Það er föstudagskvöld og ég ligg uppi í sófa, með kött í yfirþyngd mér á vinstri hönd, á meðan ég vafra um á Tinder. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, fyrir utan að ég myndi ekki láta nokkurn karlmann sem ég hef líkað við á smáforritinu sjá mig svona útlítandi á fyrsta stefnumóti … ekki á öðru … og ekki á því tíunda; ómálaða, dauðþreytta, í kósýgallanum, sem er forljótur.
Það verður að teljast lúxus, þegar ekki er hlaupið að því að kíkja út hvenær sem þorstinn eftir ævintýrum lætur á sér kræla, að geta flatmagað á föstudagskvöldi og valið sér framtíðarmaka eða einnar nætur elskhuga og allt þar á milli.
Eftir allnokkra yfirferð hef ég ekki sópað mörgum til hægri – að sópa til hægri merkir að manni líkar viðkomandi. En þá allt í einu … Bingó og „match“! Þvílíkt „hot stöff“. Hann er ekki einungis vel menntaður, heldur lítur út eins og karlkynsfyrirsæta í Boss-nærbrókaauglýsingu eða heitri YSL-ilmvatnsauglýsingu. Og viti menn, hann byrjar strax að spjalla.
Ég finn spennustigið magnast upp, nudda saman lófunum og hugsa með mér að nú sé ég komin í feitt.
Eftir nokkurt spjall nær þó rökhugsunin tökum á ævintýraþránni. Rödd móður minnar bergmálar í höfðinu: „Guðrún mín, útlitið er ekki allt.“
Eitthvað við manninn lætur mér finnast hann of fullkominn. Og hvað gera bændur þá? Jú, það er krókur á móti bragði að biðja viðkomandi að færa spjallið á annan samfélagsmiðil, eins og Instagram (Nota bene: Það er alltaf mjög skrýtið ef fólk vill það ekki, hvað hefur það að fela?)
Hann er til í það og ég fer að skoða myndirnar hans. Það tekur mig ekki langan tíma að uppgötva að maðurinn er harðgiftur. Ha? Má þetta bara?
Er um að ræða vörusvik eða fór kannski eitthvað fram hjá mér?
Þegar ég skoða lýsinguna á Tinder-prófílnum hans betur stendur að hann sé „ENM“. Ég fer á leitarvélina Google, sem bjargar manni úr alls kyns aðstæðum, og Google segir að „ENM“ sé „Ethical Non-Monogamy“ sem þýðir í raun heiðarleg fjölást, eða eitthvað í þá veru.
Það er ekki nóg með að maður þurfi að passa sig á andlega veikum einstaklingum, pervertum, gervigreindarreikningum eða öllu því sem boðið er upp á í stafrænum heimi, heldur þarf einnig að rýna í hvort viðkomandi sé fjölkær.
Hvað er það? Ég meina, ef fólk vill eiga fleiri en einn elskhuga af hverju er það ekki bara á lausu? Ef ég hitti mann sem er fjölkær og giftur, hvaða hlutverki gegni ég þá? Verð ég kærasta, hjásvæfa eða hvað? Hvernig get ég treyst á að þetta sé allt svona heiðarlegt eins og hann gefur til kynna? Er hann kannski að halda fram hjá henni? Hvaða einstaklingur sættir sig við að lífsförunauturinn sofi hjá öðrum? Er hægt að flokka fjölást sem framhjáhald, eða eigingirni?
Allt í góðu, bíðið við, ég vil ekki vera með fordóma, en ég bara skil þetta ekki. Og mig langar alveg til að skilja þetta betur því hann er ekki sá eini á Tinder sem tekur fram hvort um sé að ræða „einnar konu mann“ eða „fjölkæran einstakling“.
Niðurstaðan mín þetta kvöld er hins vegar: 1) Ég verð að taka viðtal við einhvern sem þekkir inn á þessi mál. 2) Eflaust freistandi tilraun fyrir einhverja, en ég er búin að setja X yfir þennan ... eða hvað?