„Meðvirkni getur átt sér stað í hvaða umhverfi sem er, þegar einstaklingar búast við of miklum stuðningi hver frá öðrum, setja óviðeigandi mörk og sýna ástæðulausa tryggð.“ Þetta hefur Jeremy Sutton, doktor í heimspeki, m.a. eftir Virginiu A. Kelly, höfundi bókarinnar Addiction in the Family.
Sutton skrifar grein um meðvirkni á vefsíðuna Positive Psychology sem áhugavert er að kynna sér. Greininni er ætlað að skoða þá staðreynd að meðvirkni geti haft skaðleg áhrif á sambönd og hvaða skref fagaðilar taka til að styðja við bata skjólstæðinga frá meðvirkni.
Hugtakið meðvirkni er sagt vera mikið notað í heilbrigðisgeiranum þegar kemur að meðhöndlun við fíknisjúkdómum. Hins vegar er einnig hægt að skilgreina meðvirkni óháð fíkninni, þótt hafa beri í huga að hún sé ekki skilgreind sem sálræn röskun.
Þá er meðvirkni skilgreind sem of mikið tilfinningalegt eða sálrænt traust til maka, foreldris, barns eða annarrar manneskju, samkvæmt Bacon & Conway (2023).
„Sumir fagaðilar lýsa meðvirkni sem sambandi þar sem báðir einstaklingar glíma við lágt sjálfsmat, eiga erfitt með að setja mörk, sem gjarnan felur í sér óeðlilega stjórnun.“
Bacon & Conway segja meðvirkni fela í sér tuttugu einkenni og eru þar á meðal; að bera umhyggju fyrir öðrum á kostnað eigin þarfa, þóknast öðrum til að sækjast eftir viðurkenningu og forðast deilur, bæla niður tilfinningar, kunna ekki að setja mörk, finna til óhóflegrar ábyrgðar gagnvart öðrum og stjórnsemi.
Listi af ofantöldum einkennum er þó ekki fullnægjandi, fleiri atriði eru tiltekin á listanum.
Þá fer Sutton einnig yfir orsakir meðvirkni í grein sinni sem byggja á skilgreiningum Bacon & Conway. Þær orsakir sem m.a. eru taldar upp eru: Alkóhólismi í fjölskyldu, vanræksla og andleg misnotkun, áföll í æsku og erfðir, sem hafa óbein áhrif.
Þá geta ofangreindar orsakir og einkenni leitt til meðvirkni einstaklings, sem felur m.a. í sér að missa tök á eigin líðan með því að einblína of mikið á hinn aðilann í sambandi, lágt sjálfsmat, tilfinningalegan rússíbana, að finnast hann eiga hinn aðilann í sambandi, afbrýðisemi og fölsk öryggistilfinning.
Í greininni kemur fram að meðvirkni sé flókið vandamál sem geti rústað samböndum. Rannsóknir benda til að uppeldi og myndun tengsla geti haft veruleg áhrif á upphaf og viðhald meðvirkrar hegðunar. Óöryggi í tengslum, t.d. að forðast ákveðna hluti, sé líklegra til að leiða til meðvirkra ástarsambanda.
Ólíkt meðvirkum samböndum einkennast heilbrigð sambönd af öryggi í samskiptum, heilbrigðum mörkum, sjálfsvirðingu, reglu á tilfinningum og meira jafnvægi.
Sutton fer yfir nokkur atriði er varða hvernig komast eigi yfir meðvirkni, byggt á tillögum Kelly (2015). Fyrst og fremst þarf einstaklingur að spegla eigin hegðun og vera heiðarlegur.
Viðkomandi þarf að viðurkenna meðvirknina í sambandinu og festa hendur á neikvæðar hugsanir. Einstaklingurinn þarf að átta sig á að tilfinningar makans hafa ekkert með hans eigin að gera og eiga ekki að hafa áhrif á sjálfsmat hans.
Gera grein því fyrir hvar í sambandinu vanti mörk og að jafnvel þurfi að eyða smá tíma frá maka, vera meira með vinum eða sinna eigin áhugamálum.
Síðast en ekki síst spilar faglegur stuðningur stóra rullu, ef nauðsynlegt þykir.