„Þetta er málefni sem auðvelt er að hneykslast yfir“

Valdimar Þór Svavarsson hefur starfað við ráðgjöf og meðferðarvinnu í …
Valdimar Þór Svavarsson hefur starfað við ráðgjöf og meðferðarvinnu í fjórtán ár og segir fjölást vera málefni sem auðvelt sé að hneykslast yfir. Samsett mynd/Aðsend/Alexander Grey

Valdimar Þór Svavarsson hefur starfað við ráðgjöf og meðferðarvinnu í fjórtán ár. Hann heldur úti hlaðvarpinu Meðvirknipodcastið.is, sem nýtur gríðarlegra vinsælda, og rekur Fyrsta skrefið ásamt eiginkonu sinni, Berglindi Magnúsdóttur félagsráðgjafa. Fyrirtækið sérhæfir sig í meðferðarvinnu og ráðgjafaþjónustu, sérstaklega hvað varðar meðvirkni, úrvinnslu áfalla og sjálfseflingu frá ýmsum hliðum. 

Jafnvel meðvirkni getur talist lykilatriði þegar kemur að fjölást en samkvæmt Valdimari eiga sambönd og samskipti fyrst og fremst að snúast um að einstaklingar séu samkvæmir sjálfum sér, setji eigin mörk og fylgi þeim. 

Leitar fólk mikið til ykkar í tengslum við fjölást?

„Það hefur komið fólk til okkar sem veltir fjölást fyrir sér og er kannski að fást við verkefni á borð við höfnun, trúnaðarbrest o.s.frv., líkt og margir upplifa, hvort sem þeir eru í fjölástarsamböndum eða ekki.“

Fjölkvæni er ólöglegt í íslensku samfélagi, eins og í flestum löndum, á meðan fjölástir eru það ekki. „Kannski er fólk þá að finna einhvern farveg sem stangast ekki á við lög og reglur,“ segir Valdimar þegar hann er spurður um tilurð fjölástar.

„Þetta er málefni sem auðvelt er að hneykslast yfir. Margir spyrja sig eflaust hvort þetta sé ekki bara tóm vitleysa eða kynlífsfíkn.“ 

„Það getur líka verið áhugavert að velta þessu fyrir sér, …
„Það getur líka verið áhugavert að velta þessu fyrir sér, hvaðan hugmyndin um að tveir einstaklingar séu saman sé sprottin,“ segir Valdimar. Alvin Mahmudov/Unsplash

Fjölást, fjölkær og allt það

„Óhætt er að segja strax að þegar maður fer að skoða fjölástir þá er það ákveðin kanínuhola. Það er til endalaust af afbrigðum, skilgreiningum, hugtökum og orðanotkun, sem getur virkað mjög flókið þegar það er skoðað.“

En þetta er ekkert nýtt?

„Ég held þetta sé bara jafn gamalt manninum því allar sögur og heimildir segja að margir hafi leitað út fyrir hefðbundið sambandsform og við höfum alla tíð reynt að finna línur fyrir okkar eðlishvatir, hversu langt við getum farið með þær án þess að skaða okkur sjálf eða aðra.“

Valdimar deilir einnig vangaveltum um þetta hefðbundna sambandsform; tveir einstaklingar saman í hjónabandi, sem telst eðlilegast í samfélaginu.

„Það er því alveg óhætt að segja að margt hafi …
„Það er því alveg óhætt að segja að margt hafi breyst á stuttum tíma varðandi allar skilgreiningar og hugmyndir um einkvæni.“ Omar Lopez/Unsplash

„Það getur líka verið áhugavert að velta þessu fyrir sér, hvaðan hugmyndin um að tveir einstaklingar séu saman sé sprottin. Orðið einkvæni þýðir í raun að vera með sama aðilanum allt þitt líf. Fyrr á tímum var það algeng venja að stunda ekki kynlíf fyrr en fólk gifti sig og er enn þannig í sumum samfélögum. Við sjáum að þetta hefur breyst ansi mikið síðustu 50-60 árin og flestir í hinum vestræna heimi eiga fleiri en einn maka á lífsleiðinni og mun algengara er að stunda kynlíf alveg óháð sambandsformum. Það er því alveg óhætt að segja að margt hafi breyst á stuttum tíma varðandi allar skilgreiningar og hugmyndir um einkvæni.“ 

Hann bætir við að samfélagið sé orðið opnara með ýmsa hluti sem áður voru tabú. Þegar umræðan opnast getur það hljómað eins og málefnið sé að þenjast út. 

Samfélagið er orðið opnara með ýmsa hluti sem áður voru …
Samfélagið er orðið opnara með ýmsa hluti sem áður voru tabú, að sögn Valdimars. Melissa Askew/Unsplash

Börn, lagarammi og réttindi

Valdimar bendir á að „leikreglur“ séu mismunandi milli fólks og sambanda. Ein tegund fjölástarsambands geti verið þegar hjónabandið er aðalsambandið og fólk skuldbindist því. Svo geti það átt í öðrum „aukalegum“ samböndum, þó telji hann ólíklegt að fjölkærir einstaklingar geti átt í mörgum samböndum í einu: „Því við eigum flest öll nóg með okkur sjálf.“

Spurður um börn fólks í fjölástarsamböndum segir Valdimar auðvelt að blanda eigin tilfinningum í skoðanirnar.

„Hins vegar ef ég hugsa út frá þörfum barna, þá þurfa þau fyrst og fremst ást og kærleika, athygli og heilbrigðan stuðning, og það er ekkert sem segir að það sé ekki til staðar í svona samböndum.“ 

Valdimar bætir við að vitaskuld ef óheiðarleiki sé til staðar inni á heimilinu geti það haft neikvæð áhrif á börn. „Líkt og allt annað óeðlilegt sem særir viðkvæmt barn.“

Þá bendir hann á annan möguleika en það er að börnin verði fyrir aðkasti frá jafnöldrum í skólum o.s.frv. af því að þau búi við „öðruvísi“ aðstæður. „En annars hef ég ekki séð neinar rannsóknir sem beinast að börnum í svona samböndum.“

„Hins vegar ef ég hugsa út frá þörfum barna, þá …
„Hins vegar ef ég hugsa út frá þörfum barna, þá þurfa þau fyrst og fremst ást og kærleika, athygli og heilbrigðan stuðning, og það er ekkert sem segir að það sé ekki til staðar í svona samböndum.“ Zach Lucero/Unsplash

Svo ber að skoða ýmsa aðra fleti eins og réttindi fólks í fjölástarsamböndum. Til dæmis þegar hjón sem eru í opnu sambandi eignast kærustu eða kærasta, hvort sem viðkomandi flytji inn á heimilið eða ekki, þá er spurning hver verði réttindi þess þriðja aðila ef eitthvað kemur upp á og hvort viðkomandi geti varið rétt sinn. 

„Það eru auðvitað lög og reglur um sambönd fólks sem snúa að t.d. umgengni við börn, framfærslu og arf, ef eitthvað kemur upp á. Rétturinn fellur ekki sjálfkrafa til aðila sem eiga börn og eru í óvígðri sambúð. Eins hefur það áhrif ef fólk sem er í sambandi er ekki í skráðri sambúð, þá nýtur það ekki sama réttar og þeir sem eru með sambúðina skráða. Kærasti og kærasta eiga engan skýran rétt til barns eða eigna í fjölástarsambandi. Lögin eru alveg skýr.“

Geta þrír aðilar verið t.d. í skráðri sambúð? 

„Samkvæmt núgildandi lögum er eingöngu gert ráð fyrir tveimur einstaklingum í skráðri sambúð. Það hafa komið fram þingsályktunartillögur um breytingar á því á síðustu árum.“

„Kærasti og kærasta eiga engan skýran rétt til barns eða …
„Kærasti og kærasta eiga engan skýran rétt til barns eða eigna í fjölástarsambandi. Lögin eru alveg skýr.“ engin akyurt/Unsplash

Ábyrgð og heiðarleiki

Valdimar segir að samkvæmt rannsóknum séu margir sem segist vel geta hugsað sér að vera í opnu sambandi, hins vegar séu miklu fleiri sem segjast vilja það heldur en svo þeir sem láta verða af því. Hann bendir einnig á að yfirleitt fari fólk í samband með þá vitneskju að vilji sé fyrir að sambandið verði opið, miklu frekar en að umræða um slíkt komi upp eftir kannski nokkurra ára samband.

Myndirðu tengja fjölást á einhvern hátt við framhjáhald?

„Nei, ekki samkvæmt þeim skilgreiningum sem eru á þessu viðfangsefni. Í framhjáhaldi er verið að brjóta trúnað og traust. Í þessum fjölástarsamböndum er t.d. talað um „ENM“, þar sem heiðarleikinn á að vera í forgrunni. ENM eða Ethical Non-Monogamy stendur fyrir heiðarlega fjölást sem á að þýða að aðilar hafi rætt saman um hvað þeir eru sáttir við, gert með sér einhvers konar samning og þá er þeim frjálst að framkvæma innan hans. En ef þeir gera svo eitthvað annað, þá gæti það talist framhjáhald.“

„Hvað vilt þú? Viltu vera með viðkomandi? Hvernig sambandi ert …
„Hvað vilt þú? Viltu vera með viðkomandi? Hvernig sambandi ert þú að leita að? Og ertu tilbúin að vera mögulega að taka þátt í framhjáhaldi?“ Bibhash (Polygon.Cafe) Banerjee/Unsplash

Hver er helsta ábyrgð fólks í fjölástarsambandi?

„Kannanir sýna, þegar fólk í fjölástarsamböndum er spurt hvað skipti mestu máli, að mikilvægast sé að það ríki traust og heiðarleiki, að hlutirnir séu ræddir. Tekin sé ákvörðun um hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Kannanir sýna einnig að mikilvægt sé að ræða afbrýðisemi sem getur komið upp og hvernig takast eigi á við hana.“

En ábyrgð þriðja aðila sem vill taka þátt í slíku sambandi?

Það vakna auðvitað alltaf upp milljón spurningar, að sögn Valdimars, eins og t.d. hvort sá sem segist vera í opnu sambandi sé hreinlega að segja satt eða ljúga. Að endingu snúist þetta aðeins um eitt atriði: „Hvað vilt þú? Viltu vera með viðkomandi? Hvernig sambandi ert þú að leita að? Og ertu tilbúin að vera mögulega að taka þátt í framhjáhaldi?“

Að lokum ítrekar Valdimar mikilvægi þess að vera samkvæmur sjálfum sér. „Ef þú segir já þegar þú vilt segja nei þá ertu að brjóta á þínum eigin gildum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda