Guðmundur Birkir Pálmason, jafnan kallaður Gummi kíró, fer ekki leynt með það hver á afmæli í dag.
Sambýliskona hans, Lína Birgitta Sigurðardóttir, eigandi íþróttavörumerkisins Define The Line Sport, fagnar 34 ára afmæli sínu í dag og birti Guðmundur fallega færslu í story á Instagram-síðu sinni til heiðurs afmælisbarninu.
Fyrstu kynni Guðmundar og Línu Birgittu áttu sér stað í ræktinni og voru þau góðir vinir í nokkur ár áður en Amor hitti þau bæði í hjartastað árið 2019. Parið trúlofaði sig þremur árum seinna, en Guðmundur fór á skeljarnar í Tuileries-garðinum í París í október 2022.
Guðmundur deildi fallegri mynd af sinni heittelskuðu með orðunum: „Mín heittelskaða á daginn í dag“ og birti einnig sæta paramynd af þeim þar sem þau sjást rölta saman hönd í hönd.
Guðmundur, sem er sannkallaður töframaður í eldhúsinu, ætlar að sjálfsögðu að dekra við Línu Birgittu í tilefni dagsins og mun því töfra fram uppáhaldsmáltíðina hennar sem er grænmetislasagne. Í eftirrétt fær afmælisbarnið heimabakaða eplaköku.
Smartland óskar Línu Birgitta innilega til hamingju með daginn!