Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir fyrir sér hvort ákveðnar greiðslur skerði örorkubætur og hvað gerist ef um arf sé að ræða.
Sæll Eymundur.
Það varðar skerðingar öryrkja. Öryrkjum er aðeins ætlað að erfa annað fólk einu sinni ellegar komi til skerðingar. Öryrkjum er einnig gerður afturvirkni eignaskattur þegar eignir sem eru þeirra fyrir örorkumat eru dregnar frá greiðslum ef efnisleg sala er gerð eftir örorkumat. Ekki er alveg ljóst hvort að meðferð hlutabréfa, skattlagning arð og svo framvegis komi til skerðinga ef öryrki endurfjárfestir þá og með/án skuldsetningar þó eignir séu fyrir til að komast hjá fjármagnstekjuskatti.
Kveðja,
BB
Sæll kappi, ég er reyndar ekki alveg að skilja spurninguna en reyni mitt besta til að svara.
Fenginn arfur skerðir ekki bætur frá Tryggingastofnun enda er ekki um tekjur sem slíkar að ræða þegar menn móttaka arf. Hinsvegar skerða fjármagnstekjur bætur og ef umræddur arfur er að skila tekjum t.d. í formi leigutekna eða annarra fjármagnstekna þá eðlilega skerðir það bætur frá Tryggingastofnun.
Engu máli skiptir hver ráðstöfun fjármagnstekna er t.d. hvort greidd eru upp lán eða endurfjárfest. Fjármagnstekjur er alltaf skattskyldar á tekjuári með þeirri undantekningu að það er hægt að jafna saman tapi af sölu hlutabréfa (ekki lækkun) á móti hagnaði af sölu hlutabréfa innan ársins.
Hver svo sem staða einstaklinga er í samfélaginu, hvort þeir eru öryrkjar, einstæðir foreldrar, Garðbæingar, áhrifavaldar eða aðrir þá gilda einfaldlega sömu skattalög sem betur fer um alla þessa aðila. Allir eru jafnsettir skv. lögunum og enginn er jafnari en annar.
Bætur til aðila hvort sem það eru bætur frá Tryggingastofnun, barna- eða vaxtabætur, eru ekki laun í neinu samhengi. Um er að ræða samfélagslega hjálp til þeirra aðila sem eiga ekki möguleika á að afla sér launatekna t.d. vegna aldurs eða örorku. Þess vegna grípur samfélagið inní og greiðir bætur (sem reyndar er hægt að rífast um endalaust hvort séu of lágar eða háar) til þeirra aðila sem falla undir ákveðin viðmiðunarmörk.
Eins og ég hef áður tjáð mig um þá sé ég engin rök fyrir því að greiddar séu bætur til aðila úr sameiginlegum sjóðum okkar hvort sem þeir eru öryrkjar eða aðrir sem hafa t.d. fjármagnstekjur sem eru yfir viðmiðunarmörkum þannig að mögulegar bætur frá Tryggingastofnun skerðist.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.