Bjarni Björgvin Árnason telur sig vera nokkuð rómantískan. Hann ætlar að dekra við sína heittelskuðu, Carinu Denisu Blaga, á konudaginn sem er á sunnudag.
Blaðamaður Smartlands forvitnaðist um ástina og konudagsplön Bjarna Björgvins.
Bjarni Björgvin er 24 ára gamall rafvirkjanemi og starfar einnig hjá fyrirtækinu Kambstál. Hann kynntist kærustunni sinni þegar þau voru bæði nemendur í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
Parið fagnar fimm ára sambandsafmæli sínu í ár.
Hvernig kynntist þú makanum þínum?
„Ég og Carina kynntumst í framhaldsskóla. Vinahópar okkar hafa alltaf tengst þannig að ég vissi alltaf af henni. Við urðum mjög góðir vinir á skólagöngunum en fórum svo fljótlega að spjalla á Snapchat.
Eitt kvöldið tókst mér að plata hana til að klippa á mér hárið, í miðjum kórónuveirufaraldri, og eftir það ákváðum við að horfa á kvikmyndina Elf. Kvöldinu lauk með kossi. Við rífumst enn þann dag í dag um hvort okkar hefði átt frumkvæðið að kossinum, ég vil meina að það hafi verið ég.“
Hvort ykkar er rómantískara?
„Ég verð að viðurkenna að hún er rómantískari helmingurinn í sambandinu en ég á þó mín augnablik. Carina bauð mér nýverið í rómantíska paraferð til Spánar í tilefni af afmælinu mínu.“
Ert þú með skemmtileg plön fyrir konudaginn?
„Við elskum að fara í jarðböð, þannig að á konudaginn langar mig að bjóða henni í Hvammsvík til að njóta slökunar og ljúfra stunda.“
Er einhver rómantísk hefð sem þið hafið þróað saman?
„Við höfum þróað þá skemmtilegu hefð að keyra til Akureyrar yfir vetrartímann í kósí „get away“. Einnig finnst okkur gaman að fara í keilu en það getur oft orðið smá-órómantískt þar sem við erum bæði með mjög mikið keppnisskap.“