Íbúi í Fossvogshverfi rak upp stór augu á fimmtudag þegar hann sá unaðsvöru sem var búið að leggja ofan á rafmagnskassa við Hulduland í Fossvogsdalnum. Hann tók til sinna ráða til að koma vörunni, sem er sogtæki til að örva snípinn, aftur í réttar hendur og tók því mynd og auglýsti eftir eigandanum í hverfisgrúppu á Facebook.
Færslan vakti, eins og við mátti búast, mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem einhver auglýsir eftir eiganda svokallaðrar „snípakítlu“.
Þó nokkrir rituðu athugasemdir við færsluna en ekki voru allir á sama máli um hvað tækið væri, en einhverjir töldu það vera ónýtan hitamæli, sem er ekki ólíkur tækinu í útliti.
Tækið, sem er fjólublátt á litinn, var rennandi blautt eftir mikinn rigningardag en tilgangur þess er einmitt að aðstoða eiganda sinn við að blotna og ætti því ekki að rigna niður á förnum vegi.