Kona segir í pistli á Daily Mail frá funheitu ástarsambandi við tengdason sinn. Ekki nóg með það heldur kennir hún dóttur sinni um framhjáhaldið.
„Ég hafði alltaf lagt áherslu á að kynlíf skipti karlmenn miklu máli í samböndum. Dóttur minni fannst það alltaf gamaldags afstaða og þegar hún eignaðist börn og var upptekin af ferlinum þá hélt tengdasonurinn framhjá - með mér!“
„Já, ég svaf hjá föður barnabarna minna. Eiginmanni dóttur minnar. Og já ég hvika ekki frá því að þetta sé að miklu leyti henni að kenna því hún gleymdi að sinna þörfum hans.“
„Dóttir mín hafði stungið upp á því að hann kæmi og byggi hjá mér í sex mánuði vegna vinnuskuldbindinga en við búum í sitthvoru landinu. Ég hélt að ég gæti þannig haft augun á honum fyrir hana. En ég laðaðist að honum. Mér fannst hann fyndinn, sjarmerandi, gáfaður og afskaplega myndarlegur. Og hann sagði mér að dóttir mín væri hætt að vera náin honum.“
„Ég skil að fólk hneykslist á mér. Ég er ekki skrímsli. En þetta snerist um meira en kynlíf. Við þróuðum tilfinningar í garð hvors annars. Svo vorum við bæði svo einmana. Maðurinn minn var mikið fjarverandi vegna vinnu oft vikum saman. Og þegar hann var heima fannst mér ég vera ósýnileg. Tengdasonurinn kom hins vegar fram við mig líkt og ég væri gyðja og hlustaði á mig.“
„Smátt og smátt áttaði ég mig á því hvað ég naut þess að hafa hann nærri. Hann var spjallari ólíkt eiginmanni mínum. Hann hrósaði mér mikið og við fórum að elda saman kvöldmat. Hann sagði mér allt um æsku sína, unglingsárin og framtíðaráætlanir. Hann sagðist vilja ferðast um heiminn. Hann fór sífellt meir að hnýta í dóttur mína, hvernig hún nennti aldrei hinu og þessu og fleira í þeim dúr. Eitt kvöldið fór hann að tala um að það vantaði alla nánd. Þetta byrjaði sakleysislega en svo kom allt út. Dóttir mín hafði átt erfiða fæðingu og varð alveg afhuga kynlífi. Þau stunduðu kynlíf einu sinni í mánuði í mesta lagi. Hann hafði stungið upp á ráðgjöf en hún neitaði.“
„Eitt kvöldið dönsuðum við saman í stofunni og eitt leiddi af öðru. Við misstum stjórn á öllu og það var æðislegt. Eftir á var ég miður mín en við héldum þessu samt áfram þar til hann sneri loks heim til sín.“
„Kannski var hann bara að nota mig. Ég yrði eyðilögð ef dóttir mín kæmist að þessu en ég sé ekki eftir þessari tilfinningu...hvað ég var lifandi á meðan á framhjáhaldinu stóð. Myndi ég gera þetta aftur? Ég bara veit það ekki.“