð af eignum. Því var hugsunin sú, að ef svo ólíklega vildi til að við fjölskyldan færumst öll, til dæmis af slysförum, við bæði hjónin og jafnframt barnið okkar, okkar eini erfingi, þá ættu feður okkar hjóna væntanlega tilkall til dánarbús okkar ef erfingja nyti ekki lengur við.
Báðum finnst okkur það algerlega óhugsandi að feður okkar geti átt tilkall til dánarbús eða okkar eigna við þessar aðstæður.
Er með einhverjum hætti hægt að tryggja það lagalega að foreldri hafi ekki tilkall til dánarbús við slíkar aðstæður?
bestu kveðjur og þakkir.
Sæll.
Þó að ólíklegt sé að þær aðstæður sem þið lýsið muni raungerast er það gömul saga og ný að lífið óútreiknanlegt og enginn getur séð inn í framtíðina. Það er því skynsamlegt að velta fyrir sér þeim aðstæðum sem upp geta komið og hvaða afleiðingar þær kunna að hafa m.a. á lagalega stöðu viðkomandi.
Ef svo illa færi að þið hjónin og barnið mynduð öll farast á sama tíma tækju dánarbú ykkar við réttindum og skyldum hinna látnu. Undir þessum kringumstæðum eru engir skylduerfingjar til staðar, þ.e. hvorki börn né makar sem hafa gengið hafa í hjónaband. Þar sem ekki er um skyldubundinn erfðarétt að ræða kemur til frændsemi samkvæmt lögum, þ.e. foreldrar, systkini og systkini foreldra sem kallast lögerfingjar.
Þar sem engum skylduerfingjum er til að dreifa eruð þið ekki bundinn af þeirri reglu erfðalaga að geta eingöngu ráðstafað 1/3 hluta af eignum ykkar með erfðaskrá. Þið hjónin getið því ráðstafað öllum eignum ykkar í erfðaskrá.
Ég tel ljóst af spurningu ykkar að þið hafið þann afdráttarlausa vilja, að ef þær aðstæður sem þið lýsið raungerist, þá muni mæður ykkar erfa allar eignir ykkar. Samkvæmt framansögðu er unnt að gera þetta með því að útbúa erfðaskrá sem geymir þann vilja ykkar. Ég ráðlegg ykkur að leita ykkur lögmannsaðstoðar við gerð erfðaskrárinnar, enda gilda strangar reglur form slíks löggernings.
Bkv.
Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Einari Huga og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.